Bandarískur lögmaður, mágur minn, stóð á svölunum á Kaldbak. Horfði á hóp hestamanna koma niður heiðina og æja í gerðinu. Eru þetta vinir, spurði hann. Hafa þeir leyfi til að ríða um landið og nota gerðið. Nei, þetta gera allir, sagði ég, umferð hefur verið æðri eignarhaldi í lögum á Íslandi í þúsund ár. Það skildi hann ekki. Eignarhald er kóngur í Bandaríkjunum. Þú sveiflar rifflinum, ef ferðamenn ber að garði. Á Íslandi hafa hins vegar fornir og nýir löggjafar skilið, að óhindruð umferð fólks er mikilvægari en óskoruð yfirráð fólks yfir eignum sínum. Samgöngur eru lífæð samfélagsins.