Á mörkum tveggja heima

Greinar

Tilraunin til að drepa Turgut Özal forsætisráðherra segir í sjálfu sér ekkert um Tyrkland eða Tyrki. Síðan Olof Palme var myrtur í Svíþjóð, gera menn sér grein fyrir, að voðaverk eru framin hvar sem er í heiminum, jafnvel þar sem siðareglur eru í heiðri hafðar.

Tyrkir líkjast Grikkjum um margt. Þeir eiga sameiginlegar rætur í meira en tveggja árþúsunda sögu, frá því er Grikkir settust að í Litlu-Asíu. Matur og drykkur er svipaður í þessum löndum, svo og dansar og skemmtanir. Heiðarleiki einkennir Grikki og Tyrki í senn.

Munurinn sést á hvítu skyrtunum í stoltu Grikklandi og hinum svörtu í feimnu Tyrklandi. Grikkir brosa líka meira en Tyrkir. Þeim finnst ferðamenn vera heppnir að vera í Grikklandi, meðan Tyrkjum finnst þeir sjálfir vera heppnir að hafa ferðamenn í landi sínu.

Grikkir eru stoltir af sér sem tiltölulega nýfrjálsri þjóð á uppleið og tengja sig vel við gullöld fornaldar. Tyrkir sitja hins vegar í fátækum rústum gamals heimsveldis og eiga erfitt með að ná sambandi við fortíðina. Martröð soldánanna hvílir enn á herðum þeirra.

Í Tyrklandi er sagnfræðilega allt miðað við árið 1923, þegar Mústafa Kemal Tyrkjafaðir steypti síðasta soldáninum og stofnaði lýðveldi. Hann fetaði í fótspor Péturs mikla í Rússlandi og hófst þegar handa með heimsfrægu offorsi við að þvinga evrópskum háttum upp á Tyrki.

Hann lét þá taka upp latneskt letur í stað arabísks, skildi að ríki og íslamska trú, skipaði fólki að klæðast að evrópskum hætti, bannaði andlitsslæður kvenna og fez-húfur karla, tók upp vestur-evrópska lagabálka og skozkt viskí. Tyrkir skyldu verða evrópsk þjóð.

Tyrkir hafa ekki enn náð hinu nýja hlutverki. Undir niðri kraumar trúin á Allah, sem meðal annars veldur því, að bönnuð eru ritverk höfunda á borð við David Hume og Henry Miller og brenndar eru 109 kvikmyndir Tyrkjans Yilmaz Günev, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Fjölmiðlar í Tyrklandi verða að fara afar varlega gagnvart stjórnvöldum. 25 blaðamenn og ritstjórar sitja í fangelsi. Sjónvarp er algerlega undir hæl ríkisstjórnarinnar og má lítið segja frá stjórnarandstæðingum, sem sumir mega alls ekki taka þátt í stjórnmálum.

Verst er framganga lögreglunnar. Pyndingar eru enn stundaðar í fangelsum og stjórnvöld gera lítið til að draga úr þeim. Saffet Beduk lögreglustjóri segir bara, að mistök geti orðið og lítið sé við því að gera. 169 manns hafa dáið af pyndingum í fangelsum landsins síðan 1980.

Mjög mikið er bogið við stjórnvöld, sem láta sig litlu varða, þótt mannréttindasamtök landsins hafi upplýst, að fimm ára drengur var pyndaður fyrir framan foreldra sína til að fá þá til að játa misgerðir. Á öllu þessu bera ábyrgð Turgut Özal og herstjórarnir að baki hans.

Vandi þessi á sér rætur í, að ekki eru nema nokkrir áratugir síðan Tyrkir losnuðu undan aldagamalli grimmdarhefð soldánaveldisins. Lögregla og her hafa ekki verið siðvædd nægilega á evrópska vísu, þrátt fyrir róttækar tilraunir Kemals Tyrkjaföður í þá átt.

Stjórnarfar í Tyrklandi þarf að verða lýðræðislegra og mannlegra, áður en Vestur-Evrópa getur tekið landið sem fullgildan aðila í sinn hóp. Fram að því ber Evrópubandalaginu að hafna beiðni Tyrklandsstjórnar um aðild og Evrópuráðinu að meina henni fullgilda þátttöku.

Tilraunin til að myrða Turgut Özal minnir á, að Tyrkland stendur á mörkum tveggja heima og hefur enn ekki ákveðið, hvorum megin það ætlar að festa rætur.

Jónas Kristjánsson

DV