Á móti í smáu ­ með í stóru

Greinar

Í sumum járntjaldslöndum hefur framsóknarflokkum verið leyft að starfa, svo framarlega sem þeir fara eftir ákvörðunum að ofan, halda sér við smáatriðin og láta stóru málin í friði. Dagblöð þar birta líka kvörtunarbréf fólks um ýmis mál, sem ekki skipta miklu.

Neytendasamtökin á Íslandi eru í svipaðri stöðu. Munurinn er þó sá, að svigrúm þeirra er ekki afmarkað að ofan, heldur hafa þau sjálf ákveðið vettvang sinn. Þau hafa lengst af markað hann afar þröngt og neita sér enn um að ræða málin, sem skipta neytendur mestu.

Samt hafa samtökin komið að nokkru gagni. Þau hafa verið eini félagslegi málsvari neytenda í landinu. Þau hafa smám saman verið að færa sig upp á skaftið og eru nú komin á kaf í baráttu gegn aukinni einokun landbúnaðardrekans á kartöflum og kjúklingum.

Lengst af sérhæfðu samtökin sig í kvartanaþjónustu fyrir almenning. Þau gerðust málsvari einstaklinga, sem höfðu keypt vöru, er ekki stóðst auglýst gæði eða eðlilega gæðastaðla. Einkenni þessa málaflokks var kvörtun eins neytanda á hendur einum kaupmanni.

Augljóst er, að mikil orka fer í slík mál, þótt almennt gildi þeirra út á við sé takmarkað. Það safnast þó, þegar saman koma margir vinningar í slíkum málum. Kaupmenn verða yfirleitt samvinnuþýðari gagnvart neytendum, ef þeir vita af samtökunum á næsta leiti.

Með baráttunni gegn aukinni einokun í kartöflum og kjúklingum eru Neytendasamtökin að færa sig yfir á almennara svið, þar sem einstakir vinningar eru miklu hærri. Með árangri í einni aðgerð geta þau fært sérhverjum neytanda í landinu hluta af vinningnum.

Að undanförnu hafa neytendur farið halloka fyrir landbúnaðardrekanum. Kartöflur og kjúklingar eru á hraðferð inn í einokunarkerfi, þar sem fyrir eru kýr og kindur. Verð kartaflna og kjúklinga hefur hækkað að undanförnu fimm sinnum meira en verðbólgan.

Barátta Neytendasamtakanna gegn smíði einokunar á kartöflum og kjúklingum er gott mótvægi við ríkisstjórn, sem er afar höll undir einokunarstefnu og er í reynd töluvert fjandsamlegri neytendum en nokkrar síðustu ríkisstjórnir á undan henni.

Athyglisvert er, að barátta samtakanna felst einkum í bænarskrá til landbúnaðarráðherra, sem er gersamlega heyrnarlaus á öll sjónarmið, sem stríða gegn hagsmunum landbúnaðardrekans. Ekkert bendir til, að hann eða samráðherrar hans vilji hlusta á neytendur.

Merkilegast er þó, að Neytendasamtökin eru með þessu að amast við einokun á einu sviði, sem þau láta átölulausa á hefðbundnum sviðum. Landbúnaðardrekinn er nefnilega ekki að gera annað en að koma reglum um afurðir kinda og kúa yfir á kartöflur og kjúklinga.

Formaður samtakanna hefur meira að segja lýst því yfir oftar en einu sinni, að það sé stefna samtakanna, að innflutningsbann sé áfram á landbúnaðarvörum, meðan innlend framleiðsla sé á boðstólum. Hann styður einokunina í stóru, þótt hann sé á móti henni í smáu.

Erfitt er að sjá, hvaða hag neytendur hafa af formannsyfirlýsingum af þessu tagi. Ekkert mundi bæta kjör neytenda í landinu meira en afnám einokunar landbúnaðardrekans á afurðum kinda og kúa. Kjúklingar og kartöflur vega ekki eins þungt á metaskálunum.

En Neytendasamtökin hafa sjálf ákveðið að setja sér landamæri neðan við stóru málin og að leyfa formanni sínum að kyssa á meginvönd landbúnaðardrekans.

Jónas Kristjánsson

DV