Á nærklæðum til Evrópu

Greinar

Utanríkisráðherra telur, að Íslendingar séu heimskari en Svisslendingar. Þeir fá að velja eða hafna Evrópska efnahagssvæðinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem utanríkisráðherra telur, að komi ekki til greina hér á landi, af því að almenningur hafi ekki kynnt sér málið.

Utanríkisráðherra telur, að Íslendingar séu heimskari en Frakkar og Danir, er fá í þjóðaratkvæðagreiðslu að velja eða hafna nýrri Maastricht-stjórnarskrá fyrir Evrópusamfélagið, sem er álíka flókið mál fyrir þá og aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er fyrir okkur.

Þótt menn vildu fylgja ráðherranum í ofangreindum atriðum, af því að menn þekkja ekki nógu vel til aðstæðna í Sviss, Danmörku og Frakklandi, er samt ekki hægt að taka undir hliðstæða kenningu ráðherrans um, að kjósendur séu heimskari en þingmenn okkar.

Þingmenn vita ef til vill aðeins betur en almenningur, sem spurður er á götunni, hvað ýmsar útlendar skammstafanir tákni. En þeir hafa ekki kynnt sér efni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ef frá eru skildir nokkrir þingmenn, sem hafa áhuga á málinu.

Ef 63 þingmenn eru færir um að velja eða hafna Evrópska efnahagssvæðinu með einföldum meirihluta, er þjóðin í heild fær um að gera slíkt hið sama. Ástæðan fyrir því, að hún er ekki spurð, er, að ráðherrar óttast, að hún felli samninginn um þetta efnahagssvæði.

Skoðanakannanir sýna, að umræðan innan þings og utan hefur leitt til, að fylgjendum og andstæðingum Evrópska efnahagssvæðisins hefur fækkað, en hinum óákveðnu hefur fjölgað. Þetta er afar eðlilegt, því að ýmsir lausir endar eru smám saman að koma í ljós.

Með vaxandi upplýsingum verður erfiðara að gera upp hug sinn til þessa samnings. Menn eru að byrja að átta sig á, að sérstakur, tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópusamfélagsins verður ekki gerður fyrr en eftir að Alþingi hefur staðfest heildarsamninginn.

Smám saman er líka að koma í ljós, að ríkisstjórnin og stuðningsþingmenn Evrópska efnahagssvæðisins hafa ekki undirbúið lög og reglur, sem geti sannfært kjósendur um, að útlendir aðilar nái ekki tökum á verðmætum, sem felast í íslenzku landi og fiskimiðum.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, hvernig megi tryggja þjóðareign þessara verðmæta, þótt ekki sé mismunað milli útlendinga og Íslendinga. Þær hugmyndir hafa hins vegar ekki verið teknar upp af ríkisstjórninni og koma því ekki til álita í mati á samningnum.

Skynsamleg afstaða almennings til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fælist í að segja, að gæði hans fari eftir lögum og reglum um eignarhald á landi og fiskimiðum og eftir innihaldi tvíhliða samnings við Evrópusamfélagið um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir.

Þar sem ríkisstjórnin hefur ekkert af þessum atriðum á þurru, er eðlilegt, að fólk, sem annars er fylgjandi fjölþjóðlegu viðskiptasamstarfi, sé annaðhvort tvístígandi eða beinlínis andvígt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta mál varðar ekki vanþekkingu.

Mikill fjöldi óákveðinna í skoðanakönnunum um þetta mál táknar alls ekki, að þjóðin sé minna fær en þingmenn hennar um að taka afstöðu til þess, heldur einfaldlega, að undirbúningur málsins er ekki nægur af hálfu utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar.

Ekki er ósamræmi í, að menn vilji fara alklæddir til þessa samstarfs, en hafni því að fara þangað á nærklæðunum, svo sem ríkisstjórnin hyggst láta þjóðina gera.

Jónas Kristjánsson

DV