Tveimur dögum fyrir kosningarnar í vor veitti þáverandi ríkisstjórn leyfi til rannsókna á gufuöflun í Gjástykki sunnan Kelduhverfis. Forsendur voru vafasamar, því að Landsvirkjun hafði lagt inn erindið tveimur dögum áður. Það erindi var útvíkkun eldri beiðnar frá 2004. Greinilega lá mikið á að koma útvíkkuðu leyfi í gegn fyrir kosningar. Kannanir höfðu þá sýnt, að ríkisstjórnin mundi falla. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var oft skautað á jaðri laga og siða. Sama ríkisstjórn gaf Landsvirkjun vatnsréttindi Þjórsár þremur dögum fyrir sömu kosningar.