Viðtal Eiðfaxa við Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunaut:
Regnhlífarsamtök atvinnumanna
Til þess að stuðla að framförum í hrossarækt og á öðrum sviðum hestamennsku verðum við að starfa meira saman en við gerum. Við þurfum til dæmis að mynda öflugri heildarsamtök, annars vegar regnhlíf fyrir atvinnumennskuna og hins vegar regnhlíf fyrir hestamennskuna í heild.
Ég sé fyrir mér hliðstæða þróun og orðið hefur í málum bílsins. Þar hefur myndazt öflugt bílgreinasamband, sem nær yfir ýmsa hópa atvinnumanna og fyrirtækja á því sviði. Það hefur svo samstarf í ýmsum málum við félag bifreiðaeigenda, sem er eins konar neytenda- eða áhugamannafélag.
Annars vegar er nauðsynlegt, að atvinnumenn í samtökum hrossaræktar og tamninga og á fleiri sviðum, svo sem í hestatengdri ferðaþjónustu, stofni heildarsamtök atvinnumanna eða félaga atvinnumanna, atvinnuvegarins í heild. Hins vegar er brýnt, að slík samtök atvinnuvegarins efli samstarf við Landssamband hestamannafélaga sem heildarsamtök áhugamanna.
Þannig er byggt á því félagsformi, sem fyrir er, en félagslega aflið fært út í nýjar víddir. Þannig styrkist hestamennskan í landinu til að takast á við ný verkefni, sem farin eru að banka á dyr. Æskilegt er, að frumkvæði í þessum efnum komi frá þeim, sem eru í forustu hinna ýmsu samtaka og félaga hestamanna.
Knapamerkin á miðri leið
Með knapamerkjakerfinu erum við komin hálfa leið í kennslumálum hestamanna. Við þurfum að vista kerfið til frambúðar á einum stað. Mér finnst eðlilegast, að það verði við Hólaskóla, þar sem ráðinn verði starfsmaður til að halda utan um kerfið og þróa það áfram.
Námsefnið er til, en nú þarf m.a. að útbúa leiðbeiningar fyrir kennara. Heppilegt er, að það gerist á Hólum, þar sem er verið að kenna væntanlegum kennurum í greininni. Verið er að ræða, hvernig staðið verði að þessu. Ég vona, að þetta komist á koppinn sem allra fyrst. Mestu máli skiptir, að vel takist til að finna rétta manninn í starfið.
Kennslumál eru eitt mikilvægasta markaðsmál hestamennskunnar um þessar mundir. Við þurfum að koma kennslu í hestamennsku inn í öll stig skólakerfisins, grunnskóla og framhaldsskóla. Til þess vantar kennara, sem kunna að útfæra knapamerkjakerfið. Reiðhallir og reiðskemmur eru mikilvægur þáttur þessa starfs, en þær eru enn af skornum skammti í sumum landshlutum.
Við höfum fyrirmynd í tónlistarnáminu. Það er rekið í misjafnlega nánu samstarfi sveitarfélaga og foreldra. Kostnaði er skipt með ýmsum hætti, en yfirleitt er boðið upp á lánuð hljóðfæri. Finna þarf leiðir til að fjármagna hliðstæðan stofnkostnað hesta og reiðtygja í reiðmennskunámi.
Kennslukerfi hestamennskunnar þarf að geta lánað kennsluhesta á öllum stigum skólakerfisins. Þetta þurfa að vera rólegir og taugasterkir hestar sem kunna það sem ætlunin er að kenna nemendunum. Ég sé fyrir mér hesta, sem beinlínis séu tamdir til að þjóna þessu hlutverki og séu mikið tamdir.
Þannig er hægt að gefa börnum og unglingum færi á að kynnast hestamennsku og taka áfanga eða stig í skólakerfinu án þess að þurfa að fjárfesta í hestum og þeim búnaði, sem fylgir þeim.
Knapamerkin eru útflutningsvara
Knapamerkjakerfið er orðið útflutningsvara. Í bandaríska félaginu fyrir eigendur íslenzkra hesta er mikill áhugi á að flytja kerfið inn í heilu lagi. Í sumum öðrum löndum eins og Þýzkalandi er til þróað kennsluefni, svo að þau þurfa síður á knapamerkjakerfinu að halda. Önnur lönd eru einhvers staðar þarna á milli.
Það skiptir máli fyrir útbreiðslu íslenzkra hesta um heiminn, að hér á landi hafi verið þróað nothæft kennslukerfi, sem hentar öllum aldursflokkum og er sem valgrein hluti hins almenna skólakerfis. Þeir, sem áhuga hafa í öðrum löndum, geta þá gengið að þessu kerfi og notað það eða hluta þess til að þróa rétta umgengni við íslenzka hestinn.
Þess vegna þarf að þýða og staðfæra íslenzka knapamerkjakerfið á erlend tungumál og erlendar aðstæður, fyrst á ensku fyrir Bandaríkjamarkað. Þetta á að vera eitt af fyrstu verkefnum hins fyrirhugaða umsjónarmanns þess á Hólum í Hjaltadal.
Ennfremur þarf að mynda sjóð til að styrkja og hvetja fólk til æðri menntunar í hestafræðum til að sinna í framtíðinni rannsóknum og æðri kennslu í hestafræðum. Þetta getur verið á ýmsum sviðum, svo sem í reiðmennsku, kynbótum, dýralækningum og fleiru. Við finnum verulega fyrir skorti á vísindamönnum
Setjum upp Íslensku mótaröðina
Keppnin er mikill þáttur í lífi margra atvinnumanna, sem byggja afkomu sína á hestum. Þeir verja miklum tíma í keppni, án þess að hún gefi neitt að ráði af sér, annað en frægðina, sem getur auðvitað nýtzt með óbeinum hætti. Við þurfum að finna leið til að koma meiri peningum inn í keppni atvinnumanna.
Við þurfum að skilja betur milli frjálslegrar keppni áhugafólks í léttum uppákomum annars vegar og hins vegar staðlaðrar keppni atvinnumanna. Ég tel heppilegt, að fyrirtækið Landsmót ehf hafi frumkvæði að staðlaðri mótaröð atvinnumanna, Íslensku mótaröðinni, fyrir landið í heild, t.d. fimm mótum á hverri vertíð. Þetta væri útvíkkun á starfi Landsmóts ehf, eins konar aukabúgrein. Hún gæti um leið verið eins konar úrtaka fyrir landsmót, a.m.k. að stórum hluta, áfram væru einhverjir hestar valdir á félagslegum grunni.
Búnaður og aðstaða, svo sem tölvukerfi, startbásar og tímataka, þarf að vera fyrsta flokks í mótaröðinni, svo og fyrsta flokks atvinnudómarar á öllum sviðum, í kappreiðum, í gæðingakeppni og í íþróttakeppni.
Þarna mætti hugsa sér að endurvekja gömlu sígildu hugmyndina um veðbankastarfsemi í kringum kappreiðar en ég held að það megi stækka þá hugmynd verulega. Erlendis hefur náðst mikill árangur í svonefndu “Breeders’ Trophy” kerfi fyrir önnur hestakyn og tilraunir hafa verið gerðar með það fyrir íslenzka hesta í Svíþjóð. Í þessu kerfi skráir ræktandi stóðhest gegn ákveðnu gjaldi sem gerir afkvæmi hestsins gjaldgeng í ákveðinni keppni síðar meir þar sem hefur þá myndast ákveðinn vinningspottur en í hann kemur líka veðmálafé frá almenningi.
Veðmálin standi alla vertíðina
Ég sé fyrir mér veðbanka um mótaröðina á Íslandi. Síðar mætti jafnvel hugsa sér að komið yrði á fót veðbanka um alþjóðlega mótaröð, sem jafnframt gæti virkað að hluta sem úrtaka fyrir heimsleika eins og íslenzka mótaröðin getur þjónað að hluta til sem úrtaka fyrir landsmót. Það kæmi mér nefnilega ekki á óvart þótt þessi landakeppni sem nú þykir sjálfsögð breytist meira yfir í keppni milli einstaklinga eftir því sem landamæri verða ógreinilegri og alþjóðleg hugsun festir betur rætur en það er annað mál.
Veðbankinn yrði studdur töflum, tölfræði og öðrum upplýsingum úr Mótafeng, svo að veðjarar geti haft svipaðar upplýsingar í höndunum og þeir hafa nú í veðmálum vegna kappreiða erlendis.
Lykillinn að árangri er að láta veðmálin snúast um fleira en skeiðið eitt. Erfitt er að halda uppi spennu í keppni, sem tekur aðeins 13-24 sekúndur, í samanburði við tveggja mínútna spretthlaup veðhlaupahesta af erlendum kynjum. Við getum náð spennunni inn með því að láta hana ná yfir heila mótaröð, heilt keppnistímabil.
Skeiðvakningin er svo hluti af þessu ævintýri. Ég tel, að þessi hugmyndafræði feli í sér mikla möguleika fyrir Landsmót ehf, sem er sameiginlegt fyrirtæki hestamennskunnar í landinu.
Hinn fjölhæfi Íslandshestur
Við sækjumst eftir fjölhæfum hesti, sem getur tekið þátt í fjölbreyttum tegundum af keppni á ýmsum gangtegundum, sem getur ferðast með reiðmann um fjöll og firnindi og verið gleðigjafi í hefðbundnum útreiðum.
Ferðalög á hestum eru vaxandi þáttur í atvinnumennskunni og áhugamennskunni. Ekki hefur verið hugsað nógu vel um þann þátt í ræktuninni, né heldur um almennar útreiðar frá hesthúsi eða haga. Huga þarf að rannsóknum til að finna út, hvernig er hægt að haga ræktuninni með tilliti til þessara sjónarmiða ferðamennskunnar, sem hafa á vissan hátt orðið útundan.
Mælum þol, mýkt, kjark og taugastyrk
Með auknum rannsóknum fáum við upplýsingar um eiginleika, sem eru gagnlegir á þessum sviðum og fleirum. Við verðum að finna nýja þætti í heildarmynd hestsins. Ókannaðir eða of lítið kannaðir eiginleikar þurfa smám saman að verða þáttur í ræktunartakmarki fyrir íslenzka hestinn.
Við þurfum til dæmis að skilgreina eiginleika, sem koma að gagni í ferðum. Það geta verið þol, fótvissa, mýkt, kjarkur og taugastyrkur. Í sumum tilvikum eru til aðferðir til mælinga eða vísir að þeirri tækni.
Við getum til dæmis mælt hjartsláttarbreytingar við langvinnt erfiði til að meta þolið. Við getum hugsað okkur mælingar á hristingi hnakkstæðis á hesti á tölti til að meta þýðleikann. Einnig getum við kortlagt kjark og taugastyrk hesta betur en við höfum hingað til gert.
Vantar meira um heilbrigði
Okkur vantar líka betri innsýn í heilbrigði hesta, þar á meðal þætti eins og sumarexem, spatt, endingu og frjósemi. Við erum komnir af stað á sumum þessum sviðum.
Við vonum, að rannsóknir á sumarexemi leiði til þess, að bólustetning verði möguleg og helst að áhættuþættir finnist þannig að við getum ræktað viðkvæmni fyrir sumarexemi úr stofninum í ekki allt of fjarlægri framtíð.
Spattrannsóknir eru lengra á veg komnar. Við vitum, að stóðhestar arfleiða afkomendur að spatti í misjöfnum mæli. Við getum því ræktað þann ókost úr stofninum með markvissum vinnubrögðum yfir lengri tíma ef við bara förum í það. Nú í sumar verður haldin hér á landi mikil ráðstefna helstu sérfræðinga á þessu sviði þar sem þessi mál verða krufin til mergjar en þar ætti að koma fram hvaða ræktunarleiðir eru raunhæfar í þessum tilgangi.
Þess er vonandi ekki langt að bíða, að við getum sett dálk um frjósemi eða fyljunarprósentu stóðhesta í kynbótamatið. Ég held að slíkt sé bezta leiðin til að ná árangri, betri en boð og bönn. Staðreyndir málsins verða öllum sýnilegar og hver ræktandi fyrir sig getur notfært sér þær, ef hann kærir sig um.
Menn sjá þá, hvaða áhættu þeir taka, ef þeir velja stóðhest, sem annað hvort hefur tilhneigingu til að gefa spatt eða tilhneigingu til að gefa lága fyljunarprósentu.
Fjölbreytt innihald kynbótamats
Allar mælanlegar upplýsingar um heilbrigði stóðhesta eiga erindi inn í þau gögn, sem hestamenn hafa við hendina, þegar þeir taka ákvörðun á borð við val á stóðhesti. Ekki er rúm fyrir nein leyndarmál í þeim efnum. Allar upplýsingar um hestinn eiga að vera gegnsæjar.
Suma þessa þætti væri gott að vigta inn í heildareinkunn í kynbótamati eins og fet og faxprýði hafa verið vigtuð inn í kynbótadóma. Aðrir þættir fengju bara sjálfstæða dálka án þess að vera vigtaðir inn í heildareinkunnina eins og hægt stökk er skráð sér í kynbótadómum án þess að vera vigtað sérstaklega inn í aðaleinkunn.
Ég tel ekki ástæðu til að víkka út kynbótadómana sem slíka. Mér finnst eðlilegt að þeir mæli atriði, sem koma fram á sýningum, en ekki önnur. Kynbótamatið getur hins vegar tekið inn ótal atriði, sem eru mæld á annan hátt og við aðrar aðstæður, og vigtað þau síðan inn í heildartölur kynbótamats, ef mönnum finnst þau skipta nógu miklu máli.
Rannsóknir og meiri rannsóknir
Fagráð í hrossarækt er sá aðili, sem tekur ákvarðanir um nýja þætti í kynbótamati og hvort þeir skuli vigtaðir inn í heildarmyndina. Ég tel, að þetta hlutverk verði sífellt mikilvægara eftir því sem fleiri rannsóknir koma til sögunnar og veita okkur nýja sýn á stöðu mála.
Fleiri aðilar koma að slíkum ákvörðunum, svo sem FEIF, alþjóðasamband íslenzka hestsins og kynbótanefnd þess, enda mkilvægt að allt þetta ferli sé vel viðrað á öllum stigum þess.
Mín skoðun er ljós. Við þurfum meiri rannsóknir og ennþá meiri rannsóknir og nota þær til að bæta upplýsingagrunninn þ.m.t. kynbótamatið. Við vitum allt of lítið um þætti tengda fóðrun og þjálfun íslenska hestsins en ég bind þó miklar vonir við rannsóknaátak það sem nú er verið að ýta af stað í samvinnu fagráðs í hrossarækt og Hólaskóla.
Prófíll að geðslagi hrossa
Okkur vantar nýja sýn á geðslag hesta, ekki eins og það kemur fram hjá úrvals knapa á sýningu, heldur eins og það kemur fram í daglegri umgengni. Geðslag er margbrotið. Því þarf að reyna að sundurgreina það í þætti.
Nota má þriggja stiga prófíla á borð við ljúfur-meðal-harður, kjarkaður-meðal-kjarklaus, glaður-meðal-fúll, daufur-meðal-ör. Með stöðluðum vinnubrögðum má finna prófíl af geðslagi hvers hests.
Verið er að prófa þetta við staðlaðar aðstæður á hrossum, sem nemar frá Hólaskóla hafa tamið á verknámsbýlum í 2-3 mánuði. Eftirlitsdómari kemur á staðinn og tekur hestinn út. Þetta minnir að nokkru á gömlu afkvæmaprófanirnar, en er ekki framkvæmt á einum stað, heldur á verknámsbúum víðs vegar um landið.
Ef vel gengur verður til úr þessu starfi einfalt kerfi sem þó lýsir geðslagi hvers hests vel. Hugsa mætti sér að útvíkka þetta kerfi til allra stærri tamningastöðva um landið og það yrði hluti af starfi héraðsráðunauta í hrossarækt að vera samræmingaraðilar og safna inn þessum upplýsingum. Það sem er styrkleiki kerfisins er að það er tiltölulega laust við skalaáhrif og því á að nást gott samræmi milli tamningastöðva.
Þetta felur í sér byltingu í mati á geðslagi á afkvæmum stóðhesta. Niðurstöður margra afkvæma hvers stóðhests gefa meðaltalstölur, sem sýna má sem punkta í tvívíðri eða þrívíðri mynd. Síðan má raða mörgum stóðhestum inn í þessa mynd og sjá myndrænt, hvers konar geðslagt líklegt er, að þeir gefi af sér.
Slíkar myndir munu hrossaræktendur geta notað, ef þeir sækjast meira eftir ákveðnum þáttum en öðrum í geðslagi hrossa sinna. Sumir munu kjósa fremur ör keppnishross, en aðrir fremur ljúflinga.
Athugasemdir fari í kynbótamatið
Um árabil hefur verið notað staðlað form til að skrá athugasemdir dómara á kynbótasýningum. Á þessum tíma hefur myndast mikið safn staðlaðra upplýsinga, sem þegar er orðið nothæft um stóðhesta, sem hafa t.a.m. 20 eða fleiri dæmd afkvæmi.
Þótt tvö afkvæmi hafi sömu einkunn fyrir ákveðinn eiginleika, getur einkunnin verið byggð upp af mismunandi þáttum. Þetta stafar af því að hver einkunn nær yfir safn af eiginleikum. Athugasemdirnar gera kleift að greina þetta sundur, skoða niður í kjölinn, hvað er á bak við einkunnina.
Til að útskýra notagildi þessa getum við tekið dæmi um afburðastóðhestinn Orra frá Þúfu. Orri liggur fremur lágt í kynbótamati fyrir réttleika fóta en hvað skyldi einkenna þennan eiginleika hjá afkvæmum hans. Með tölulegri meðferð athugasemdanna má meðal annars sjá, að afkvæmi Orra eru að meðaltali töluvert nágengari að aftan en afkvæmi flestra annarra þekktra stóðhesta. Þessar upplýsingar eru gagnlegar þegar kemur að pörun en óráðlegt væri að leiða áberandi nágengar hryssur undir Orra.
Aðalatriðið er, að töluleg meðferð athugasemdanna dregur upp nákvæmari mynd af hverjum eiginleika fyrir sig og hjálpar ræktendum að læra á stóðhestana ef svo má segja.
Mótafengur sýnir árangur afkomenda
Íslenska mótaröðin, sem nauðsynlegt er að koma á laggirnar, á að gefa staðlaðar upplýsingar í Móta-Feng, sem væntanlega kemst almennilega í gang í sumar. Fljótlega eiga að koma úr honum upplýsingar um, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í keppni, burtséð frá árangri í keppni.
Eftir því sem upplýsingarnar hlaðast upp er hægt að sjá, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í hverja tegund keppni. Er hann til dæmis að gefa af sér keppnishesta í 250 metra skeiði, eða er hann að gefa af sér töltkeppnishesta.
Úr þessu kemur eins konar kynbótamat hvers stóðhests fyrir ýmsar tegundir af keppni. Þess er væntanlega ekki langt að bíða, að hrossaræktendur, sem vilja rækta keppnishross, geti notað slíkar upplýsingar úr Móta-Feng.
Línur og horn spá um framtíðina
Almennt má segja, að æskilegt sé að breyta huglægu mati sem mest í hlutlægt með því að taka upp kerfisbundnar mælingar á mörgum sviðum. Við getum t.a.m. gert tilraunir með að mæla takt í gangi og þýðleika, skreflengd og fótlyftu, svif og hraða. Þá getum við mælt þátttöku og árangur í keppni eins og áður hefur komið fram.
Gera þarf tilraunir með líkamsmælingar á trippum, þar sem mæld eru horn og lengdir. Með því að fylgjast með þessum hrossum á lífsleiðinni, má sjá samhengi milli líkamsbyggingar og árangurs hrossanna á ýmsum sviðum, svo sem í keppni.
Þegar upplýsingasafnið er orðið nógu mikið, má leiða tölfræðilegar líkur að því, að ákveðnir þættir í líkamsgerð trippa kalli fram ákveðna eiginleika á fullorðinsárum, til dæmis í ganglagi, sem hrossaræktendur sækjast eftir. Þetta á að geta auðveldað þeim að velja unghross til tamningar.
Stórátak í erfðagreiningu
Ég vil, að gert sé átak í skipulegri ætternisgreiningu hrossastofnsins með DNA-rannsóknum á lífsýnum úr hrossum. Þetta er svo brýnt atriði fyrir hrossaræktina, að mér finnst einboðið að afla sem mestra upplýsinga á stuttum tíma í einföldu átaki. Ég tel, að leggja megi til fé úr m.a. stofnverndarsjóði til þess að koma verkefninu almennilega af stað.
Byrja má á því markmiði, að DNA-ætternisgreina öll hross sem koma til kynbótadóms á næsta ári. Síðan þarf að stefna að því, að öll hross í ræktun verði ætternisgreind. Þetta eru um 4000-5000 folöld, sem bætast í Feng á hverju ári.
Kostnaður við þetta getur numið um 6-10 milljónum króna á ári. Til að byrja með er rétt að greiða þetta úr sjóði til að koma verkefninu af stað, en síðar verður kostnaðurinn að leggjast á eigendur hrossanna.
Við stöndum andspænis byltingu
Ég tel að við stöndum andspænis byltingu í hrossaskráningu á Íslandi. Jarðvegurinn er tilbúinn fyrir hana. Við slíka skráningu yrði allt gert í einu til að spara kostnað: Almenn skráning og merking hrossa, svo og ætternisgreining. Ennfremur hestapassi, þar sem það á við.
Þetta eykur trúverðugleika íslenzka hrossastofnsins, enda er þegar gerð krafa um þetta um allan heim að því er varðar stóðhesta. Ætternisgreiningin er einfalt mál í sjálfu sér en framtíðarmúsíkin er svo almenn erfðagreining þ.e. kortlagning eiginleikanna sem einkenna íslenska hestinn. Þar mætti byrja á tiltölulega einföldum þáttum eins og litaarfgerðum enda hafa nú þegar mörg litagena hestsins verið staðsett. Notendur stóðhesta hafa margir hverjir efalaust áhuga á að vita fyrirfram hvaða litaarfgerðum þessi eða hinn stóðhesturinn býr yfir. Síðan má hugsa sér að víkka þetta út og hefja metnaðarfulla leit að mikilvægum genahópum fyrir tölt og skeið. Þar erum við að ræða um tímafrekar og dýrar rannsóknir eins og staðan er í dag en við megum ekki gleyma því að við höfum þegar öflug fyrirtæki á þessu sviði hér á landi. Möguleikarnir eru fyrir hendi og markmiðið er að kortleggja erfðaþætti íslenzka hestastofnsins.
Úrval í lokuðu kerfi
Úrvalið í hrossastofninum hér á landi fer fram í lokuðu umhverfi. Harðari ræktun hefur leitt til fækkunar forfeðra stofnsins. Til dæmis má nefna, að Hrafn frá Holtsmúla á 10% í stofninum eins og hann er núna.
Smám saman leiðir þetta til minni úrvalsmöguleika, minni fjölbreytni og hugsanlegs brottfalls eiginleika, sem geta reynzt mikilvægir í framtíðinni. Eindregin notkun á tiltölulega fáum tízkustóðhestum stuðlar að þessari breytingu.
Á sama tíma hafa ræktunarhross verið flutt úr landi í stórum stíl síðustu áratugi. Flæði erfðaefnis er bara í aðra áttina, úr landi, en ekki til landsins. Það þýðir, að erlendis kunna að koma upp innan tíðar kynbótagripir sem við þyrftum nauðsynlega að hafa aðgang.
Innflutningur á fósturvísum
Af þessari ástæðu er orðið tímabært fyrir okkur að undirbúa innflutning á erfðaefni, sæði eða fósturvísum úr erlendum toppkynbótagripum af hreinu íslensku kyni. Markmiðið er að tryggja að í upprunalandi íslenzka hestins sé ávallt uppspretta beztu fáanlegu einkenna í hrossastofninum.
Þetta er ekki bara mikilvægt fyrir Íslendinga sem samkeppnisaðila í ræktun íslenzka hestsins, heldur fyrir allan heim eigenda íslenzkra hesta. Því breiðari stoðum, sem skotið er undir ræktunina í upprunalandinu, því meiri verður ávinningur allra, sem koma að íslenzkum hestum á einn eða annan hátt.
Líklega er eðlilegast að félag hrossabænda setji á flot prófmál á þessu sviði til að ryðja því braut gegnum kerfið. Fara verður fram áhættumat á þessum innflutningi erfðaefnis, sem á sér forsendur á öðrum sviðum landbúnaðar. Slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma, svo að brýnt er að hefjast handa sem fyrst.
Jafnframt tel ég, að byggja eigi erfðafjölbreytileika inn í kynbótamatið. Þannig verði þeim hrossum sem á hverjum tíma eru minna skyld hinum virka ræktunarstofni hampað hlutfallslega meira í kynbótamatinu. Þetta er alþekkt aðferð í búfjárrækt um allan heim og virkar einfaldlega þannig að af annars jöfnum hrossum í kynbótamatinu raðast þau efst sem minnst eru skyld stofninum á hverjum tíma.
Ljúka þarf rannsókn, sem lengi hefur staðið yfir og er langt komin á Keldum, þar sem fjölbreytileiki íslenskra hrossa er metinn í DNA-rannsókn. Úr rannsókninni má finna, hvort til séu sérstakir hópar hrossa, eins konar “stofnar”, sem kallaðir voru í gamla daga, þegar menn töluðu um Austanvatnahross, Hornfirðinga, Hindisvíkinga og svo framvegis. Markmiðið er að finna, hvort marktækur munur sé á erfðaefni slíkra hópa.
Í hæstu hæðir
Þegar allir þessir þættir, sem ég hef nefnt, eru komnir inn í gagnabankann og kynbótamatið, höfum við miklu öflugri tæki fyrir hrossaræktendur. Það verður rafrænt skýrsluhald um alla nýja þætti, sem vísindin færa okkur í hendur, gegnsætt og opið öllum, sem vilja nota það.
Þessar hugmyndir sem hér hafa verið nefndar eru úr ýmsum áttum, gamlar og nýjar, sumt af þessu er á lokastigi og annað er ekki hafið enn. Samanlagt stöndum við á þröskuldi nýrrar aldar í ræktun íslenzka hestsins og eigum að stíga skrefið inn í framtíðina. Snaraukin áhersla á rannsóknir, menntun og þróun keppnismennskunnar mun lyfta okkur í hæstu hæðir í faglegum vinnubrögðum og efla markaðsstöðu íslenzka hestsins.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 4.tbl. 2004