Á undraskjótan hátt

Greinar

Þótt ríkisstjórninni hafi vegnað illa á mörgum sviðum, er verst afhroðið, sem efnahagur þjóðarinnar hefur beðið á veturlöngum valdaferli hennar. Ekki eru dæmi til, að ástæðulaus kreppa hafi beinlínis verið framleidd af mannavöldum á svo undraskjótan hátt.

Þessi ósigur er þyngri á metaskálunum en ósigur ríkisstjórnarinnar fyrir samtökum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, svo að dæmi sé tekið til samanburðar. Á því sviði olli ríkisstjórnin ekki nýju tjóni, heldur glopraði niður nýfengnum árangri í almennum samningum.

Ríkisstjórninni hafði tekizt að ná skynsamlegum kjarasamningum við mestan hluta starfsfólks síns og að fá þá samninga viðurkennda hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það vakti vonir um stöðugt efnahagslíf á næstu misserum og einkum þó um viðráðanlega verðbólgu.

Samningarnir við háskólamenn kollvörpuðu þessu. Þeir rufu friðinn, sem náðst hafði við samtök ríkisstarfsmanna og heildarsamtök launþega. Forsendur fyrri samninga fuku skyndilega á brott. Allt fer því aftur á hvolf á þeim vígstöðvum á næstu misserum.

Ríkisstjórnin færðist með þessu aftur á núllpunktinn, en ekki niður fyrir hann. Hún eyðilagði nýfenginn árangur, en spillti ekki ástandi, sem var fyrir valdatöku hennar. Slík er aftur á móti niðurstaðan af ofnotuðu handafli hennar í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Líkur benda til, að ríkisstjórnin muni á þessu ári setja Íslandsmet í söfnun skulda í útlöndum, þótt hún hafi tekið sér fyrir hendur að stöðva skuldasöfnunina. Á föstudaginn var hér í blaðinu reiknað út, að skuldaaukningin gæti numið rúmlega 20 milljörðum á árinu.

Í fyrra námu erlendar skuldir okkar rúmlega 41% af árlegri framleiðslu landsmanna. Þegar er ljóst, að þær fara á þessu ári upp í tæplega 48%. Gera má ráð fyrir, að talan verði komin yfir 51% fyrir næstu áramót. Þetta er gífurlegur hallarekstur á aðeins einu ári.

Innlendur sparnaður hefur brugðizt ríkisstjórninni, einmitt vegna hamslausra tilrauna hennar til að lækka vexti og sauma þannig að hugsanlegum kaupendum spariskírteina. Menn hafa ekki keypt ný skírteini í stað hinna eldri, sem þeir hafa fengið leyst út.

Ríkisstjórnin gengur með þá sérkennilegu hugsjón í maganum að geta í haust komið raunvöxtum af spariskírteinum úr 7% niður í 5% og geta um leið unnið upp 600 milljón króna fjármissi úr skírteinakerfinu og náð þar á ofan tveggja milljarða aukningu í því!

Þessi þverstæða er skýrt dæmi um, að hagræn hugsun ræður hvorki ferðinni í ráðherrahópnum né meðal hinna mörgu aðstoðarmanna og efnahagsráðgjafa, sem ráðherrarnir hafa sér til fulltingis. Í staðinn er rekin sú tegund óskhyggju, er kallast seiðkarla-hagfræði.

Ljóst var í upphafi, að illa mundi fara. Þá ákvað ríkisstjórnin að halda uppi gengi krónunnar, hvað sem það kostaði. Og þá ákvað hún, að í stað heilbrigðs rekstrar í atvinnulífinu skyldu koma björgunaraðgerðir fjölmargra nýrra milljarðasjóða hins opinbera.

Að tæpu starfsári liðnu liggur ríkisstjórnin í rjúkandi rústum hagkerfisins. Eftir allt handaflið og allar tilfæringarnar með milljarðasjóði hefur hún mátt þola fyrsta atvinnuleysisvetur í manna minnum. Og hún hefur orðið að stofna til víðtækrar atvinnubótavinnu í sumar.

Ef ráðherrarnir kynnu að skammast sín, mundu þeir segja af sér strax í dag. En þeir sitja áfram, í skjóli sameiningartáknsins, ­ skorts á sjálfsgagnrýni.

Jónas Kristjánsson

DV