Á vogarskál hryðjuverka

Greinar

Þorsteinn Pálsson er ekki ráðherra. Hann er þó betri en alls enginn gestur, af því að hann er formaður stærsta stjórnmálaflokksins í heilu landi, þótt fámennt sé. Honum var því boðið í opinbera heimsókn til Ísraels til að draga úr einangrun hryðjuverkastjórnarinnar þar.

Sjaldgæft er, að stjórnmálaforingjar í Vestur-Evrópu fari í opinbera heimsókn til Ísraels. Ef þeir láta hafa sig í slíkar ferðir, er það venjulega til að flytja stjórnvöldum þar þau skilaboð, að þau séu andstyggð góðra manna úti í heimi vegna villimennsku á hernumdum svæðum.

Þegar Richard Nixon, fyrrum Bandaríkjaforseti, fór til Kína um daginn, var ætlun hans ekki að láta stjórnvöld þar halda, að allt væri fallið í ljúfa löð úti í heimi og gleymd væru fjöldamorðin á torgi hins himneska friðar. Hann sagði stjórnvöldum til syndanna.

Ekki er vitað, að Þorsteinn Pálsson hafi áminnt ísraelsk stjórnvöld eða lagt rækt við að kynna sér afleiðingar ógnarstjórnar þeirra á landsvæðum Palestínumanna. Hann lét bara leiða sig eins og sauð milli höfuðbólanna til að vera á myndum með glæpamönnum ríkisins.

Framganga ísraelska hersins á hernumdu svæðunum minnir á framgöngu þýzkra SS-sveita, þar sem þær höguðu sér verst í hernumdum ríkjum síðari heims styrjaldarinnar. Er sorglegt til þess að vita, að Ísrael tekur Schutzstaffeln sér til fyrirmyndar.

Ísraelski herinn drepur börn og unglinga, sem kasta grjóti. Hann misþyrmir föngum. Hann sendir jarðýtur til að eyða heimilum fólks. Hann setur sölubann á afurðir Palestínumanna, svo að þær grotni. Hann stundar gripdeildir í fyrirtækjum þeirra og á heimilunum.

Sjaldan hafa hermenn og landnemar fengið dóma fyrir morð á Palestínumönnum. En þá eru þeir náðaðir af forseta ríkisins, Chaim Herzog. Stjórnmálaflokkar þora ekki annað en að styðja hörkuna, því að þeir óttast að missa ella fylgi einsýnna kjósenda.

Innreið Likud-flokkabandalagsins í valdastóla markaði tímamót, því að þá komust gamlir hryðjuverkamenn til valda. En þeim verður ekki einum um kennt. Varnar málaráðherrann, Yitzhak Rabin, kemur frá Verkamannaflokknum, sem áður var hófsamur flokkur.

Ísrael hefur verið að einangrast á síðustu tveimur árum. Eina undantekningin er Bandaríkin, sem draga taum Ísraels og halda hryðjuverkaríkinu uppi fjárhagslega. Þar hafa stjórnmálamenn til skamms tíma talið, að stuðningur við Ísrael yrði sér til gagns.

Stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael stafar meðal annars af árangursríkum vinnuaðferðum Aipac. Það er áróðursstofnun, er stuðlar að kjöri þingmanna, sem eru vinveittir Ísrael, og reynir að fella hina, sem taldir eru ótryggir í stuðningi eða hliðhollir Palestínu.

En nú er svo komið, að George Bush Bandaríkjaforseti er að reyna að losna við að hitta Yitzhak Shamir, forsætisráðherra Ísraels, þegar hann kemur til Bandaríkjanna um miðjan mánuðinn. Smám saman reytir Ísrael af sér bandaríska stuðninginn eins og annan.

Það var dapurleg stund í sögu Íslands, þegar Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra lét Ísland sitja hjá fyrir ári, þegar Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu Ísrael með atkvæðum 130 ríkja. Þetta var óvænt og ill breyting á fyrri afstöðu Íslands á þeim vettvangi.

Og nú hefur formaður stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi því miður lagt annað íslenzkt lóð á vogarskál hryðjuverka Ísraelsríkis gagnvart íbúum Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV