Ábyrgar ávísanir.

Greinar

Loksins er hafin útgáfa ávísanahefta með ábyrgðarskírteinum á svipaðan hátt og tíðkast yfirleitt í nálægum löndum. Það er Útvegsbankinn, sem á heiðurinn af því að hafa brotið ísinn, eftir fimm ára vangaveltur bankakerfisins.

Skírteinin eru að því leyti öruggari en þau, sem menn þekkja frá útlöndum, að á þeim er ekki aðeins undirskrift handhafa ávísanaheftisins heldur einnig mynd af honum. Ætti fölsun slíkra tékka að verða nánast óframkvæmanleg.

Með þessum ávísunum gerist það einnig, að banki tekur töluverða ábyrgð á viðskiptavinum sinum. Kaupendur slíkra ávísana ættu mun síður en kaupendur venjulegra ávísana að þurfa að sæta því að sitja uppi með þær.

Þetta er ekki síður merkileg hlið málsins, því að útgáfa innistæðulausra ávísana er miklu algengara vandamál en fölsun ávísana. Á aðeins tveimur fyrstu mánuðum ársins þurfti að loka 140 ávísanareikningum vegna þessa.

Innistæðulausu ávísanirnar koma sérstaklega hart niður á rekstri, sem veitir þjónustu utan hins skamma opnunartíma bankakerfisins, svo sem leiguakstri, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar hlaðast upp bunkar af slíkum pappírum.

Ávísanir eru slíkt vandamál hér á landi, að rannsóknarlögreglustjóri ríkisins varð nýlega að boða til sín fulltrúa bankanna til að mæla með aukinni aðgát, þar á meðal útgáfu sérstakra skírteina til að sýna við ávísanaviðskipti.

Um hina nýju útgáfu sagði hann nýlega í viðtali við DV: “Ég tel því, að þessi viðleitni Útvegsbankans sé spor í rétta átt til að draga úr ávísanamisferli, bæði innistæðulausum ávísunum og ávísanafalsi.”

Hinir bankarnir segja aftur á móti, að núverandi ástand sé í lagi. Það hafi batnað verulega við hið daglega uppgjör, sem Reiknistofa bankanna hefur annazt um árabil. Ísland sé eina landið, sem hafi tekið upp þann hátt.

Bankastjóri Landsbankans hafði í viðtali við DV orð fyrir þessum sjónarmiðum. Hann sagði m.a.: “við teljum okkur nú hafa náð þeim tökum á því vandamáli, svo viðunandi sé.” 140 lokaðir reikningar á tveimur mánuðum benda þó til annars.

Bankastjóri Iðnaðarbankans sagði, að ekki væri hægt að hafa í gangi tvenns konar kerfi, venjulegt og ábyrgðarkerfi. Hann sagði: “að annars væri verið að gera þá tortryggilega, sem hefðu bara venjulegt tékkhefti”.

Æskilegt væri, að bankakerfið hefði þessi síðustu ummæli að leiðarljósi og bankarnir tækju almennt upp ábyrgðarkerfi Útvegsbankans, svo að viðskipti með ávísanir geti framvegis orðið lipurri og vandaminni en nú er.

Í Samvinnunefnd banka og sparisjóða hafa menn raunar verið í fimm ár að velta fyrir sér hugmyndum um eitthvert slíkt kerfi. Þegar hinar seinvirku hugsanir kerfisins runnu út í sandinn, ákvað Útvegsbankinn að brjóta ísinn.

Auðvitað fóru hinir um leið í fýlu og fundu ábyrgðarkerfinu allt til foráttu. Það er broslegt dæmi um þá áráttu manna, grænna af öfund, að berjast gegn öllum endurbótum og nýbreytni, sem þeir framkvæma ekki sjálfir.

Með því að hafa mynd á skírteininu stígur Útvegsbankinn skrefi lengra en danskir og brezkir bankar og tekur upp kerfi þýzkra banka. Skynsamlegt var að taka málið svo föstum tökum, öðrum bönkum landsins til fyrirmyndar.

Jónas Kristjánsson

DV