Ábyrgð á uppvakningi

Greinar

Júgóslavneski herinn og stjórnvöld í Serbíu skipulögðu og hófu þjóðahreinsun í Bosníu með fjöldamorðum, fjöldanauðgunum og öðrum hryðjuverkum, sem miðuðu að því að hræða annað fólk af svæðum, sem Bosníuserbar vildu komast yfir. Serbía ber ábyrgð á hryllingnum.

Ráðamenn Vesturlanda mega ekki taka gildar sjónhverfingar um, að Serbíustjórn hafi hætt stuðningi við Bosníuserba og hafi lokað landamærunum milli Serbíu og Bosníu. Fullkomlega siðlaust væri að fara að verðlauna Drakúla greifa fyrir að afneita Frankenstein.

Ráðamenn Vesturlanda bera líka ábyrgð á hryllingnum, einkum Mitterrand Frakklandsforseti, Major, forsætisráðherra Bretlands, og Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti. Leiðtogar af því auma tagi neituðu að grípa í taumana, þegar það var auðveldara og ódýrara en nú.

Ráðamenn Vesturlanda hafa sýnt ótrúlega fákænsku í málefnum arfaríkja Júgóslavíu. Þeir hafa komið því orði á Vesturlönd, að þar séu ráðamenn sífellt reiðubúnir að vera með hótanir út í loftið, en því megi hins vegar treysta, að þær verði aldrei framkvæmdar.

Frammistaða ráðamanna Vesturlanda í Bosníu hefur orðið Vesturlöndum dýrkeypt, því að flestar hryðjuverkastjórnir heimsins hafa síðan talið sér kleift að gefa Vesturlöndum langt nef. Þessi ömurlega staðreynd gildir allt frá Sómalíu til Haítí og frá Rúanda til Bosníu.

Ef ráðamenn Vesturlanda ætla nú að kóróna sköpunarverk sitt í Bosníu með því að verðlauna stjórnvöld í Serbíu með mildun á viðskiptabanni, sem merkast er fyrir þá sök, að það er eitt hriplekasta bann nútímans, eru þeir að magna ábyrgð sína á ástandinu í Bosníu.

Ef ráðamenn Vesturlanda halda líka áfram að bregða fæti fyrir framgang réttarhalda yfir þúsundum af stríðsglæpamönnum Serba, eru þeir að stimpla sig í veraldarsögunni sem meðreiðarsveina hins illa. Þeir munu aldrei getað þvegið af sér skítinn. Sem er bara sanngjarnt.

Það er ekki nóg að takmarka ábyrgðina við nokkur þúsund Bosníuserba, sem hafa leikið hlutverk Frankensteins. Ábyrgðin er meiri hjá Júgóslavíuher og Serbíustjórn, sem framleiddu uppvakninginn, og hjá ráðamönnum Vesturlanda, sem hafa örvað hann til ódáða.

Margra mánaða reynsla er fyrir því, að leiðtogar Serbíu og Bosníuserba eru sérfræðingar í sjónhverfingum og undirritun skjala, sem þeim hefur aldrei dottið í hug að fara eftir. Furðulegt er, að ráðamenn Vesturlanda og umboðsmenn þeirra virðast alltaf vera jafn bláeygir.

Hamslaus illvirki Serba eiga sér þrenns konar rætur. Í fyrsta lagi í kaldrifjuðum áætlunum stjórnenda Júgóslavíuhers og Serbíu. Í öðru lagi í ótrúlega víðtækri siðblindu meðal Serba. Og í þriðja lagi í viðbrögðum Vesturlanda við vandanum, þegar hann var enn viðráðanlegur.

Ráðamenn Vesturlanda stuðla ekki að lausn Bosníuvandans með því að strá salti í sár tugþúsunda kvenna, sem hafa þolað hervirki þúsunda geðveikra Serba. Friðarsamningurinn, sem ráðamenn Vesturlanda hafa smíðað, þjónar því miður einkum hagsmunum óargadýranna.

Ráðamenn Vesturlanda vinna gegn framtíðarhagsmunum Vesturlanda í samfélagi þjóðanna, ef þeir bæta nú gráu ofan á svart með því að fara að milda viðskiptabannið á Serbíu í stað þess að herða það enn frekar. Þeir vekja með því upp fleiri drauga víða um heim.

Hryllingurinn var fyrirsjáanlegur fyrir tveimur árum, þegar Serbar réðust á menningarsöguna í Dubrovnik. Þá þegar var margsinnis varað við óargadýrunum.

Jónas Kristjánsson

DV