Ábyrgðarlítið Alþingi

Greinar

Viðskiptaráðherra hefur í blaðaviðtali sagt, að það sé aðför að Alþingi, er rannsóknarnefnd Hafskipsmálsins gagnrýnir þá háu stofnun út af kosningu í bankaráð Útvegsbankans. “Ég tel, að nefndin hefði ekki þurft inn á það að koma”, sagði ráðherrann.

Samkvæmt þessu telur Matthías Bjarnason ástæðulaust að draga Alþingi til ábyrgðar fyrir að velja ekki nógu hæft bankaráð, sem velur ekki nógu hæfa bankastjóra og hefur ónógt eftirlit með þeim. Hann vill, að Alþingi og alþingismenn séu án ábyrgðar.

Flestum öðrum mun þó finnast eðlilegt, að bent sé á hlutdeild Alþingis í 600 milljón króna tjóni Útvegsbankans af Hafskipsmálinu. Ennfremur, að slíkar rannsóknarnefndir séu oftar skipaðar og að þær hlífi ekki Alþingi frekar en öðrum, ef þær telja ástæðu til.

Engin hliðstæð rannsóknarnefnd var skipuð út af miklu meira tjóni ríkissjóðs vegna Kröflumálsins, 2037 milljónum króna. Þar var að verki nefnd alþingismanna, sem fór afar óvarlega með fé, þótti henni væri bent á, að hætta væri á, að fjárfestingin nýttist ekki.

Hinni frægu Kröflunefnd alþingismanna tókst að verja 3207 milljónum króna í glæfralegt fyrirtæki, sem ríkið gat síðan losað sig við til Landsvirkjunar fyrir 1170 milljónir króna. Tap ríkisins nam 2037 milljónum. Ekki er ljóst, hvert verður tap Landsvirkjunar.

Ef rannsóknarnefnd hefði verið skipuð vegna Kröflutjónsins og hún, eins og Hafskipsnefndin, haft manndóm til að gagnrýna stórfellda málsaðild Alþingis og þingmanna, hefðu alþingismenn fengið ástæðu til að fara varlegar í ævintýramennsku í framtíðinni.

Rannsóknarnefndir mætti einnig skipa út af fjölda annarra glæfra þingmanna. Nýlegt dæmi er graskögglaverksmiðan að Vallhólma í Skagafirði, sem varð gjaldþrota í ár eftir þriggja ára glórulausan rekstur. Þar nema eignir 20 milljónum og skuldir 80 milljónum.

Þingmenn voru varaðir við Vallhólmaverksmiðjunni. Þeim var bent á, að enginn markaður væri fyrir grasköggla hennar, því að fyrir voru í landinu fimm graskögglaverksmiðjur með mikla vannýtta afkastagetu. Þeir létu þessar aðvaranir eins og vind um eyru þjóta.

Á þessum tíma voru áform um að byggja tvær aðrar graskögglaverksmiðjur. Alþingismenn börðust meira að segja um, hverja þessara þriggja verksmiðja skyldi fyrst reisa. Skagafjarðarverksmiðjan bar sigurorð af Borgarfjarðar- og Þingeyjarsýsluverksmiðjunum.

Nú er svo komið, að ekki aðeins er Vallhólmur gjaldþrota, heldur hefur ríkið auglýst til sölu graskögglaverksmiðjunar í Flatey, Ólafsdal og Stórólfsvöllum, sem allar eru reknar með miklu tapi. Samanlagt nam tapið í fyrra á ríkisreknum graskögglum 38 milljónum króna.

Í ævintýri graskögglanna komu þingmenn fram af fullkomnu ábyrgðarleysi, alveg eins og þeir höfðu gert í Kröfluævintýrinu og eru á degi hverjum að gera í ævintýrum bankaráðanna og á fjölmörgum öðrum sviðum. Það er eins og þeir eigi sjálfir fé þjóðarinnar.

Alþingi ætti að læra af gagnrýni Hafskipsnefndarinnar og ákveða að koma upp rannsóknarnefndum á fleiri sviðum, svo sem í graskögglum. Alþingismenn verða að átta sig á, að sameiginlegt fé þjóðarinnar er takmarkað og að ábyrgðarhluti er að grýta því á allar hendur.

Umfram allt mega þeir ekki hugsa eins og viðskiptaráðherra, sem finnst aðfinnsluvert, að rannsóknarnefnd sé að amast við skorti fjármálaábyrgðar á Alþingi.

Jónas Kristjánsson

DV