Ábyrgðin borgar sig.

Greinar

Í þessari viku hafa aukizt líkur á, að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar komizt að fullu til framkvæmda. Er það vel, því að lögin munu auðvelda næstu ríkisstjórn að hafa forustu í vörnum gegn vaxandi efnahagsvanda.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa smám saman verið að átta sig á, að heimurinn er ekki eins einfaldur og forustumenn þeirra hafa látið hafa eftir sér á undanförnum vikum. Þeir skilja jafnvel, að ábyrgðarleysi getur kostað fylgi.

Mitt í þessari upplýsingu er Alþýðubandalagið komið með bakþanka. Forustumenn þess telja sér ranglega trú um, að þeir tapi fylgi á að vera ábyrgir. Að baki liggur gamalkunnt vanmat stjórnmálamanna á kjósendum.

Forustumenn Alþýðubandalagsins segjast vilja fá bráðabirgðalögin strax í eldvígslu í neðri deild, svo að misvitrir stjórnarandstæðingar fái tækifæri til að fella þau og losa þar með bandalagið við hinn ímyndaða glæp.

Þetta sjónarmið nær vitanlega ekki fram að ganga. Alþýðubandalagið fær þar með ágætt tækifæri til að átta sig á, að kjósendur hafa áhuga á fleiru en kröfuhörku, yfirboðum og ábyrgðarleysi. Slík uppgötvun er mikilvæg.

Bezt er, að ríkisstjórnin flýti sér nú að ná saman framvörpum um hliðarmál bráðabirgðalaganna, svo sem nýjan vísitölugrundvöll, láglaunabætur og aukið orlof. Þessu hefur verið lofað og ríkisstjórnin verður að efna.

Tæpast er unnt að þola meira en tveggja vikna töf á, að þessi frumvörp líti dagsins ljós. Þau eiga ekki að þurfa að vera flókin. Til dæmis er nýi vísitölugrundvöllurinn tilbúinn, hvenær svo sem stjórnmálamenn þora.

Hins vegar liggur ekki á að leggja bráðabirgðalögin fyrir efri, ekki neðri, deild fyrr en þessi hliðarmál eru einnig tilbúin til meðferðar á alþingi. Því meiri tími sem gefst, þeim mun raunsærri eru menn líklegir til að verða.

Stjórnarandstaðan ætti nú að snúa frá villu síns vegar, éta ofan í sig ruglið og fara að huga að raunverulegum afglöpum ríkisstjórnarinnar, sem munu brátt líta dagsins ljós í gengdarlausri lánsfjáráætlun.

Stjórnarandstaðan ætti að láta sómasamleg bráðabirgðalög í friði og reyna í þess stað að hindra, að lélegt fjárlagaframvarp og afleit lánsfjáráætlun eyðileggi hið góða, sem felst í bráðabirgðalögunum.

Heppilegast er, að stjórn og stjórnarandstaða stefni að afgreiðslu allra þessara mála rétt fyrir jól, annars vegar bráðabirgðalaganna og fylgifrumvarpa þeirra og hins vegar fjárlaga og niðurskorinnar lánsfjáráætlunar.

Um leið er hægt að ná samkomulagi um, að kjósendur komist að í marz eða apríl. Sú tímasetning kemst næst því að brúa bil ýmissa sjónarmiða um skjótar og seinar kosningar. Sú steingrímska er skynsamleg.

Í kosningum í marz eða apríl fá svo stjórnmálamenn kjörið tækifæri til að átta sig á, að kjósendur eru ekki eins vitlausir og hingað til hefur verið haldið. Atkvæðin munu hrannast upp, þar sem ábyrgðartilfinningin verður mest.

Allir flokkarnir geta komið með hattinn, þar sem atkvæðunum rignir. Aðalatriðið er, að stjórnmálamennirnir hætti að þrugla og byrji að vinna. Við þurfum á því að halda, því að bráðabirgðalögin eru bara fyrsta skrefið.

Jónas Kristjánsson.

DV