Ábyrgðin er kennara

Greinar

Þegar Þjóðverjar hófu síðari heimsstyrjöldina með því að ráðast á Pólverja, sagði Hitler, að það væri Pólverjum að kenna. Þeir hefðu getað komið í veg fyrir stríð með því að fallast á nokkrar kröfur. Með því að hafna hógværum kröfum bæru þeir ábyrgð á stríðinu.

Röksemdafærsla Hitlers hefur æ síðan verið notuð sem kennslubókardæmi um rökleysu eða hundalógík. Sá sem fremur verknað, svo sem að fara í stríð eða í verkfall, ber á verknaðinum fulla ábyrgð og getur ekki kennt hinum aðilanum um, hvernig málum sé komið.

Samtök kennara á Íslandi beita nú rökleysu Hitlers, þegar þau vísa ábyrgð á fyrirhuguðu verkfalli kennara á hendur fjármálaráðherra, ríkisstjórn eða stjórnvöld um almennt. Þessi frávísun verkfallsábyrgðar hefur einkennt áróðursherferð kennara að undanförnu.

Fundir kennara hafa þessa daga verið að “átelja stjórnvöld harðlega fyrir að etja kennurum enn einu sinni út í verkfallsaðgerðir”. Orðalagið er fengið beint frá Hitler sáluga, sem að eigin sögn lét Pólverja etja sér út í hernaðaraðgerðir og átaldi þá harðlega fyrir.

Fólk getur haft deildar skoðanir um, hvort fyrirhugað verkfall sé nauðsynlegt eða ekki og hvort ríkisvaldið hafi með stífni stuðlað að því eða ekki. Það breytir ekki því, að sá sem framkvæmir verkfall, getur ekki með neinum rökum vísað ábyrgðinni á annarra herðar.

Fróðlegt er, að kennarar saka stjórnvöld um að hafa ítrekað att sér út í verkfall. Það vísar til, að kennarar hafa á síðustu árum verið verkfallsfíknasta stétt landsins. Margir hópar hafa mátt sæta stífni ríkisins í samningum, en enginn látið etja sér á borð við kennara.

Fjármálaráðuneytið semur við marga hópa. Ef einn þessara hópa fer miklu oftar í verkfall en aðrir, er óhjákvæmilegt að álykta, að afar líklegt sé, að mikinn hluta orsaka og ábyrgðar ágreiningsins megi finna hjá einmitt þessum aðila, sem fer oftar í verkfall en aðrir.

Fyrr í vetur þótti kennurum eins menntaskólans í Reykjavík ekki í frásögur færandi, þótt kennsla félli niður í viku vegna erfiðleika á tölvukeyrslu stundataflna. Kennarar segja hins vegar óbærilegt, að nemendur missi af leiðsögn, ef orsökin sé ríkisstífni.

Satt að segja verða stjórnvöld að gefa sér sem staðreynd, að skólastarf geti á nokkurra ára fresti fallið niður um nokkurra vikna skeið, af því að kennarar telja sig þurfa meiri laun. Ríkið verður að geta mætt með æðruleysi þessum hversdagslega og endurtekna vanda.

Stjórnvöld verða líka að líta á það sem náttúrulögmál, að kennarar reyni að koma verkföllum sínum þannig fyrir, að þau trufli skólastarf sem mest, svo að þau hafi sem mest kúgunargildi. Ríkið má ekki taka á sig neina ábyrgð af skaðlegum áhrifum truflunarinnar.

Þjóðin sekkur ekki í neitt fen fáfræðinnar, þótt nokkrum sinnum sé gripið til þess ráðs að hleypa nemendum próflaust milli ára. Í sumum tilvikum getur það valdið tæknilegum erfiðleikum. Þeir verða þó seint flóknari en önnur vandamál, sem menn eru alltaf að fást við.

Ennfremur er líklegt, að ríkisvaldið verði að geta sýnt fram á, að stjórnlítil verkfallafíkn leiði ekki til árangurs. Þess vegna væri skynsamlegt að gera strax ráð fyrir, að skólastarf liggi niðri frá páskum og fram á haust, svo að menn fái tíma til að kæla sig niður.

Meginatriðið er, að ríkið neiti að taka við ábyrgðinni úr höndum kennara og neiti að láta sífellt kúga sig til hlýðni, jafnvel þótt festan kosti nokkuð langt stríð.

Jónas Kristjánsson

DV