Að fá eitthvað fyrir ekkert

Greinar

Fólk skrifar sig fyrir hlutabréfum í bönkum, selur þau aftur og fær nokkur þúsund krónur upp úr krafsinu. Þetta er sú mynd, sem einkavæðingin hefur tekið á sig, þótt tilgangurinn hafi upphaflega verið, að fólk héldi hlutabréfum sínum og biði eftir arðgreiðslum.

Sumum reynist þetta vera kennsla í þætti hlutabréfa í almennum sparnaði, en öðrum reynist þetta vera ný útgáfa keðjubréfanna gömlu, sem áttu að gera menn ríka fyrir ekki neitt. Dæmin sanna, að það höfðar til margra Íslendinga að geta fengið eitthvað fyrir ekkert.

Sumir hugsa sem svo, að ekki sé nema mátulegt, að þeir sjálfir hagnist svolítið á hlutabréfaútboði, úr því að einkavinir stjórnvalda hafa hagnazt enn meira á einkavæðingu ríkiseinokunar. Þeim finnst þeir verða sjálfir ofurlitlir aðilar að hinni eftirsóttu spillingu.

Margir hafa það eitt út á spillingu að setja að komast ekki í hana sjálfir. Þeir stjórnast af öfund fremur en réttlæti. Í þeirra augum eru það sárabætur að geta fengið eitthvað ókeypis út á kennitöluna. Þannig stuðlar útboð hlutabréfa í bönkum að friði í þjóðfélaginu.

Á svipaðan hátt hafa margir sótzt eftir aðild að kvótakerfinu í fiskveiðum í kjölfar dóms Hæstaréttar. Þeir telja hugsanlegt, að sægreifastandið verði víkkað út til þeirra, sem hafi vit á að vera með sníkjuhattinn sinn á réttum stað og réttum tíma í ráðuneytinu.

Það er von, að menn haldi þetta, úr því að einn þekktasti lagaprófessor landsins telur, að fyrsta grein kvótalaganna sé marklaus, þótt hún sé eina grein laganna, sem fékk rækilega umfjöllun á Alþingi. Þetta er greinin, sem segir, að þjóðin eigi fiskinn í sjónum.

Þessi grein var ekki hugsuð sem ávísun á ókeypis aðgang fólks að tekjum einkavinavæðingar. Hún er bara sett í lögin til að skera úr um, að sægreifarnir eigi ekki fiskinn í sjónum, heldur þjóðin. Þar með er átt við þjóðina alla, en ekki eitt þúsund kvótaumsækjendur.

Siðferðileg forsenda þessarar fyrstu greinar laganna er, að stjórnvöld hafa fyrir hönd þjóðarinnar framleitt auðlindina með því að setja reglur um þröngan aðgang að henni. Ef reglurnar hefðu ekki verið settar, væri búið að ofveiða stofnana og auðlindin væri þorrin.

Samkvæmt stjórnarskrá og lögum er fiskurinn í sjónum sameign þjóðarinnar, en ekki séreign núverandi sægreifa, væntanlegra sægreifa úr hópi umsækjenda, sjómanna, fiskverkafólks, fiskvinnslustjóra, sveitarfélaga á höllum fæti eða einhvers annars sérhagsmunahóps.

Þegar Hæstiréttur hefur með öðrum dómi staðfest gildi fyrstu greinar laganna, geta stjórnvöld brugðizt við með því að láta alla umsækjendur hafa kvóta eða með því að senda kvóta í pósti til allra kennitalna. Það er aðferð, sem minnir á hlutafjárútboð bankanna.

Stjórnvöld geta líka brugðizt við á ábyrgari hátt með því að láta kvótann fara á leiguuppboð, þar sem allir hafa rétt til aðildar, en þeir bjóða bezt, sem hagstæðastar hafa forsendur til að veiða fiskinn. Þannig væri öllu réttlæti og allri markaðshagfræði sinnt í senn.

Að undanförnu hafa misvísandi skilaboð verið send til almennings með kennitöluæðinu. Því hefur óbeint verið komið á framfæri, að markaðsvæðing hagkerfisins feli í sér ókeypis hlutaveltu með engum núllum, en ekki langtímasparnað þeirra, sem vilja kaupa pappíra.

Það er gott að leggja niður einokun, hvort sem hún er ríkis, sægreifa, Kára eða annarra gæludýra. En það er engan veginn sama, hvernig ríkið heldur á spilunum.

Jónas Kristjánsson

DV