Að hindra sult og seyru.

Greinar

Vandamál undirstéttarinnar í landinu verða ekki leyst í kjarasamningunum, sem nú er verið að undirbúa hjá ríkinu og á almennum vinnumarkaði. Ef hindra á sult og seyru hjá fámennum hópi fólks, verður að fara aðrar leiðir að auki.

Fjármálaráðuneytið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja deila um, hvort lágmarkslaun eigi að vera 12.420 krónur eða 15.000 krónur á mánuði. Báðir aðilar eru hlynntir lágmarkslaunum og í rauninni ber furðu lítið á milli í tölum.

Virðingarvert er, að í opinbera geiranum skuli menn í raun fylgja hugsjóninni um lágmarkslaun. Á almenna vinnumarkaðinum hafa menn einnig haft þetta mjög á orði, en allir vita um leið, að lítt vottar fyrir því á borði.

Vinnuveitendasambandinu þykir rétt að styðja málstaðinn opinberlega, þótt ráðamönnum þess séu ljósir gallar lágmarkslauna. Meðal annars stuðla þau að launaskriði. Einnig hafa þau tilhneigingu til að verðleggja láglaunafólk út af vinnumarkaði.

Alþýðusambandinu er enn meiri nauðsyn að þykjast fylgja lágmarkslaunum í stað flatrar prósentuhækkunar launa. En allur þorri ráðamanna þess er samt í raun ráðinn til að gæta hagsmuna þeirra, sem betur mega sín, svo sem uppmælingaraðals.

Svo kann að fara, að framtakið í opinbera geiranum þvingi almenna vinnumarkaðinn til að semja um hliðstæð lágmarkslaun þar, jafnvel þótt það minnki prósentuhækkun þeirra launþega, sem Alþýðusambandið er í raun að semja fyrir.

Samt sem áður mun það ekki leysa vandamál undirstéttarinnar í landinu. Það er sérhæft vandamál, sem ekki fellur vel að möguleikunum, sem kjarasamningar bjóða. Og það mun einmitt koma í ljós í láglaunakönnun Kjararannsóknanefndar.

Undirstéttin í landinu er mjög fámenn, ef til vill um tíundi hluti þjóðarinnar. Langsamlega mestur hluti hennar eru sumar fjölskyldur einstæðra foreldra og sumar barnmargar fjölskyldur. Einnig er dálítið af öldruðu fólki og örkumla.

Ef láglaunamarki fylgir hliðstæð hækkun ellilífeyris og örorkubóta, er líklegt, að mestur hluti vandans, sem eftir er, sé hjá fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum. Og sá vandi verður seint leystur með láglaunamarki.

Einstæð móðir, sem aðeins getur unnið hálfa vinnu utan heimilis, mun áfram búa við sult og seyru. Og hið sama má segja um barnmargar fjölskyldur, þar sem aðeins annað foreldrið getur unnið fulla vinnu, en hitt aðeins hálfa.

12.420 króna lágmarkslaun geta hugsanlega nægt einstaklingi. Barnlaus hjón, sem bæði vinna úti, geta enn frekar lifað af 24.840 krónum, því að ódýrara er fyrir tvo að lifa saman á heimili en fyrir einn. Það eru börnin, sem breyta myndinni.

Einstæð móðir getur ekki lifað af meðlagi og 6.210 króna launum fyrir hálfan vinnudag utan heimilis. Og fjögurra barna fjölskylda getur ekki lifað af 18.630 króna launum fyrir hálfan annan vinnudag utan heimilis.

Staðreyndin er, að það er dýrara að skilja og dýrara að eiga mörg börn en atvinnulífið getur staðið undir í öllum tilvikum. Það er vandamál, sem verður að leysa með millifærslu hins opinbera, með barnabótum til undirstéttarinnar.

Sí og æ er verið að benda á, að rétta leiðin er að breyta niðurgreiðslum búvöru í fjölskyldubætur, barnabætur eða afkomutryggingu. Það er einföld leið til að hindra sult og seyru hinna fáu, á kostnað hinna mörgu, sem sæmilega hafa til hnífs og skeiðar.

Jónas Kristjánsson

DV