Að kunna að hætta

Greinar

Kládíus, Kalígúla og Neró byrjuðu vel sem rómverskir keisarar, en misstu smám saman jarðsamband. Umkringdir viðhlæjendum fóru þeir að haga sér undarlega og síðan að halda sig guðdómlega og urðu að lokum afleitir keisarar. Slík eru örlög margra valdamanna með óheflað sjálfsálit.

Lýðræðiskerfið reynir að komast hjá þessum vanda með því að skipta út valdhöfum í tæka tíð, áður en þeir telja sig goðumlíka og ómissandi. Stundum hefur þetta ekki tekizt. Þannig enduðu Helmut Kohl Þýzkalandskanzlari og Francois Mitterand Frakklandsforseti feril sinn með skít og skömm.

Landsfeður þurfa að átta sig á, hvenær er kominn tími til að hætta, þótt kjósendur hafi ekki vit fyrir þeim. Urho Kekkonen þaulsat sig inn í barndóm og Margaret Thatcher var hrakin frá völdum. Charles de Gaulle hafði hins vegar vit á að draga sig í hlé, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.

Upp hlaðast einkenni þess, að kominn sé tími á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Verst er, að hann skuli vera með forseta Íslands á heilanum og láta ekkert færi hjá sér fara til að efna til illinda á toppi þjóðfélagsins. Það er fyrir utan alla mannasiði, sem flestum okkar voru kenndir í æsku.

Það er vont, þegar forsætisráðherra er með einstaklinga á heilanum og stýrir stjórnkerfinu með hliðsjón af því. Það er vont, þegar hann hringir í embættismenn og fer undir rós með hótanir. Það er vont, þegar hann kallar rithöfund á teppið og fer með skrítnar einræður, sem hneyksla viðmælandann.

Það er vont, þegar forsætisráðherra talar um svokölluð hreðjatök í pólitíkinni, rétt eins og hann hafi horft á of margar mafíukvikmyndir. Það er vont, þegar forsætisráðherra fær hvað eftir annað reiðiköst og hagar sér eins og illa uppdreginn götustrákur, sem reynir að koma illu af stað.

Það er vont, þegar forsætisráðherra gargar á fólk á förnum vegi í húsakynnum Alþingis og lætur búa til sérstakt horn fyrir sig með dúklögðum borðum, þar sem hann getur haft hirð viðhlæjenda kringum sig og þarf ekki að sæta jarðsambandi. Hin flókna stéttaskipting umhverfis kónginn er afar vond.

Það er vont, þegar forsætisráðherra lætur setja sértæk lög um eftirlaun forsætisráðherra, sniðin að meintum þörfum sínum. Það er vont, þegar forsætisráðherra lætur setja sértæk lög um Spron og önnur um Norðurljós. Það er vont, þegar áhrifafólk í flokknum skelfur af ótta við kóng sinn.

Eftir öll þessi ár er orðin spurning, hvort flokkurinn hefur lengur efni á goðumlíkum formanni og hvort þjóðin hafi efni á flokki, sem sættir sig endalaust við goðumlíkan formann.

Jónas Kristjánsson

DV