Að semja við Spörtu.

Greinar

Samkvæmt gildandi túlkun ráðamanna Sovétríkjanna á Helsinki-samkomulaginu má reyna að efla mannréttindi á Suðurskautslandinu. Annars staðar eru mannréttindi innanríkismál viðkomandi valdhafa. Þeir telja þau að minnsta kosti vera innanríkismál sitt í Sovétríkjunum.

Þannig rita ráðamenn Sovétríkjanna undir samninga af ýmsu tagi og finna síðan túlkun, sem gerir undirskrift þeirra að engu. Dæmið um mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins er grófasta dæmið af mörgum um, að sovézkar undirskriftir eru marklausar í vestrænum skilningi.

Þess vegna er ástæðulaust að gera sér rellu út af litlum og lélegum undirskriftum á toppfundi leiðtoga heimsveldanna í Genf. Frekar er ástæða til að fagna því, að hætta á misskilningi hefur ekki aukizt vegna þess að marklausum pappírsskjölum hafi fjölgað.

Sem dæmi um gagnsemi eða gagnsleysi samninga við Sovétríkin má nefna Salt II, hinn kunna samning um takmörkun vígbúnaðar. Þrátt fyrir hann hafa ráðamenn Sovétríkjanna látið setja upp tvö ný kerfi milliálfuflauga. Ennfremur hafa þau haldið leyndum 75% af upplýsingum um vopnatilraunir.

Ráðamenn Sovétríkjanna telja það merki um geðveiki, er hópur af þrælum þeirra myndar félag um að fylgjast með efndum á mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins. Hverjum einasta þeirra hefur verið stungið á hæli, þar sem þeir sæta sérkennilegum læknavísindum Sovétríkjanna.

Þrátt fyrir misnotkun læknavísinda í Sovétríkjunum hefur Kasov læknir, sem er aðstoðar-heilbrigðisráðherra, fengið helminginn af friðarverðlaunum Nóbels að þessu sinni. Aulaskap Norðurlandabúa í þessum efnum virðast engin mörk sett. Þeir beinlínis heiðra skálkinn.

Amnesty hefur á skrám sínum nöfn 560 stjórnmálafanga í Sovétríkjunum. Síðan Gorbatsjov komst til valda, hafa fjórir andófsmenn dáið í þrælkunarbúðum hans. Síðan hann komst til valda hefur aukizt notkun geðsjúkrahúsa gegn þeim, sem ekki eru sammála stjórnvöldum.

Andrei Sakharov, Jelena Bonner og Anatoli Sjaranski eru þrjú frægustu nöfnin úr hinum mikla hópi, sem Sovétstjórnin ofsækir. Dæmi um hina vaxandi hörku er, að árið 1979 fengu 51.320 gyðingar að flýja Sovétríkin, en í fyrra aðeins 896. Í ár verða þeir ekki fleiri.

Sovétríkin eru hernaðar- og ofbeldisveldi, sem hvílir á efnahagslegum brauðfótum. Það er eina stórveldið, sem heldur úti umfangsmiklum hernaði víða um heim, svo sem í Afganistan, Kampútseu og Eþiópíu. Það er á mun meiri hraða í vígbúnaðarkapphlaupinu en hitt heimsveldið.

Að baki er þjóðfélag, sem býður fólki meðaltekjur, sem eru langt undir fátækramörkum í Bandaríkjunum og til dæmis Íslandi. Sovétríkin eru eins og Sparta fornaldar, efnahagslegt sníkjudýr, sem lifir á útþenslu og ofbeldi, sérhæfir sig í hernaði.

Gorbatsjov telur sig þurfa ítök í Vestur-Evrópu til að bæta upp hina efnahagslegu brauðfætur heima fyrir. Hann veit, að Sovétríkin eru á mörgum sviðum að dragast hratt aftur úr Vesturlöndum, til dæmis í tölvutækni. Lausn hans er að Póllandiséra Vestur-Evrópu.

Ef Vesturlandabúar láta ekki taka sig á taugum, átta sig á, að pappírsgögn eru lítils virði og að aldrei má skilja á milli friðar annars vegar og mannréttinda hins vegar, má búast við, að Sovétríkin linist um síðir í taugastríðinu og fari að huga að marktæku samkomulagi.

Jónas Kristjánsson

DV