Að þola vextina.

Greinar

Alla mannkynssöguna hafa 10% raunvextir verið hefðbundnir. Raunvextirnir, sem nú eru á ýmsum lánum hér á landi, eru því ekki háir, sagnfræðilega séð, þótt þeir vaxi í augum þjóðar, sem upp á síðkastið hefur vanizt neikvæðum vöxtum og meira að segja gert út á þá.

Margir gagnrýna hið svonefnda vaxtaokur á þeim forsendum, að atvinnulífið þoli ekki vextina, einkum svonefndir undirstöðuatvinnuvegir. Þar sé arðsemin í mörgum tilvikum lítil sem engin. Það hljóti að leiða til ófarnaðar, er fyrirtæki með 2% arðsemi sæti 5% raunvöxtum.

Svona einfalt er dæmið að vísu ekki. Arðsemi fjárfestingar, sem lán eru tekin fyrir, getur verið mun meiri en arðsemin af starfsemi fyrirtækisins í heild. Orkusparandi aðgerðir geta til dæmis verið mjög arðsamar í fiskimjölsverksmiðju, þótt ekki sé arður af rekstrinum í heild.

Hitt er áreiðanlega rétt, að mikið af íslenzkri fjárfestingu gefur ekki arð og stendur ekki undir raunvöxtum. Við sjáum það ef til vill bezt af því, að ár eftir ár er fjárfest um 25% þjóðartekna, án þess að þjóðarbúið eflist. Sum árin rýrnar það meira að segja.

Þetta sýnir ekki, að raunvextir eigi að lækka eða gerast öfugir. Þetta sýnir, að við eigum að vanda betur til fjárfestingar, gera meiri arðsemiskröfur til hennar. Og sæmilegir raunvextir eru einmitt leið til að koma aga á athafnaþrá og lánafíkni okkar.

Við getum gengið lengra í þessu en flestar aðrar þjóðir af því að við búum við óvenjulítið atvinnuleysi og í rauninni við offramboð atvinnutækifæra. Við þurfum því ekki að hvetja til fjárfestingar á félagslegum forsendum og getum frekar einblínt á arðsemina.

Atvinnugreinar eru einkar misjafnar að þessu leyti. Á sumum sviðum er arðsemi fjármagnsins neikvæð, svo sem í hefðbundnum landbúnaði. Þá er einnig ljóst, að fjárfesting í stóriðju er ekki heppileg í hinum íslenzka fjármagnsskorti. Við eigum að láta útlendinga um slíkt.

Almennt séð má reikna með, að arðsemi fjármagns sé mest í ýmsum léttum iðnaði. einkum þeim, sem gerir mestar kröfur til nákvæmni, hugvits og þekkingar. Tölvutækni og laxeldi ber oft á góma, þegar fjallað er um efnilegar greinar, þar sem búast má við, að fjárfesting skili arði.

Þótt fullar arðsemiskröfur séu gerðar á öllum sviðum, sem teljast til atvinnulífsins, getur verið nauðsynlegt að slaka á klónni á öðrum sviðum af félagslegum ástæðum. Þar ber hæst húsnæðislánin og námslánin, sem hið opinbera greiðir niður og líklega ekki nógu mikið.

Ef gera á ungum Íslendingum kleift að eignast þak yfir höfuðið, er ekki nóg að efna loforð stjórnarflokkanna um 80% lán til 40 ára. Það verða líka að vera annúitetslán og ekki með hærri raunvöxtum en 4-5%. Frá þessu sjónarmiði eru 6-8% raunvextir lífeyrissjóða of háir.

Ennfremur er ljóst, að sumt bókvit verður ekki í askana látið, þótt annað bókvit sé arðbært. Ef menntun á að vera almenningseign, er ekki hægt að reikna með, að allir námsmenn geti endurgreitt námslán og raunvexti af þeim. Afföll á þessu sviði eru óhjákvæmileg.

Þannig geta félagslegar aðstæður leitt til verulegs eða fulls afsláttar arðsemiskrafna. Um leið verða menn að gera sér grein fyrir, að lánsfé af slíku tagi verður ekki notað í annað á meðan. Minna verður aflögu til arðbærrar fjárfestingar og þjóðarbúið vex hægar en ella.

Jónas Kristjánsson.

DV