Íslendingar hafa lengi verið á báðum áttum gagnvart helztu kaupstefnu hestamennskunnar í heiminum, á Equitana í Essen, þar sem íslenzki hesturinn er dropi í hafi hestakynjanna. Þessi viðhorf endurspeglast í viðtölum Eiðfaxa við menn, sem komu með ýmsum hætti að kaupstefnunni, og menn, sem kusu að koma ekki að henni.
Sennilega er íslenzkum þætti þessarar 250.000 gesta kaupstefnu að fara aftur. Sýningar á íslenzka hestinum skara ekki lengur fram úr og eru hættar að valda almennri hrifningu umfram sýningar á kostum annarra hestakynja. Því valda einkum erfiður fjárhagur þeirra, sem sjá um sýningarnar, og þröngar skorður, sem ráðamenn kaupstefnunnar hafa sett höfuðsýningunni á kvöldin.
Í viðtali Eiðfaxa við Hans Joachim Erbel, forstjóra Equitana, lofaði hann ítrekað, að næst yrði gert kleift að leggja áherzlu á sérstaka kosti íslenzka hestakynsins í höfuðsýningunni á kvöldin. Þetta ætti að vera aðstandendum íslenzka hestsins hvatning til að setja saman glæsilega sýningu, sem fær gesti til að standa upp og klappa.
Þáttur íslenzkra hesta á kaupstefnunni var að þessu sinni borinn uppi af þrenns konar aðilum. Í fyrsta lagi voru það Íshestar og nokkur önnur hestaferðafyrirtæki, í öðru lagi voru það Saga reiðskólarnir þýzku og nokkrar þýzkar Íslandshestajarðir. Í þriðja lagi voru það vörumerkin Top Reiter og Quick Shop.
Það er dýrt í básaleigu og mannahaldi að taka þátt í Equitana. Nokkurra þreytumerkja gætti hjá sumum, sem voru þar með Íslandshestabása, jafnt Þjóðverjum sem Íslendingum. Sumir sögðu, að íslenzki þátturinn héldi sjó, en aðrir töldu hópinn vera á hægu undanhaldi. Það bætir úr skák, að næst er líklegt, að nýja Landsmótsfélagið verði sýnilegt á kaupstefnunni.
Eldhestar eru stór hestaferðaskrifstofa, sem ekki er með. Félag hrossabænda er ekki með og ekki heldur Bændasamtökin eða Landbúnaðarráðuneytið. Við sjáum í viðtölum Eiðfaxa ýmsar og ástæður efasemda slíkra aðila. Að mestu er þó eitt atriði, sem mestu máli skiptir: Það vantar sterka kjölfestu í hópinn.
Auðvelt er að rökstyðja, að Félag hrossabænda eigi með aðstoð sjóða og styrktaraðila að vera með bás á sýningunni, þar sem lögð verði áherzla á tvö atriði. Röksemdir fyrir þessum tveimur atriðum koma fram í viðtölum Eiðfaxa. Annars vegar þarf gagnsókn í exemsmálinu og hins vegar áherzlu á sérstöðu Íslandsfædda hestsins umfram íslenzka hesta, sem fæddir eru erlendis.
Fleiri en Hamlet standa andspænis spurningunni um að vera eða vera ekki. Af öllum svörum er svar Hamlets verst -að vera hvorugt. Velunnarar íslenzka hestsins þurfa að hittast og meta stöðuna. Eiga menn að vera á þeim vettvangi, þar sem baráttan stendur milli hestakynja heimsins eða eiga menn bara að vera á vettvangi hinna sannfærðu, heimsleikum íslenzka hestsins? Menn þurfa að ákveða, hvort þeir vilja vera eða vera ekki.
Equitana er mikil freisting. Þar er mannhaf 250.000 gesta á meira en tíu hektörum, þar sem eru 800 sölubásar frá 20 löndum og samhliða hestasýningar á mörgum stöðum, meðal annars á töltbraut í sýningarsal Íslendinga. Equitana er gluggi fyrir Ísland sem ferðaland, sem upprunaland gæðinga, sem upprunaland sérstæðrar vöru og þjónustu. En jafnframt er þetta dýr freisting.
Hægfara andlát aðildar er verst. Betra er að velja aðra hvora leiðina. Annað hvort að hætta þátttöku og nota peningana betur á annan hátt. Eða endurreisa aðildina á þann hátt, að eftir verði tekið í alþjóðaheimi hestamennskunnar.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi júní 2003