Að vinna friðinn

Greinar

Opnun járntjaldsins í Þýzkalandi og Berlínarmúrsins eflir Vestur-Þýzkaland sem stórveldi meginlands Evrópu. Vesturþýzkra áhrifa mun nú gæta enn meira í Austur-Þýzkalandi, ekki bara sem segull flóttamanna, heldur sem segull viðskipta og efnahagssamvinnu.

Fyrir opnunina lágu flestir þræðir viðskipta austurs og vesturs í Evrópu um Vestur-Þýzkaland. Stjórnvöld þar hafa lengi stuðlað að auknu samstarfi við Austur-Evrópu. Það eru vesturþýzkir embættismenn, iðjuhöldar og kaupsýslumenn, sem þekkja þræðina í austri.

Með opnun landamæra mun áhrifa Vestur-Þýzkalands gæta enn frekar í austri. Frá Vestur-Þýzkalandi kemur mest fjárhagsaðstoð, mest áhættufé, mest verkþekking í iðnaði og reynsla í kaupsýslu. Vestur-Þýzkaland er að verða þungamiðja hinnar opnuðu Evrópu.

Ef kalda stríðinu er nú um það bil að ljúka, má segja, að eftirmála heimsstyrjaldarinnar síðari sé einnig að ljúka. Niðurstaða dæmisins er nokkuð önnur en hin herfræðilega. Hinir sigruðu standa efst á verðlaunapalli, en sigurvegararnir hafa vikið til hliðar.

Heimsstyrjöldin varð Bretlandi og Frakklandi ofraun, þrátt fyrir sigurinn. Herkostnaðurinn var svo mikill, að Bretar náðu sér aldrei á strik sem stórveldi og gátu ekki sniðið sér stakk eftir vexti eftirstríðsáranna. Og þeir segja enn “haltu mér, slepptu mér” við Evrópu.

Í fyrstu virtust hinir tveir sigurvegararnir geta notað sér vinninginn. Sovétríkin og Bandaríkin skiptu jörðinni milli sín í áhrifasvæði og hafa áratugum saman háð kalt stríð um völd sín og áhrif. Þetta stríð hefur kostað heimsveldin tvö ógrynni fjár og annarra fórna.

Meðan þessir voldugu sigurvegarar tefldu hina dýru skák, risu hinir sigruðu úr öskustónni. Japan og Vestur-Þýzkaland urðu smám saman efnahagsleg verzlunarstórveldi og standa núna til jafns heimsveldunum tveimur að peningalegu afli þeirra hluta, sem gera þarf.

Athyglisvert er, hvernig ógæfa hinna sigruðu snerist þeim í vil. Upp úr rústum stríðsins risu ný iðjuver, sem vegna tækniþróunar voru hagkvæmari í rekstri en gömlu fyrirstríðsverksmiðjurnar í löndum sigurvegaranna, er ekki þurftu að þola eins miklar loftárásir.

Kalda stríðinu er ef til vill að ljúka um þessar mundir. Sovétríkin játa sig sigruð í samkeppninni við Bandaríkin. Hugmyndafræðin er hrunin til grunna. Afrakstur erfiðis almennings liggur í hergögnum, sem koma engum að gagni, en fólkið sjálft er slyppt og snautt.

Nú keppast Sovétríkin og ríki Austur-Evrópu um að verða fyrst til að taka upp vestræna siði í verzlun og efnahag. Miðstýring er að víkja fyrir markaði, stjórnlyndi er að víkja fyrir frjálshyggju. Sum ríkin í Austur-Evrópu eru komin hægra megin við miðstýrt Ísland.

Bandaríkjunum hefur reynzt þetta dýrkeyptur sigur. Það er nefnilega dýrt að þurfa að hafa áhrif um heim allan og þurfa að standa með hernaðarmætti undir forustuhlutverkinu. Þannig standa Bandaríkin sem lamaður sigurvegari að loknu hinu langvinna kalda stríði.

Hrun Sovétríkjanna og lömun eða þreyta Bandaríkjanna hefur gert fyrst Japan og síðan Vestur-Þýzkalandi kleift að skjótast í fremstu röð. Þetta eru forusturíki tveggja svæða efnahagsundurs síðustu áratuga, Suðaustur-Asíu annars vegar og Vestur-Evrópu hins vegar.

Heitt stríð og eftirmál þess í köldu stríði fer ekki alltaf eins og menn halda, að það hafi farið. Kaldhæðin mannkynssaga segir, að erfiðast sé að vinna friðinn.

Jónas Kristjánsson

DV