Aðalbólsheiði

Frá byggð í Núpsdal í Miðfirði suður að Arnarvatni.

Sú vestasta af jeppafærum heiðum milli Holtavörðuheiðar að vestan og Kjalvegar að austan. Vestar liggja Tvídægra og Núpdælagötur. Þær eru blautar og lítið farnar nú á tímum, því að gert hefur verið jeppafært suður hinar heiðarnar. Allt þetta svæði er þakið tjörnum og flóum og illfærum mýrum.

Kolbeinn ungi Arnórsson reið Núpdælagötur í nóvemberlok 1242 með lið sitt í fyrirsát að Þórði kakala Sighvatssyni í Borgarfirði. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Komust þeir hraktir niður í Hvítársíðu og yfir Hvítá í Reykholt.

Byrjum í Núpsdal í Miðfirði, þar sem þjóðvegur 704 mætir vegi inn í Austurárdal sunnan við eyðibýlið Barkarstaði og norðan við Núpsdalstungu. Fylgjum veginum suður Austurárdal að Aðalbóli og síðan áfram jeppaslóð suður heiðina. Komum að eyðibýlinu Aðalbreið í dalbotninum og förum þar upp með gjúfri Austurár, síðan yfir ána og vestan við Tungukoll í 480 metra hæð. Förum norðan og austan við Hólmavatn og síðan vestan við Nyrðri-Stórhól. Sunnan hans sveigir vegurinn frá suðri til suðausturs, framhjá afleggjara til suðurs að fjallaskálanum Lónaborg. Við höldum áfram norðan við Austur-Grandalón og komum brátt að norðvesturhorni Arnarvatns. Þar í 540 metra hæð er skálinn Hnúabak, sem heitir eftir hæð norðan vatnsins. Frá skálanum er síðan stutt leið með Arnarvatni vestanverðu og austan við Svartarhæð að Norðlingafljóti og þjóðleiðinni yfir Arnarvatnheiði.

40,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.
Lónaborg: N64 57.560 W20 26.720.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Aðalbólsháls, Steinheiði, Fljótsdrög, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort