Donald Regan væri sennilega enn starfsmannastjóri Hvíta hússins, ef hann hefði nennt að sinna betur símtölum frá forsetafrúnni, Nancy Reagan. Þeim hefur sinnazt í símanum og því hefur hún mánuðum saman unnið að því að koma honum frá. Það hefur nú tekizt.
Forsetafrúin hefur smám saman verið að færa sig upp á skaftið í stjórnmálunum og reynt að fylla í ráðleysisskarð forsetans. Hún hefur haft áhrif á mannaráðningar og lagt mikla áherzlu á sendiherrastöður. Hún er sögð vera dýrasti kaupleysingi fjárlaga ríkisins.
Til marks um ráðleysi Ronalds Reagan forseta má hafa, að þessa andstöðu frúarinnar þurfti til að hann fengist eftir dúk og disk til að losa sig við óhæfan starfsmannastjóra. Hann hefur ætíð átt erfitt með að manna sig upp í að reka róttæklingana í kringum sig.
Donald Regan stjórnaði Hvíta húsinu með valdshyggjusniði, enda gortaði hann af því fyrir Irangate, að hann réði þar öllu, þótt hann síðan hafi þótzt engu ráða. Engar efasemdir voru leyfðar í þessu keisararíki, enda hrundi það eins og spilaborg í Irangate.
Forsetanum voru ekki afhentir mismunandi kostir til að velja úr eins og venja hafði verið fyrir valdatíð Reagans. Ekki voru talin upp rök með og móti, heldur hnigu öll rök, sem hann fékk, að einni ákvörðun. Allt var dregið upp í svart-hvítum myndum róttæklinganna.
Í gráum litbrigðum hins raunverulega heims þarf forseti Bandaríkjanna fleiri en einn kost til að velja milli. Enn nauðsynlegra er slíkt, þegar við völd er forseti, sem ekki nennir sjálfur að kryfja mál til beins, heldur treystir í blindni á óhæfa ráðgjafa sína.
Reagan Bandaríkjaforseti hefur einfaldar hugsanir, sem fela í sér róttækar hugsjónir. Hann er um leið latur og gleyminn. Hann hefur reynzt vera áhugalaus um framkvæmd mála og hefur ekki veitt starfsmönnum sínum nægilegt aðhald. Hann er fjarri raunveruleikanum.
Til viðbótar við þetta er hann óhæfilega góðviljaður. Það kemur ekki bara fram í tregðu við að reka óhæfa róttæklinga úr starfi. Það kom enn skýrar fram í hinni langvinnu áráttu að kaupa frelsi handa bandarískum gíslum, sem nú hefur orðið stjórnarstíl hans að falli.
Það voru ekki rugludallar í öryggismálanefnd Hvíta hússins, sem einir framleiddu Irangate. Þeir voru hvattir til þess af forsetanum, sem fann til með gíslunum og var sífellt að tala um að kaupa þá lausa. Þeir töldu sig réttilega vera að framkvæma vilja forsetans.
Í gíslamálinu lenti Reagan í svipaðri stöðu og Aðalráður ráðlausi fyrir tíu öldum. Hann keypti víkingana af sér, með þeim afleiðingum, að þeir komu aftur að ári, hálfu frekari en fyrr. Hann varð því að kaupa þá af sér aftur og aftur með svonefndum Danagjöldum.
Árangur góðvilja Reagans hefur orðið, að nýir gíslar hafa verið teknir fyrir hina gömlu og verðlag þeirra hefur hækkað. Samúðin hefur því þveröfug áhrif og stofnar Bandaríkjamönnum í útlöndum í enn meiri hættu en þeir voru í, áður en Íransgjöld hófust.
Tower-skýrslan staðfestir það, sem sagt hefur verið hér í blaðinu allt frá upphafi valdaferils Reagans, að hann er illa hæfur til að gegna forsetaembættinu. Hann hefur byrði af hugsjónum og kaus sér til aðstoðar óhæfa róttæklinga, sem gerðu illt úr ráðleysi hans.
Við sjáum á skjánum forsetann baða út höndum og höfum það óþægilega á tilfinningunni, að hann skilji ekki sjálfur, hvort hann er að veifa eða drukkna.
Jónas Kristjánsson
DV