Auðvelt er að kaupa og selja bíla í Bandaríkjunum. Jón og Páll fylla út einn miðann, sem fylgir gögnum hvers bíls. Þeir fara síðan með miðann til næsta lyfsala, er staðfestir undirskriftir þeirra með stimpli sem notarius publicus. Þeir póstleggja síðan miðann til við komandi stofnunar. Ekki er skipt á númerum og enginn kostnaður greiddur, nema einn dollar til lyfsalans.
Í Bandaríkjunum er fólk með sérþarfir eins og annars staðar í heiminum. Munurinn er þó sá, að þar vestra er slíkum sérþörfum fullnægt, fyrir peninga. Fólk getur til dæmis haldið bílnúmerum sínum, en verður þá að sæta dýrari bílaskiptum, svo sem tíðkast hér á landi.
Þar getur fólk fengið fullnægt margvíslegum öðrum sérþörfum um bílnúmer en lágum tölum einum saman. Það getur fengið bókstafanúmer, til dæmis með nafninu sínu. Fólk segir bara, hvað það vill, og borgar fyrir það. Málið er úr sögunni og allir eru ánægðir.
Hér á landi er Alþingi Íslendinga hins vegar sett á annan endann dögum saman í einu versta tímahraki í sögu þess, af því að þingmenn deila um, hvort bílnúmer skuli fylgja bílum eða bíleigendum. Enginn má vera að því að láta sér detta í hug að leysa málið skynsamlega.
Bílnúmeramálið velkist milli þingdeilda, ýmist af því að eigendur lágra bílnúmera eru fjölmennari í neðri deild en í hinni efri, eða af því að einn stuðningsmaður þess, að bílnúmer fylgi bílum, er í stólnum hjá tannlækni, þegar boðað er til atkvæðagreiðslu um málið.
Ef vinnubrögð Alþingis væru ekki með þeim endemum, sem greinilega hafa komið í ljós í æðibunugangi þessarar viku, væri hægt að leysa mál á borð við bílnúmerin með tiltölulega almennu samkomulagi, sem tæki tillit til beggja sjónarmiða, amerískri lausn málsins.
Við erum ekki óvön slíkum lausnum. Skemmst er að minnast, að hatrammar deilur um hundahald í bæjum á Reykjavíkursvæðinu voru víðast hvar leystar með grundvallarreglu um bann við hundahaldi og með því að menn gátu með gjaldi keypt sig undan reglunni.
Við getum ennfremur beitt hliðstæðri skynsemi í öðrum ágreiningsefnum, bara ef menn gefa sér tíma til að setjast niður og hugsa. Þannig hefði mátt leysa bílnúmeramálið án sárinda og eftirmála. Og þannig hefði líka verið hægt að leysa bílbeltamálið vandræðalaust.
Þegar Alþingi ákvað í vikunni, að heimilt yrði að sekta fólk fyrir að nota ekki bílbelti, hefði það getað sett inn ákvæði um sérþarfir. Unnt hefði verið að heimila þeim, sem ekki lærðu upphaflega að nota þau og hafa ekki vanizt þeim, að kaupa sig undan reglunni.
Þannig væri smám saman hægt að koma á almennri notkun bílbelta eftir því sem nýir ökumenn koma til sögunnar og gamlir detta úr skaftinu. En ekki væri troðið á þeim, sem aldrei lærðu að nota beltin og eru fúsir til að borga fyrir sérstaka undanþágu, sérþarfirnar.
Hér á ritstjórninni var zetustríðið leyst fyrir löngu með því að hætta almennt við zetu, en heimila þeim, sem höfðu lært zetu og höfðu á henni sérstakt dálæti, að halda áfram að skrifa zetu. Allir urðu sáttir um þessa lausn. Hefur síðan ekki verið deilt um zetu á blaðinu.
Alþingi á að hætta að afgreiða umdeild mál í belg og biðu á síðustu vinnudögum þings. Það á að fresta þeim til næsta þings og fá greinda menn, Ljósvetningagoða nútímans, til að leggjast undir feld til að finna lausnir eins og þær, sem hér hafa verið nefndar, sem hafa aðalþarfir í fyrirrúmi, en taka tillit til sérþarfa.
Jónas Kristjánsson
DV