Aðför að forseta

Greinar

Áður en bandaríski þingmaðurinn og nefndarformaðurinn Henry Hyde tók forustu í þinginu um að auglýsa einkamál Clintons forseta hafði hann sjálfur haldið framhjá með giftri konu og eyðilagt hjónaband hennar. Clinton hafði þó aðeins verið að dufla við ógiftar konur.

Þingmaðurinn var í senn hórkarl og hjónadjöfull og er að því leyti verri en forsetinn. Það má hafa til marks um dæmigerðan bjálka í eigin auga. Tæplega helmingur nýrra þingmanna hefur skilið vegna framhjáhalds og má einnig hafa það til marks um grjótkast úr glerhúsi.

Enginn minnsti vafi er á, að rannsóknardómarinn Starr og meirihluti repúblikana í þinginu eru að reyna að koma höggi á demókratann í forsetastóli. Með milljarða kostnaði hefur ekki tekizt að sýna fram á neitt annað en að forsetinn hefur logið til um framhjáhald.

Flestir reyna að fela framhjáhald sitt og grípa til lyginnar, þegar í harðbakkann slær. Það þýðir ekki, að þeir hinir sömu séu slíkir lygarar að eðlisfari, að þeir séu ófærir um að gegna ábyrgðarstörfum. Gamalt máltæki segir, að allt sé leyfilegt í ástum og stríði.

Að vísu vill svo til, að forsetinn hefur á stjórnmálaferli sínum sýnt eindreginn vilja til að fegra sögu sína og stöðu, svo að mörgum finnst líklegt, að ósannindi hans í einkamálum endurspegli grundavallarbrest í skaphöfn hans, sem geri hann óhæfan til embættis síns.

Forsetinn liggur því vel við höggi repúblikana. Eftir því sem sögurnar verða nákvæmari og myndrænni, þeim mun fleiri komast á þá skoðun, að hann sé eða hafi verið gerður óhæfur um að gegna embættinu. Völdin í landinu munu þá færast meira í hendur þingsins.

Sá hængur er þó á ráðagerðinni, að Gore varaforseti mun taka við, ef Clinton verður hrakinn frá völdum. Varaforsetinn er flekklaus í einkamálum sínum og fær í forsetastóli svo vænt forskot á keppinautinn um sætið, að Gore má heita öruggur um að hljóta kosningu.

Repúblikanar veðja hins vegar á, að það sé eðli Clintons að gefast aldrei upp, enda hafi hann á ferli sínum tekið trú á mikla þrautseigju og lagni sína við að koma sér úr vondum klípum. Þeir vona, að hann haldi fast í stólinn og bíði eftir kraftaverki, sem ekki komi.

Þótt þetta gangi eftir, eru repúblikanar ekkert betur settir en demókratar í næstu forsetakosningum. Þeir verða sagðir ófærir um að skipa embætti, sem þeir hafa markvisst niðurlægt og eyðilagt. Þeir verða sakaðir um að hafa gert forsetaembættið varanlega óvinnufært.

Repúblikanar hafa enga langtímasýn yfir afleiðingar aðfararinnar að forsetanum og forsetaembættinu. Þeir eru aldir upp í þjóðfélagi skammtímalausna, þar sem fyrirtæki verða að sýna mikinn og batnandi árangur í uppgjöri tvisvar eða fjórum sinnum á ári.

Sérfræðingar skammtímalausna telja, að röð slíkra lausna jafngildi langtímalausn. Þeir geti á hverjum tíma leyst þau mál, sem upp komi. Hitt er þó líklegra, að sigur í einu máli framkalli ófyrirséðar hliðarverkanir, sem geri sumar skammtímalausnir verri en engar.

Bandarískir kjósendur ákveða svo auðvitað að lokum, hver græðir til skamms og langs tíma á aðför repúblikana að forsetanum og forsetaembættinu. Munu kjósendur haga sér eftir því, sem ætlast er til af grjótkösturum úr glerhúsi og sérfræðingum í pólitísku skítkasti?

Kjósendur vestra eru tvístígandi. Niðurstaðan verður sú sem jafnan, að þeir fá til langs tíma þá stjórnmálamenn, þingmenn og forseta, sem þeir eiga skilið.

Jónas Kristjánsson

DV