Fremur fáir þingmenn stjórnarflokkanna gera sér grein fyrir vaxandi undiröldu í þjóðfélaginu gegn afsali þjóðareignar á fiskimiðum landsins í hendur útgerðarmanna. Flestir virðast sáttir við fyrirhugað lagafrumvarp, sem heimilar útgerðarmönnum að veðsetja kvóta.
Samt er þetta eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna um þessar mundir, mun brýnna mál en til dæmis sameining vinstri manna um málefnasnauðan stórflokk. Veðsetningarmálið er síðasta tækifæri stjórnmálanna til að stöðva afsal fiskimiðanna í hendur sægreifanna.
Þjóðin hefur um langt skeið verið hægt og sígandi að missa úr höndum sér eignarhald á auðlind sinni. Kvótakerfið hefur boðið upp á þetta rennsli undan brekkunni. Kvóti útgerðarmanna varð fljótlega að verzlunarvöru, sem síðan gekk í erfðir og verður loks veðsett.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir algeran ósigur þjóðarinnar í máli þessu er að skera á hnútinn og lýsa ekki aðeins formlega yfir eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum, heldur ákveða einnig að taka upp útleigu á kvóta í stað þess að úthluta honum sem varanlegu léni.
Ef ekki verður algerlega snúið við blaðinu, leiðir núverandi kerfi fyrr eða síðar til þeirrar niðurstöðu, að útgerðir eiga fiskimiðin, þar á meðal útgerðir í erlendri eigu að hluta. Jafnframt neyðumst við í fjölþjóðasamstarfi að samþykkja aukinn eignarhlut útlendinga.
Eftir um það bil áratug verða fiskimiðin komin í erlenda eigu án þess að við fáum við neitt ráðið. Þótt stungið sé við fæti á einstökum þrepum þessa undanhalds, stefnir allt ferli málsins í eina og sömu átt, þegar til lengdar lætur. Þetta ferli þarf að rjúfa og búa til nýtt.
Tiltölulega einföld leið úr þessum vanda er að taka upp útleigu á kvóta. Ef ríkið leigir út kvóta til afmarkaðs tíma í einu, verður lénsveldi sægreifanna aldrei varanlegt. Það verður sífellt háð nýrri útleigu og breytist því ekki í arfleiðanlega eða veðsetjanlega fasteign.
Því lengur, sem beðið er með að taka upp útleigu á kvóta, þeim mun meiri líkur eru á, að handhafar kvóta telji sig eiga kröfurétt á ríkið vegna kvóta, sem þeir hafi keypt dýrum dómum vegna væntinga um endurheimta fjárfestingu og arð. Tíminn vinnur gegn þjóðinni.
Með því að láta undir höfuð leggjast að taka af skarið eru alþingismenn smám saman að afsala þjóðareigninni í hendur þeirra innlendu og erlendu aðila, sem í framtíðinni fjármagna rekstur útgerðar við Ísland. Aðgerðaleysið felur því sér eina aðgerð, það er landráð.
Með því að taka af skarið, lýsa yfir þjóðareign á auðlindinni og taka upp útleigu á kvóta, hindra alþingismenn hins vegar frekari möguleika á síðara ferli í fyrri átt. Í stað skipulegs undanhalds í óheillaátt verður til ný staða, sem gefur ekkert færi til undanhalds.
Með þjóðareign og útleigu skiptir ekki lengur máli, hvort kvóti sé seldur, arfleiddur, veðsettur eða afhentur úr landi. Við gætum meira að segja samþykkt fjölþjóðlegar skuldbindingar um aukinn rétt útlendinga til fiskveiða. Þjóðin ætti samt auðlindina og leigði hana út.
Með þjóðinni er sem betur fer vaxandi skilningur á mikilvægi málsins og vaxandi vilji á endurheimt þjóðareignarinnar. Alþingismenn hafa því miður verið seinni til að átta sig á þessu, þótt á því séu ágætar undantekningar. En margir þingmenn vilja beinlínis eignarafsalið.
Brýnt er, að sem flestir þeir, sem andvígir eru afsali fiskimiða, láti þingmenn vita og láti í sér heyra á annan hátt, svo að valdhafarnir átti sig betur á stöðunni.
Jónas Kristjánsson
DV