Aðskildir hornsteinar

Punktar

Thomas L. Friedman hefur í New York Times eftir Carl Bildt, að breyting hafi orðið á hornsteinum vestrænnar sögu. Lengi vel var ártalið 1945 sameiginlegur hornsteinn, endalok heimsstríðsins og upphaf sameiginlegs varnarbandalags. Nú hafi ártalið 2001 tekið við sem hornsteinn bandarískrar sögu og ártalið 1989 sem hornsteinn evrópskrar sögu. Bandaríkjamenn reikni út frá hryðjuverkunum á Manhattan, en Evrópumenn út frá hruni Sovétríkjanna. Fyrir Bandaríkjamönnum sé nútíminn ógnvænlegur tími óvina í hverju horni, en fyrir Evrópumönnum sé nútíminn upphaf nýrrar friðaraldar sameinaðrar Evrópu. Þess vegna tala Bandaríkjamenn um öryggi, en Evrópumenn um frið.