Aðskilnaðarstefna

Greinar

Stríðið í Júgóslavíu sálugu er blóðugt dæmi um, að hrein þjóðríki eru smám saman að leysa blönduð ríki af hólmi. Spánn er friðsælt dæmi um breytingar í svipaða átt. Milli þessara tveggja póla má víða um heim sjá dæmi um, að fólk vill hreinar línur í þessu efni.

Bandaríkin voru lengi dæmi um hið gagnstæða. Þar var að verki óskhyggja um suðupott þjóðanna, þar sem allra þjóða fólk utan úr heimi fengi griðastað til að lifa og starfa saman í friði. Samkvæmt kenningunni á suðupotturinn að móta nýja þjóð úr öllum þjóðabrotunum.

Ef frá er talin kúgun svertingja, gekk þetta nokkuð vel til að byrja með. En nú er svo komið, að þjóðirnar eru hættar að renna saman. Til dæmis búa aðfluttir Suður- og Mið-Ameríkumenn saman í hverfum og halda áfram að tala spænsku, en renna ekki inn í heildina.

Mikið af þjóðfélagsvandamálum Bandaríkjanna tengist þeirri staðreynd, að þar búa margar þjóðir samhliða og án samskipta. Þessar þjóðir skilja illa hver aðra og eiga í útistöðum, sem eru fyrirferðarmiklar í verkefnum lögreglunnar. Þess vegna er þjóðfélagið ekki í jafnvægi.

Bandaríkjamenn hafa tregðazt við að sjá þetta og líta enn á fjölþjóðaríki sem hærra stig á þróunarbrautinni en þjóðríki. Þess vegna studdu ráðamenn þeirra lengi innantóma ímynd sameinaðrar Júgóslavíu eftir að ráðamenn í Vestur-Evrópu vissu, að Júgóslavía væri látin.

Hinar miklu og svívirðilegu þjóðahreinsanir í arfaríkjum Júgóslavíu eru langt komnar með að mynda þar tiltölulega hrein þjóðríki, þar sem lítið er um þjóðernislega minnihlutahópa. Þannig hefur Slóvenía kyrrzt og þannig munu Króatía og Bosnía róast um síðir.

Hinir ofbeldisdrukknu Serbar, sem komu hryllingnum af stað og bera ábyrgð á 80-90% óhæfuverkanna, munu hins vegar búa við blóðugt og ótryggt ástand í þeirri Stór-Serbíu, sem þeir hafa verið að búa til. Þeir hafa næga minnihlutahópa til að ofsækja innan landamæra Serbíu.

Þegar Serbar hafa að mestu afgreitt Bosníumenn, munu þeir í vaxandi mæli snúa sér að Albönum í Kosovo og Ungverjum í Vojvodina. Blóðbað þeirra í Kosovo verður tæpast mildara en það hefur verið í Bosníu, af því að mikill meirihluti íbúa Kosovo er albanskur að þjóðerni.

Endanleg lausn vandans næst helzt í grísk-tyrknesku lausninni, sem felst í, að búin eru til landamæri og skipzt á minnihlutahópum. Þegar það hefur gerzt í Júgóslavíu heitinni, táknar það endalok margra alda gamalla tilrauna til að búa til fjölþjóðaríki á Balkanskaga.

Austurríska keisaradæmið og tyrkneska soldánsdæmið voru börn fyrri alda. Þau hrundu niður í lítil og afmörkuð þjóðríki. Þannig fóru líka 20. aldar tilraunirnar í Júgóslavíu og Sovétríkjunum. Á rústunum risu þjóðríki, sem bítast að balkönskum hætti um verðmæt héruð.

Rúanda og Búrúndí eru annað dæmi. Þar næst ekki jafnvægi, fyrr en búin hafa verið til aðskilin ríki Tútsíog Hútuþjóðanna. Því fyrr sem það gerist, þeim mun fyrr verður bundinn endi á blóðugt og ótryggt ástand. Umheiminum ber að stuðla að slíkum aðskilnaði.

Jafnvel í siðmenningu Vestur-Evrópu hefur gengið illa að varðveita fjölþjóðaríki. Belgía er meira og meira að breytast í flæmskt og vallónskt ríki. Og Spánn er hægt og bítandi að breytast á friðsaman hátt í aðskilin ríki með sífellt auknu sjálfstæði Baska og Katalóníumanna.

Almenna reglan er, að fólk verður að tala sama tungumál og eiga rætur í sama menningarheimi, ef því á að takast að lifa í sæmilegri sátt í skipulögðu ríki.

Jónas Kristjánsson

DV