Harmleikur Árna Johnsen alþingismanns í Þjóðleikhúsinu vekur spurningar um, hvaða aðstæður í þjóðfélaginu valdi röð tilviljana af því tagi, sem þingmaðurinn hefur lýst í fjölmiðlum. Mistökin voru framin fyrir opnum tjöldum, án þess að viðvörunarbjöllur hringdu.
Sjaldgæft er, að íslenzkir stjórnmálamenn séu taldir skara eld að eigin köku á þann hátt, sem óttazt er, að gerzt hafi í bygginganefnd Þjóðleikhússins og hugsanlega víðar í fjölbreyttum stjórnarstörfum þingmannsins. Pólitísk spilling á Íslandi er yfirleitt allt annars eðlis.
Stjórnmálamenn reyna að vísu að koma sér í notalega stóla í stjórnkerfinu, þegar þeir eru orðnir þreyttir í pólitíkinni. Og margir eru mikið fyrir sértæka góðgerðastarfsemi á kostnað skattborgaranna, til dæmis þegar kosningastjórar þeirra fá ábúð á ríkisjörðum.
Hins vegar hefur á síðustu árum verið lítið um, að stjórnmálamenn rugli saman eigin vösum og vösum stofnana á valdasviði þeirra. Menn hafa því haldið, að stjórnsýsla ríkisins sé almennt í þeim skorðum, að harmleikur af tagi Árna Johnsen komist ekki á fjalirnar.
Umhverfis formann byggingarnefndar Þjóðleikhússins standa samt nokkrir menn, sem höfðu aðstöðu til að benda þingmanninum á að fara að stjórnsýslulögum. Þeir létu eigi að síður gott heita og bera því sameiginlega ábyrgð á frekari þróun málsins yfir í harmleik.
Athyglisverður er þáttur framkvæmdastjóra BYKO, sem neitaði að upplýsa um leiðréttingar og bakfærslur í bókhaldi fyrirtækisins, þótt þar væri að finna þau atriði, sem einna mestu ljósi gætu varpað á tilraunir manna til að mynda varnarmúr um mistök þingmannsins.
Auðvitað er alvarlegt, ef bókhald fyrirtækja úti í bæ er leiðrétt og bakfært til að draga úr líkum á frekari framvindu uppljóstrana í meintu spillingarmáli viðskiptaaðila. Því má búast við, að framkvæmdastjórinn þurfi að útskýra sumt, þegar málið fer í opinbera rannsókn.
Þjóðleikhússtjóri virðist hafa sofið á fundum í tveggja manna byggingarnefnd Þjóðleikhússins og látið formanninn um vinnuna. Hann kom af fjöllum, þegar málið sprakk í loft upp og er seint og um síðir að reyna að nudda stírurnar úr augunum og átta sig á dagsbirtunni.
Það boðar ekki gott, ef fínimenn taka sæti í nefndum án þess að vilja vinna í þeim og hafa ekki hugmynd um, hvort þar sé farið að reglum eða ekki. Menn verða sam-ábyrgir í framgöngu nefnda, þótt þeir hafi aðeins farið með þægileg grínhlutverk í harmleiknum.
Einna undarlegastur er þáttur framkvæmdastjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, sem virðist líta á sig sem eins konar bókara með það hlutverk að raða reikningum í möppur og skrifa nafnið sitt á þá, án þess að í því felist neitt samþykki fyrir innihaldi reikninganna.
Efasemdir hljóta að vakna um, hvort ríkið þurfi Framkvæmdasýslu, sem lítur á sig sem bókara fremur en eftirlitsaðila. Annaðhvort má leggja stofnunina niður eða draga hana til ábyrgðar fyrir að hafa látið viðgangast sérstæða starfshætti, sem eru ávísun á vandamál.
Alvarlegastur er þáttur menntaráðherra, sem skipar byggingarnefnd Þjóðleikhússins og leyfði, að formaður hennar væri sinn eigin eftirlitsaðili. Sú ákvörðun stríðir beinlínis gegn stjórnsýslulögum og var raunar upphafleg forsenda þess, að málið rambaði í núverandi stöðu.
Þingmaðurinn hefði aldrei lent í harmleik sínum, ef einn af ofangreindum aðilum hefði unnið vinnuna sína í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir.
Jónas Kristjánsson
DV