Aðstoð við aðsókn

Greinar

Aðsókn að íslenzkum kvikmyndum hefur hríðfallið á allra síðustu árum. Áður fyrr nutu þær meiri aðsóknar en erlendar, en nú er gengi þeirra fallið niður fyrir þær útlendu. Af tölunum að dæma hafa kvikmyndaneytendur í stórum dráttum hafnað innlendri kvikmyndagerð.

Hrunið var einkum átakanlegt í afrakstri kvikmyndagerðar ársins 1995. Þá voru teknar átta stórar kvikmyndir, sem flestar gengu illa eða mjög illa. Þetta var fjárhagslegt og andlegt áfall fyrir greinina og leiðir til þess, að í ár verður líklega aðeins tekin ein kvikmynd.

Þegar aðsókn að vinsælustu, innlendu kvikmyndunum er komin niður fyrir 20.000 manns og aðrar eru aðeins sýndar í nokkra daga eða vikur, er vandinn orðinn hrikalegur. Eðlilegt er, að áhugamenn um innlenda kvikmyndagerð vilji fá meiri aðstoð frá opinberum aðilum.

En ekki er sama, hvernig aðstoðin er veitt. Hingað til hafa nefndir dreift peningunum, sumpart eftir listrænu mati og sumpart eftir persónulegum kynnum, svo sem tíðkazt hefur á íslenzkum skömmtunarstofum. Stundum eru styrkir beinlínis veittir til að greiða niður tap.

Við úthlutun fjár til íslenzkra kvikmynda er sjaldan hugsað um, að íslenzk kvikmyndagerð er í samkeppni við erlenda og hefur farið halloka í þeim samanburði, það er að segja frá sjónarmiði neytenda. Skömmtunin stuðlar ekki að gerð samkeppnishæfra kvikmynda.

Þegar sambandslaust er milli aðsóknar að einstökum íslenzkum kvikmyndum og þeirra fjármuna, sem einstakar kvikmyndir fá frá hinu opinbera, er stuðlað að gerð kvikmynda, sem eru fremur stílaðar til úthlutunarnefnda og skömmtunarstjóra en almennings.

Ágætis aðferð við að útiloka skuggahliðar skömmtunarinnar, svo sem geðþótta, kunningsskap og sérhæft listamat, er að leggja skömmtunina sem slíka niður og láta markaðslögmálin um úthlutunina. Það gerist með því að styrkja mest þær kvikmyndir, sem bezt eru sóttar.

Bezt væri að nota opinbert kvikmyndafé til að greiða óbeint niður miðaverð íslenzkra kvikmynda. Í hvert sinn sem neytandi greiddi atkvæði með íslenzkri kvikmynd með því að kaupa miða, legði hið opinbera fram á móti aðra upphæð til kvikmyndagerðarmannsins.

Þannig fengi kvikmynd með 20.000 áhorfendur helmingi meiri styrk en kvikmynd með 10.000 áhorfendur. Þannig væri kerfið notað til að hvetja til gerðar kvikmynda, sem geta í aðsókn keppt við erlendar kvikmyndir á markaðinum. Stuðlað væri að samkeppnishæfni.

Margir munu segja, að betra sé að styrkja þær kvikmyndir, sem taldar eru listrænar að mati úthlutunarnefnda, heldur en að styrkja þær kvikmyndir, sem falla almenningi bezt í geð. En núverandi kerfi ræktar bara sérvizku og einangrun íslenzkrar kvikmyndagerðar.

Sjálfvirkar greiðslur, sem miða við aðsókn, ganga hins vegar út frá þeirri forsendu, að æskilegt sé að framleiða hér á landi kvikmyndir, sem almenningur vill sjá. Stuðningnum væri þá eingöngu ætlað að vega upp á móti fámenni þjóðfélagsins og smæð markaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að sjálfvirkar greiðslur í hlutfalli við aðsókn mundu um leið hvetja til töku kvikmynda, sem gætu fallið erlendum almenningi í geð eins og íslenzkum. Aðsóknargreiðslur mundu þannig auka líkur á erlendum tekjum af íslenzkum kvikmyndum.

Að öllu samanlögðu er hér lagt til, að opinber stuðningur við íslenzka kvikmyndagerð verði ekki bara aukinn, heldur einnig greiddur í hlutfalli við aðsókn.

Jónas Kristjánsson

DV