Áður framselt fullveldi

Greinar

Hæstiréttur er hafður fyrir rangri sök, þegar hann er sakaður um að hafa tekið sér löggjafvarvald í hendur með þeim úrskurði, að lög um skerðingu örorkubóta vegna tekna maka standist ekki stjórnarskrána. Hann er að bregðast við fyrri dreifingu löggjafarvaldsins.

Núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hafa samið við önnur ríki og við ýmis samtök ríkja um skuldbindingar, sem fela í sér framsal á hluta fullveldis Íslendinga. Þessir fjölþjóðlegu samningar og sáttmálar hafa síðan verið staðfestir af Alþingi og öðlazt lagagildi.

Hópur þýðenda er önnum kafinn við að þýða reglugerðir Evrópusambandsins á íslenzku. Eftirlitsnefnd Evrópska efnahagssvæðisins veitti samt íslenzkum stjórnvöldum nýlega ákúrur fyrir að vera að dragast aftur úr við að innleiða evrópskar reglur hér á landi.

Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur ríkisstjórn og Alþingi. Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstóli Evrópu, heldur ríkisstjórn og Alþingi.

Dómstólar hinnar nýju Evrópu hafa reynzt athafnasamir. Þeir hafa knúið dómstóla einstakra ríkja til að breyta grundvallarviðhorfum. Þannig er til dæmis ekki lengur öruggt, að einstaklingar tapi málum, sem þeir höfða gegn stjórnvöldum í sínu landi.

Þegar nógu margir Íslendingar hafa áfrýjað úrskurðum Hæstaréttar til evrópskra dómstóla og unnið málin, fara auðvitað smám saman að renna tvær grímur á Hæstarétt. Dómurum hans finnst auðvitað niðurlægjandi að úrskurðir þeirra skuli ekki halda í útlöndum.

Fyrr á áratugum eins og á fyrri öldum starfaði Hæstiréttur eins og framlengdur armur ríkisvaldsins og úrskurðaði jafnan ríkinu í vil gegn einstaklingum. Þetta er núna að breytast, þegar Hæstiréttur er kominn undir smásjána hjá yfirdómstólum úti í Evrópu.

Dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins er markaður þessari öru þróun á fjölþjóðavettvangi. Dómarar Hæstaréttar vita, að málinu hefði verið áfrýjað til Evrópu, ef þeir hefðu úrskurðað ríkinu í vil. Þeir kærðu sig ekki um að verða sér enn til minnkunar.

Hæstiréttur reynir að búa til kenningu um, að andi stjórnarskrárinnar feli í sér hugtök, sem ekki voru til, þegar hún var smíðuð í gamla daga, eða feli í sér útvíkkun eldri hugtaka. Þess vegna segir hann, að lögin um skerðingu örorkubóta standist ekki stjórnarskrána.

Í rauninni hefði Hæstiréttur bara átt að segja: Við þurfum að taka tillit til, að íslenzk stjórnvöld hafa sett Hæstarétt undir eftirlit evrópskra og annarra fjölþjóðlegra dómstóla, sem fylgja þróun þjóðfélagsins hraðar en löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið á Íslandi gera.

Ríkisstjórnin heldur hins vegar, að hún geti bæði átt kökuna og étið hana. Hún heldur, að hún geti afsalað íslenzku valdi til fjölþjóðlegra dómstóla og eigi að síður geti hún hagað sér eins og lénsherrar fyrri alda. Þess vegna er ríkisstjórnin í fýlu eftir dóm Hæstaréttar.

Núverandi landsfeður hafa á löngu valdaskeiði fengið snert af valdshyggju og eiga erfitt með að taka afleiðingum undirskrifta sinna og fyrirrennara sinna á fjölþjóðavettvangi. Þetta er algengt fyrirbæri í mannlífinu og breytist fyrst með nýjum og hógværari landsfeðrum.

Það merkilega í máli þessu er, að ástæða skuli vera til að fagna því, að núverandi og fyrrverandi landsfeður skuli hafa framselt hluta af fullveldinu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV