Æði máttar og megins.

Greinar

Tveimur vikum eftir fjöldamorðið á 269 manns í kóreanskri farþegaþotu hafa sovézk stjórnvöld ekki enn beðizt afsökunar. Það gerðu þó búlgörsk stjórnvöld árið 1955, þegar þar var skotin niður ísraelsk farþegaþota með 58 manns.

Eftirleikur fólskuverskins mikla er næstum því eins athyglisverður og verkið sjálft. Sovézk stjórnvöld hafa flutt hinar fjölbreyttustu útleggingar. Þau hafa jafnan haft nýjar á hraðbergi, þegar hinar eldri hafa verið hraktar.

Í fyrstu þóttust þau ekkert vita um málið. Næst sögðu þau, að villuráfandi þota hefði fengið aðvörun og horfið á brott út yfir Japanshaf. Í þriðja lagi sögðu þau, að skotið hefði verið aðvörunarskotum og þotan farið í burtu.

Fjórða útgáfan var, að Boeing 747 farþegaþotan hefði verið tekin í misgripum fyrir RC-135 njósnaþotu frá Bandaríkjunum. Samt er hin síðarnefnda helmingi minni og hefur ekki kryppu á bakinu eins og farþegaþotan.

Síðasta útgáfan kom svo viku eftir fólskuverkið. Þá sögðu sovézk stjórnvöld, að “stöðvað” hefði verið flug kóreönsku farþegaþotunnar. Ennfremur sögðu þau, að þotan hefði verið í njósnaflugi fyrir Bandaríkin.

Þannig séð hafi sovézk hermálayfirvöld aðeins verið að gera skyldu sína við að verja sovézk landamæri gegn sífelldum ágangi bandarískra heimsvaldasinna, sem bæru einnig ábyrgð á aftöku 269 manns. Svo einfalt var það.

Í öllu þessu flókna safni undanbragða héldu sovézk stjórnvöld því meira að segja fram, að kóreanska þotan hefði verið ljóslaus á flugi. Hljóðupptökur sýndu þó, að sovézku flugmennirnir gátu lýst ljósum þotunnar.

Augljóst er af hljóðupptökum samskipta sovézku herþotumannanna og yfirmanna þeirra á jörðu niðri, að fólskuverkið var ekki stundaræði, heldur beinlínis skipulagt af sjálfu kerfinu, sovézku vígvélinni.

Mál þetta er jafnóþægilegt, hvort sem Andropov og æðstu valdamenn Sovétríkjanna hafa fengið að vita um það fyrirfram eða ekki. Ef ekki, þá er sýnt, að vígvélin getur leikið lausum hala, varin af síðari undanbrögðum stjórnvalda.

Komið hefur í ljós, að fjöldamorðið hefur lítil áhrif á almenningsálitið í Sovétríkjunum. Jafnvel þeir, sem heyra sannleikann í málinu, eru svo meðteknir af innilokunaræði kerfisins, að þeir láta sér fátt um finnast.

Fjöldamorðið er óhjákvæmileg afleiðing kerfis, sem hefur áratugum saman magnað með sér innilokunaræði, er einnig kemur fram í skipulegu ofbeldi þess út á við. Meira að segja fólkið í landinu hefur snert af þessu æði.

Einnig hefur komið betur en áður í ljós, að sovézk stjórnvöld láta sér alls ekki bregða við almenningsálit á Vesturlöndum. Þau yppta öxlum, þegar allt fer á annan endann í fordæmingu á viðurstyggð þeirra.

Ef sovézk stjórnvöld telja sig geta notað vestrænt almenningsálit til að bæta hlutfallsstöðu sinnar vígvélar, eru þau ánægð og notfæra sér það. Ef þetta álit er þeim hins vegar andsnúið að öðru leyti, er þeim fjandans sama.

Þeir, sem láta myrða 269 manns í farþegaþotu til að sýna mátt sinn og megin, glotta við tönn, þegar vestrænir friðarsinnar hamla gegn viðbúnaði vestrænna stjórnvalda. Þeir sjá þá fram á að geta enn betur sýnt mátt sinn og megin.

Jónas Kristjánsson.

DV