Æðibuna í skipulagi.

Greinar

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur með borgarstjórann í broddi fylkingar er að gera stórfelld skipulagsmistök á Skúlagötusvæðinu. Mistökin byggjast á æðibunugangi kosningasigurvegara, sem engin ráð vilja þiggja.

Hinn mikli sigur í síðustu borgarstjórnarkosningum hefur stigið meirihlutanum til höfuðs. Slíkur sigur gefur meirihlutanum auðvitað umboð til að bylta ákvörðunum fyrirrennaranna, en ekki til að kasta allri skynsemi fyrir róða.

Um síðir kemur að því, að meirihlutinn verður að standa kjósendum reikningsskap gerða sinna. Þá gæti verið betra að hafa farið með gát að byltingum í skipulagi og hafa gefið sér tíma til að huga að fróðra manna ráðum.

Yfirleitt er grundvallarhugsunin rétt í stefnubreytingu núverandi meirihluta í skipulagsmálum, en útfærslan ekki nógu góð. Þetta má bæði segja um skipulagið í Grafarvogi og nýsamþykkta skipulagið við Skúlagötu.

Í Grafarvogi átti að ná þeim merka áfanga, að framboð lóða yrði meira en eftirspurn. Í æðibunuganginum var eftirspurnin rangt metin. Nú er komið í ljós, að í nánustu framtíð verður ekki reist neina annað hvert hús á svæðinu.

Þetta þýðir, að borgin verður að greiða stórfé í kostnað við undirbúning alls hverfisins án þess að fá meira en helminginn til baka í gjöldum húsbyggjenda. Þetta hefði mátt forðast, ef varlegar hefði verið farið í sakirnar.

Við Skúlagötu á nú að ná þeim merka áfanga að hefja raunhæfa þéttingu byggðar í Reykjavík. Rokið er með látum í að skipuleggja einn byggingarreit án tillits til heildarsvæðisins og gegn ráðum margra fróðra manna.

Afleiðingin getur orðið sú, að um síðir verði að beita loftpressum gegn steinsteyptum mistökum í stað hinna eðlilegu vinnubragða, sem felast í að beita strokleðri á teikniborði með tiltölulega litlum kostnaði.

Út af fyrir sig getur vel verið hægt að fara með nýtingarhlutfall úr 0,5 og 1,0 upp undir 2,0. En svo róttæka ákvörðun má aðeins gera að yfirveguðu ráði og alls ekki með flumbrugangi á hlaupum milli hæða.

Ennfremur getur vel verið hugsanlegt að hafa átta hæða steinsteypuvegg við Skúlagötu. En svo róttæka ákvörðun má aðeins gera með fullri hliðsjón af allri norðurhlíð Skólavörðuholtsins, en ekki Völundarlóðinni einni.

Í samráði við landeigendur á öllu svæðinu þarf að finna formúlur fyrir hlutfallsverðmæti lóða á svæðinu. Niðurstöðuna þarf að finna, áður en samið er við einn um nýtingarhlutfallið 2,0 og reynt að neyða annan í 0,5.

Fyrst þegar borgin er búin að ná samkomulagi eða hlutlausum úrskurði um hlutfallsverðmæti lóða í allri norðurhlíð Skólavörðuholtsins, er unnt að byrja skipulagningu og þá út frá svæðinu í heild en ekki út frá einum reit.

Borgin þarf að hafa frelsi til að skipuleggja á þann hátt, að nýtingarhlutfall geti verið 2,0 á einum stað og 0,0 á öðrum. Til þess þarf borgarstjórnin að vinna þætti málsins í réttri röð, en ekki ana út í kelduna.

Fjölmennur fundur arkitekta hefur varað sterklega við “óðagoti” í skipulagsmálum Skúlagötunnar. Við þau ráð má bæta, að meirihlutinn megi gjarna fara að afsanna, að hann sé skipaður æðibunustrákum, sem séu enn útbelgdir frá síðustu kosningum.

Jónas Kristjánsson.

DV