Æðruleysis er þörf

Greinar

Árásin á World Trade Center í fyrradag var árás á vestræna samfélagsgerð. Hún markar tímamót í samtímasögunni, af því að hún flutti óttann og öryggisleysið aftur til Vesturlanda eftir hálfrar aldar friðar- og blómaskeið. Ógnir stríðsins eru aftur komnar til iðnríkjanna.

Frelsið sjálft beið hnekki í árásinni. Vestræn stjórnvöld kunna núna að freistast til að hefta einmitt það, sem greinir Vesturlönd frá gróðrarstíum hryðjuverkahópa. Eftirlit með samskiptum og hreyfingum fólks verður aukið. Um leið aukast óþægindi venjulegra borgara.

Þetta er sérstakt áfall fyrir Bandaríkjamenn, sem hafa alltaf lagt manna mesta áherzlu á frelsi fólks fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Nú verða menn að sæta auknu eftirliti opinberra aðila, því að óvinurinn leynist í fjöldanum. Stóri bróðir mun hafa auknar gætur á þér.

Staðfest hefur verið, að ógnin mun ekki koma í eldflaug frá Afganistan. Ráðagerðir um stjörnustríð og regnhlíf yfir Bandaríkjunum hafa allt í einu reynzt vera heimskra manna ráð. Ógnin reyndist koma að innan, í flugvélum, sem tóku sig á loft frá bandarískum flugvöllum

Næst birtist ógnin í skjalatösku, sem vel klæddur maður setur við burðarsúlu í skýjakljúfi. Ef bandaríska þjóðfélagið hyggst bregðast við slíkri ógnun með öllum tiltækum ráðum, verður lífsstíll bandarískra borgara allur annar og lakari en hann hefur verið undanfarna áratugi.

Vesturlönd verða að reyna að verja líf og limi borgaranna. En þau verða líka að reyna að verja vestræna samfélagsmynztrið, sem gerir lífið eftirsóknarvert. Þess vegna verða innri varnir gegn hryðjuverkum framtíðarinnar ekki hámarkaðar, heldur fara bil beggja í umfangi.

Heimsmyndin hefur skyndilega breytzt. Yfirburðir Vesturlanda og einkum Bandaríkjanna hafa minnkað. Völdin í heiminum felast ekki lengur í að geta sent skæðadrífu eldflauga yfir heimshöfin til að refsa róttækum andstæðingum vestrænnar hugmyndafræði.

Svo mikil voru völd Vesturlanda orðin fyrir skömmu, að þau háðu stríð í Kosovo án þess að koma nærri vígvellinum og án þess að fórna eigin mannslífum. Nú hefur dæmið snúizt þannig, að nútímastríðið er komið heim til Vesturlanda sjálfra, einkum til Bandaríkjanna.

Enginn er óhultur í stríði nútímans. Menn geta ekki einskorðað sig við að láta sérfræðinga við tölvur heyja stríð í fjarlægð. Stríðið er komið heim í garð til þeirra, sem áður töldu sig óhulta í skjóli efnahagslegra og hernaðarlegra yfirburða vestræns samfélags.

Í fyrstu mun breytingin valda víðtækri vanstillingu fólks, sem fær útrás í kröfum um blóðugar refsiaðgerðir gegn blórabögglum, sem verða fundnir upp, ef raunverulegir sökudólgar finnast ekki í tæka tíð. Síðan munu viðhorf almennings hneigjast fremur til æðruleysis.

Fólk mun skilja betur en áður, að lífið er hættulegt og tilviljanakennt. Fólk getur farizt, ef einhver annar sofnar undir stýri á bíl, sem kemur úr gagnstæðri átt. Á sama hátt getur fólk farizt, ef það er statt í flugvél eða skýjakljúfi, sem lenda í atburðarás hryðjuverka.

Í öllum tilvikum eru tölfræðilega hverfandi líkur á, að menn verði fórnardýr hinnar nýju tegundar nútímastríðs. Forlögin hljóta að ráða, hvort þú vinnur í happdrætti eða verður fyrir bíl. Á sama hátt hljóta þau að að ráða, hver verður fórnardýr hryðjuverka og hverjir sleppa.

Ærðuleysi er dyggð, sem vestrænt samfélag verður að tileinka sér í auknum mæli til að svara breyttri heimsmynd með óskertu samfélagsmynztri Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV