Æsigrein yfirlæknis

Greinar

Í fróðlegri æsigrein hér í blaðinu á miðvikudaginn bendir yfirlæknir á Borgarspítalanum á ýmis atriði, sem geta verið gagnleg vitneskja fyrir pupulinn, ef hann þarf einhvern tíma að leita til slysadeildar spítalans, sjálfs sín vegna eða til að leita týnds aðstandanda.

Í fyrsta lagi er gott, að pupullinn átti sig á, að slysadeildin er stór stofnun, sem ekki er hægt að að ná sambandi við í heilu lagi. Ef pupullinn hringir til dæmis í svonefnda göngudeild, svarar hún aðeins fyrir göngudeild, en ekki fyrir aðrar undirdeildir slysadeildar.

Ef pupullinn spyr að fyrra bragði, hvort til séu á slysadeild aðrar undirdeildir með öðru bókhaldi yfir viðskiptavini, er hugsanlegt, að göngudeild geti útvegað puplinum símanúmer viðkomandi deilda. Ekki kemur þó fram í æsigrein yfirlæknisins, hvort svo sé.

Þetta er í samræmi við venju í æruverðugu fyrirbæri, sem kallað er kerfið. Sem dæmi um það má nefna, að forsætisráðherra hefur látið semja frumvarp til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda, svo að pupullinn í blaðamannastétt sé ekki yfirvöldum til ónæðis.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að blaðamaður geti fengið upplýsingar hjá stjórnvaldi, ef hann getur sagt, um hvaða skjal stjórnvaldsins hann sé að ræða og hvað skjalið heiti í bókhaldi viðkomandi stjórnvalds, það er að segja viti, hvert sé svarið við spurningu sinni.

Ekki er hægt að ætlast til, að slysadeild hafi frekar en aðrar stofnanir kerfisins á reiðum höndum upplýsingar á einum stað um, hvaða pupull hafi notið þjónustu stofnunarinnar. Þetta er útskýrt af stakri þolinmæði í æsigrein yfirlæknisins, sem þekkir málið vel.

Í æsigreininni kemur fram, að svokallað göngudeildarfólk er skráð á aðeins einum stað. Sjúkradeildir og upplýsingastofa í aðalanddyri hafa ekki þessar upplýsingar handbærar. Ef hins vegar væri hringt í aðra stofnun, Landsspítalann, væri kannski hægt að fá þær.

Það gæti skapað mikið ónæði í upplýsingastofu í aðal-anddyri, ef hún þyrfti að veita upplýsingar út og suður um atriði, sem varða aðra staði á Borgarspítalanum. Þá þyrfti líka að fræða starfsfólk um slík mál, þótt það hafi raunar nóg annað að gera en að tala við ruglukolla.

Eftir lestur æsigreinarinnar ætti puplinum að vera deginum ljósara, hvernig beri að haga sér næst, þegar aðstandandi týnist og menn óttast, að hann hafi orðið fyrir slysi. En það er svo aftur á móti atriði, sem viðskiptavinir slysadeildar ættu að forðast í lengstu lög.

Ef pupull lætur aka yfir sig, svo að hann brotnar á ýmsa vegu og fær höfuðhögg, svo að hann ruglast í ríminu eða missir minni tímabundið, er ekki heppilegt, að hann ónáði slysadeild, því að það er algerlega honum að kenna, ef hann vill ekki láta sína nánustu fá fréttir.

Sérstaklega er mikilvægt, að pupullinn sé ekki undir áhrifum áfengis, þegar hann kemur sér í slys eða önnur vandræði af því tagi. Ekki er hægt að ætlast til, að slysadeild Borgarspítalans láti slíkan pupul hafa sömu meðferð og venjulegan pupul, sem er ódrukkinn með öllu.

Það ætti öllum að vera ljóst, að drukkinn pupull hefur ekki sömu réttindi og ódrukkinn pupull. Til dæmis þarf drukkinn pupull að gera ráð fyrir, að yfirlæknir skrifi æsigrein, þar sem fram komi undir rós, að viðkomandi sé tæpast hæfur til að hafa borgaraleg réttindi.

Æsigrein yfirlæknisins var mjög tímabær ábending til pupulsins, sem virðist eiga í ótrúlegum erfiðleikum með að átta sig á jafn einföldum hlut og kerfinu sjálfu.

Jónas Kristjánsson

DV