SKELFIR STÓRFYRIRTÆKJA, dálkahöfundurinn Naomi Klein, skrifar stutta grein í Guardian og langa grein í Nation um nýtt embætti á vegum forseta Bandaríkjanna, þar sem Carlos Pascual, fyrrum sendiherra í Úkraínu, hefur verið falið að skipuleggja endurreisn og einkavæðingu 25 ríkja, sem George W. Bush hyggst ráðast á, þegar honum vinnst tími til. Miðað er við, að unnt verði að einkavæða þrjú ríki samtímis, þótt hver endurreisn taki fimm til sjö ár.
Klein telur vel við hæfi, að heimsveldið, sem fann upp stríð til að koma í veg fyrir stríð, finni núna upp frið til að koma í veg fyrir frið. Nú er ekki lengur beðið eftir ástæðum til að fara stríð, heldur farið í stríð til að hindra slíkar ástæður. Nú verður ekki lengur beðið eftir, að bandarísk stríð rústi ríki, heldur farið að skipuleggja markaðsvæna endurreisn úr rústum áður en þær verða til.
PASCUAL ER SÉRSTAKLEGA FALIÐ að skipuleggja endurreisn ríkja að hætti dólgaauðvalds. Innviðir ríkjanna, svo sem olía, vegir, rafmagn, vatn og sími, verða afhentir einkaaðilum. Aðalmálið er, að úr rústunum, sem Bandaríkin hyggjast framleiða, verði reist markaðshagkerfi, þar sem erlent einkaframtak ráði öllu. Að loknu stríði verði allur ríkisrekstur og félagsrekstur rifinn niður og hann afhentur bandarískum fjölþjóðafyrirtækjum.
Í þessum nýja heimi, þar sem það gamla er rifið niður til að byggja nýtt, eru leikendur bandarískir og fjölþjóðlegir, fyrirtæki, ráðgjafarstofur, verkfræðistofur, fjármálastofnanir. Innfæddum verður haldið úti, meðan þessir fjölþjóðlegu aðilar taka innviði þjóðfélagsins og blóðmjólka þá á svipaðan hátt og olígarkarnir blóðmjólkuðu Rússland fyrir nokkrum árum.
REYNSLAN AF ÞESSARI AÐFERÐAFRÆÐI er komin fram í Írak og í Afganistan og í Aceh í Indónesíu, þar sem sjórinn gekk á land. Með miklum tilkostnaði hafa Bandaríkin búið þar til endurreisnarkerfi, sem í engu skilar sér til fórnardýra flóðsins. Peningarnir fara í að hreinsa ströndina og reisa þar hótelkeðjur, meðan blásið er á tilraunir fátæklinga til að halda fram rétti sínum til lóðanna, þar sem þeir bjuggu. Heimamenn telja, að flóðin í Aceh hafi verið misnotuð til að hrekja fiskimenn af strandsvæðunum og afhenda þau fjölþjóðlegum fyrirtækjum til ráðstöfunar.
Paul Wolfowitz málefnafulltrúa var falið að sjá um einkavæðingu olíunnar í Írak. Í eðlilegu framhaldi af því hefur hann nú verið gerður að forstjóra Alþjóðabankans, þar sem þróunarpeningar verða notaðir til að hrekja innfædda á brott til að skapa svigrúm fyrir fjölþjóðafyrirtæki á sviði verktöku og fjármála. Mikið af ráðstöfunarfé bankans fer nú þegar til að borga ráðgjafarfyrirtækjum.
MIKILVÆGT ER AÐ GERA RÍKIN FYRST STRÍÐSHRJÁÐ, svo að þau verði úrvinda og neyðist til að samþykkja dólgakapítalisma Bandaríkjastjórnar og Alþjóðabankans. Naomi Klein, sem nýlega gaf út bókina “No Logo” gegn fjölþjóðafyrirtækjum, hefur eftir Condoleezza Rice utanríkisráðherra, að flóðin miklu hafi verið “a wonderful opportunity”, sem “has paid great dividends for us”.