Aðstandendur samfylkingar jafnaðarmanna fljóta sofandi að feigðarósi. Þeir eru lítilþægir í kröfum til sjálfs sín um árangur tilraunarinnar. Þeir horfa sljóum augum á lítið fylgi í hverri skoðanakönnun á fætur annarri og algert fylgisleysi meðal ungra kjósenda.
Það er engan veginn frambærilegur árangur sögulegrar sameiningar Alþýðuflokks og Alþýðubandalags að geta skrapað saman 20% fylgi kjósenda og aðeins 8% fylgi meðal yngstu kjósendanna, þeirra sem eru 1824 ára. Þetta gefur fáa þingmenn og daufa framtíð.
Stefnuskráin er hluti vandans. Hún er misheppnuð tilraun til að fara bil beggja í ýmsum sjónarmiðum, sem ekki gefa færi á neinni millileið. Hún byggist á ofmati á gildi svonefndrar normaldreifingar, þar sem flestir eru taldir vera nálægt miðju, en fáir á jöðrunum.
Pólitíski veruleikinn er hins vegar fjölvíður og felst í þyrpingum fólks á ýmsum stöðum, en eyðum á milli. Þannig voru að minnsta kosti tvær þyrpingar augljósar í Alþýðubandalaginu, bæjarradikalar á höfuðborgarsvæðinu og vaðmálssósíalistar á landsbyggðinni.
Bæjarradikalarnir eru tiltölulega sáttir við sameininguna, enda höfundar hennar. Vaðmálssósíalistarnir eru hins vegar að hverfa á braut, enda hafa þeir óbeit á Alþýðuflokknum og standa nálægt Framsóknarflokknum og hefðbundnum atvinnuvegum til sjávar og sveita.
Svipaða sögu er að segja í Alþýðuflokknum. Þar eru annars vegar tiltölulega sáttir bæjarradikalar, sem eru höfundar sameiningarinnar, og frjálshyggjufólk, sem er að hverfa á braut, enda hefur það óbeit á Alþýðubandalaginu og styður eindregið vestrið og nútímann.
Þetta er einfölduð mynd af flóknara mynztri, en nægir til að skýra, hvernig fylgið hrynur af fylkingu, sem hefur samið sér stefnuskrá á línum bæjarradikala, þar sem vaðmálssósíalistar og frjálshyggjumenn sjá fátt við sitt hæfi. Stefnan er ekki, þar sem fólkið er.
Annar hluti vandans er forustuliðið, forna dæmið um gamalt vín á nýjum belg. Þetta eru ekki leiðtogar frá náttúrunnar hendi. Það getur ekki hrifið með sér fólk inn á nýjar brautir. Það getur ekki rofið gamlar hömlur hefðbundinna þyrpinga pólitískra skoðana.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur í tvígang getað þetta fyrir félagshyggjufólk í Reykjavík. Davíð Oddsson hefur á sama hátt getað haldið saman sundurleitum Sjálfstæðisflokki og þanið hann út. Samfylkingu jafnaðarmanna skortir slíkt fólk með kröftugt aðdráttarafl.
Þótt sæmileg sátt sé um, að Margrét Frímannsdóttir sé hæfust forustufólksins til að verða formaður samfylkingarinnar, þá hefur henni ekki tekizt að verða segull, sem sogar til sín misjafnar þyrpingar jafnaðarmanna. Hún er bara skásti kosturinn af gömlu lummunum.
Hún er eins konar Oscar Lafonteine í flokki, sem vantar Gerhard Schröder. Hún er eins konar Neil Kinnock í flokki, sem vantar Tony Blair. Til þess að verða söluhæf vara á kjósendamarkaði þarf samfylking jafnaðarmanna töluvert kröftugra aðdráttarafl.
Nútíminn er þannig, að stilla þarf saman söluhæfum leiðtoga og almennt orðaðri stefnuskrá, sem fjallar um jöfnuð og félagshyggju og lætur sér ekki verða fótaskortur á nákvæmum útfærslum, sem gera ekkert annað en að stuða einhverja þyrpingu kjósenda.
Meðan samfylkingin horfist ekki í augu við kröfur kjósenda, verður hún einn af smáflokkunum með 15 þingmenn á Alþingi og ævilanga útlegð frá völdum.
Jónas Kristjánsson
DV