Ævintýragreinin.

Greinar

Hinir bjartsýnu og hinir svartsýnu hafa hvorir tveggja rétt fyrir sér í ágreiningnum um framtíð fiskeldis á Íslandi. Sumir munu kollsigla sig og aðrir leggja varanlegan grundvöll að einni allra mikilvægustu atvinnugrein landsins á þessum og næsta áratug.

Nánast má líta á það sem náttúrulögmál, að hluti fyrirtækja í nýrri atvinnugrein fari á höfuðið. Í Bandaríkjunum hlýtur þriðjungur nýrra fyrirtækja þau örlög. Þetta er eins konar Darwinskenning, heimfærð til viðskiptalífsins. Þeir, sem standa sig, munu lifa af.

Þrátt fyrir afföllin eru nýju fyrirtækin mikilvægasti vaxtarbroddur atvinnulífsins. Í Bandaríkjunum útvega fyrirtæki, sem ekki voru til fyrir fimm árum, tvo þriðju af öllum nýjum atvinnutækifærum í landinu. Án ævintýrafyrirtækja í nýjum greinum væri stöðnun og kreppa.

Fiskeldið er ævintýragrein nútímans á Íslandi. Eftir tveggja áratuga erfiði og óvild hins opinbera er hún komin á fljúgandi ferð. Straumhvörfin urðu á síðasta ári. Þá varð ljóst, að mikill fjöldi fólks var ákveðinn í að stinga sér í vatnið og kanna, hvort flyti.

Um síðustu áramót höfðu 70 aðilar aflað sér leyfis til fiskeldis og 38 þeirra byrjaðir rekstur. Flestir voru í seiðaeldi, margir í hafbeit og nokkrir í floteldi eða eldi uppi á ströndinni. Útflutningur á laxi fór á því ári í fyrsta skipti yfir 100 tonn.

Fram til þessa hefur verið nærri útilokað að fá lánsfé til fiskeldis. Í sumar komu svo hinir opinberu aðilar, sem liggja eins og skömmtunarstjórar eða ormar á gulli landsmanna, til skjalanna og hófu skipulega útvegun lána, er nema 50% af uppbyggingarkostnaði fiskeldis.

Reikna má með, að samtals verði festar 400 milljónir króna í fiskeldi á þessu ári og 600 á hinu næsta. Þetta er afar áhættusöm fjárfesting, en samt hin vænlegasta, sem völ er á, ef dæmið gengur upp. Jafnvel Curt Nicolin, kraftaverkamaður í rekstri, hefur trú á íslenzku fiskeldi.

Eyjólfur Konráð Jónsson, stjórnarformaður Ísnó, einnar af reyndustu laxveiðistöðvunum, gekk svo langt í viðtali við DV að segja, að Íslendingar væru aumingjar, ef þeir næðu ekki 40.000 tonna árlegri framleiðslu á næsta áratug. Magnið er nú 140 tonn á ári.

Eyjólfur spáir, að Atlantshafslaxinn muni sem betri matfiskur ryðjast inn á markaðssvæði Kyrrahafslaxins. Þar er mikið í húfi, því að af hinum fyrri eru veidd 40.000 tonn á ári, en 600.000 tonn af hinum síðari. Því ættu vaxtarmöguleikar að vera miklir víðar en í Noregi.

Að sjálfsögðu verður tímafrekt að ná tökum á fiskeldi. Mikilvægt er, að sem flestir fari gætilega af stað og taki eitt skref í einu. Framleiðslukostnaður er enn tiltölulega hár í samanburði við fiskeldi í Noregi. Og svo er eldisfiskur afar viðkvæmur í meðförum.

Heppilegt virðist að sækja fram á nokkrum sviðum samtímis, nota til dæmis strandeldi til að jafna út framleiðslukúfa hafbeitar og floteldis. Einnig þarf að koma niður verði á fóðri og orku. Hvort tveggja ætti að vera hægt nálægt fiskvinnslu og jarðhita.

Þeir, sem leggja í ævintýrið, verða að ná tökum á því á næstu fimm árum, því að líklegt er, að verðið fari að lækka að þeim tíma liðnum. Þeir, sem þá verða búnir að koma sér fyrir, ættu að geta staðizt lækkunina, en aðrir varla. Ævintýrið er hættulegt, en er samt ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV