Ævintýralegt útlánatap

Greinar

Ríkisbankarnir og opinberir sjóðir töpuðu rúmlega tveimur tugum milljarða króna af útlánum sínum á aðeins fimm ára tímabili, frá 1990 til 1994. Þannig höfðu útlánastofnanir hins opinbera forustu um að koma þjóðinni í kreppuna, sem varð við lok þessa tímabils.

Tveir tugir milljarða eru ævintýralega miklir peningar, svo miklir, að erfitt er að gera sér grein fyrir því. Þessum peningum veittu bankarnir í óarðbærar og misheppnaðar fjárfestingar, sem komu þjóðinni í kreppu, í stað þess að leiða hana fram á veg til velsældar.

Umfangsmestu glæframenn þessa máls eru stjórnendur Landsbankans, sem einir út af fyrir sig glötuðu þriðjungi alls þessa fjár. Næstir þeim komu stjórnendur Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar. Enginn þeirra hefur sagt af sér og enginn verið látinn segja af sér.

Þjóðhagslegt einkenni þessa tímabils er, að Íslendingar drógust aftur úr öðrum vestrænum ríkjum. Lífskjör manna stóðu fyrst í stað og rýrnuðu síðan. Brestir mynduðust í velferðarkerfinu. Landflótti hófst á nýjan leik, af því að margir glötuðu trúnni á land og stjórn.

Meirihluti þjóðarinnar er gersamlega meðvitundarlaus á þessu mikilvæga pólitíska sviði. Menn láta sér vel líka að kjósa og endurkjósa valdhafa, sem mega ekki koma nærri peningum og halda verndarhendi yfir gersamlega óhæfum stjórnendum opinberra lánastofnana.

Allir eru í rauninni ábyrgir fyrir sukkinu. Í fyrstu víglínu eru það bankastjórarnir og bankaráðsmennirnir. Í annarri víglínu eru það Seðlabankinn og bankaeftirlitið. Í þriðju víglínu eru það stjórnmálaflokkarnir og ráðherrarnir. Og í þeirri fjórðu eru það kjósendur sjálfir.

Andvirði þrjú þúsund íbúða hefur horfið út í veður og vind á þessu fimm ára tímabili, af því að bankastjórarnir biluðu og af því að enginn vildi koma vitinu fyrir þá eða reka þá. Eftirlitskerfið bilaði í bankaráðum, bankaeftirliti, í Seðlabankanum og hjá eigandanum, ríkinu sjálfu.

Seðlabankinn er kapítuli út af fyrir sig. Þar var mesti sukkari íslenzkra stjórnmála tuttugustu aldar gerður að bankastjóra, sem er raunar verra en þegar mesti strigakjaftur íslenzkra stjórnmála var gerður að bankastjóra í stærsta sukkbankanum, sem tapaði sjö milljörðum.

Stjórnmál og opinberar lánastofnanir eru nátengd fyrirbæri á Íslandi. Stjórnmálamenn hafa fengið umboð og endurnýjuð umboð kjósenda til að nota opinberar lánastofnanir sem hvíldarhæli fyrir misheppnaða stjórnmálamenn, sem talið er, að eigi slík verðlaun skilið.

Atvinnureksturinn og almenningur sýpur seyðið af þessu ráðslagi. Vextir eru miklu hærri en í öðrum ríkjum, af því að bankarnir og sjóðirnir eru að bæta sér upp tjónið af sukki sínu. Þetta dregur úr nýjungum í atvinnulífinu og fækkar atvinnutækifærum almennings.

Útlánatapið leiddi fyrst til rangrar fjárfestingar, sem magnaði ekki atvinnulífið, fjölgaði ekki atvinnutækifærum og bætti ekki lífskjörin. Síðan leiðir það núna til eins konar vaxtaskatts á lánsfé, sem heldur aftur af nýjungum og tækifærum í atvinnulífinu og framlengir kreppuna.

Yfir tuttugu milljarða króna útlánatap lánastofnana hins opinbera á fimm ára tímabili hljómar sérkennilega í eyrum fólks, sem hefur með takmörkuðum árangri verið að reyna að sannfæra stjórnendur banka og sjóða um, að óhætt væri að lána sér smáaura á okurvöxtum.

Sérkennilegast er þó, að rúmir tveir tugir milljarða skuli tapast án þess að nein uppstokkun verði í lánakerfinu og án þess að nokkur sé látinn taka pokann sinn.

Jónas Kristjánsson

DV