Ævintýri í tösku

Greinar

Danskur sölusnillingur hefur ferðazt um landið þvert og endilangt með tösku. Þetta er töfrataska, sem hefur þá náttúru að vera full af því, sem marga sveitarstjórnarmenn dreymir oftast um. Hún er full af iðnaðarævintýrum handa litlum sveitarfélögum á Íslandi.

Galdurinn felst í, að sölusnillingurinn segir iðnhungruðum sveitarstjórnarmönnum frá ýmsum ævintýrum, sem leynast í töfratöskunni. Þeir mega síðan kíkja í ævintýrið, sem þeim lízt bezt á, ef þeir reiða fram sem svarar 200 þúsund íslenzkum krónum.

Þannig geta þeir valið um að skoða áætlun um framleiðslu á töppum í gluggatjaldastengur fyrir áttfaldan danskan markað, á götuðum þakjárnplötum, á hitabeltisrækjum af guatemölskum ættum og á bleium handa hálfum heiminum, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Ekki er mikið að borga 200 þúsund krónur fyrir slík ævintýri, ef þau ná ekki lengra. Gallinn er, að sveitarstjórnarmenn eiga síðan kost á að fá drauminn framkvæmdan. Daninn útvegar vélar og tæki í einum pakka. Það heitir að fá “eitt stykki iðnað”.

Ef málið gengur svona langt, eins og dæmi eru um, þarf að borga vélar og tæki. Koma þarf upp húsnæði, ráða starfsfólk og þjálfa það. Síðan þarf að koma framleiðslunni í gang. Það hefur tekizt í sumum tilvikum, en ekki í öðrum. Hið síðara hefur reynzt betra.

Ef menn lenda í þeim ógöngum, að iðnaðarævintýrið hleypur af stokkunum, er oftast fjandinn laus. Þá þarf að selja vöruna, sem yfirleitt er alls ekki hægt. Þá fyrst byrjar tapið fyrir alvöru að hrannast upp. Þá verður málið að vítahring, sem drepur sveitarfélagið.

Freistandi væri að álykta, að á einhvern slíkan hátt hafi orðið til í landinu þörungaverksmiðja, svo og stálver og steinullarverksmiðja. Ennfremur hafi orðið til vangaveltur um pappírsver, moldarver, trjákvoðuver og sykurver, svo og sitthvað fleira vinsælt.

Um þennan hugsunarhátt sagði Daninn frægi í viðtali við DV: “Vandamálið við verksmiðjuna á Stokkseyri er einfaldlega, að mennirnir fóru ekki að mínum ráðum. Þeir keyptu vélarnar og gerðu síðan ekki meir. Þeir héldu, að þetta gengi af sjálfu sér.”

Ekki er við sveitarstjórnarmenn eina að sakast. Samtök sveitarstjórna víða um land hafa komið sér upp svokölluðum iðnráðgjöfum, sem eiga að hafa forustu í hugmyndafræði af þessu tagi og reyna að greina kjarnann frá hisminu. Það hefur tekizt misjafnlega vel.

Um iðnráðgjafana gildir eins og um sveitarstjórnarmennina, að þeir eru opinberir aðilar. Þeir taka ekki sjálfir fjárhagslega áhættu og ábyrgð. Þess vegna er öllum þessum aðilum hætt við að dreyma, ekki sízt þeim, sem freistast til að lofa iðnaði fyrir kosningar.

Í iðnaðarævintýrunum eru sveitarstjórnir komnar út fyrir heppilegt verksvið. Þær geta reynt að hlúa að iðnaði, til dæmis með afslætti af gjöldum eða með því að reisa iðngarða og bjóða þar ódýra leigu. En þær geta tæpast ákveðið, svo vel fari, hvaða iðnaður rísi.

Svo er velgengni hins snjalla Dana fyrir að þakka, að sveitarstjórnarmenn eru farnir að átta sig á, að hættulegt getur verið að láta sig dreyma um “eitt stykki iðnað”, sem fari af stað, þegar ýtt sé á hnapp, ­ og einnig hættulegt að lofa kjósendum slíkum skýjaborgum.

Fögur eru iðnaðarævintýri, sem byggð eru á óskhyggju. En þau halda ekki fegurð sinni, nema þau séu áfram geymd í töfratöskunum.

Jónas Kristjánsson

DV