Afburða stjórnarskrá

Greinar

Evrópusambandið fékk í fyrra stjórnarskrá, sem ber af öðrum slíkum, þar á meðal þeim bandarísku og íslenzku. Öðrum þræði er eðlilegt, að ný stjórnarskrá sé betri en hinar gömlu. En jafnframt er ljóst, að önnur og betri hugsun er að baki hinnar nýju stjórnarskrár, sem hefur 77% fylgi Evrópubúa.

Evrópska stjórnarskráin hefur mannréttindakafla, sem fer langt upp fyrir nýlegan kafla í íslenzku stjórnarskránni. Evrópska stjórnarskráin leggur meiri áherzlu á félagslegt og menningarlegt réttlæti og spannar fleiri svið, svo sem um réttindi til umhverfisverndar og um réttindi dýra.

Sumt af þessu hefur samevrópskt gildi, svo sem ákvæðið um, að allir skuli hafa rétt til að skrifa til Evrópusambandsins á sínu eigin tungumáli og að fá til baka svar á sama tungumáli. Þannig eru fámenn tungumál varin og þannig er íslenzk tunga ekki varin, því að hún er ekki í sambandinu.

Neytendur, konur, börn og minnihlutahópar eru rækilega varðir í evrópsku stjórnarskránni. Þar er einnig lögð áherzla á frjálsan og væntanlega ókeypis aðgang að skólum og heilsugæzlu, sem Ísland virðist vera að falla frá um þessar mundir. Svipaða sögu er að segja um réttinn til verkfalla.

Evrópska stjórnarskráin reynir að verja fólk gegn of mikilli vinnu með áherzlu á samfellt lágmarksfrí á ári hverju, í viku hverri og á degi hverjum. Það síðasta hefur vakið reiði íslenzkra langferðabílstjóra. Hún gerir líka ráð fyrir fríi foreldra í tengslum við og í framhaldi af fæðingu barna.

Neytendavernd er í evrópsku stjórnarskránni. Vestan hafs verða stjórnvöld að sanna, að vara sé óholl, eins og frægt var í tóbakinu og síðar í erfðabreyttum matvælum. Í Evrópu verða framleiðendur að sanna, að vara þeirra sé ekki óholl. Þetta auðveldar varnir gegn tóbaki og erfðabreyttum mat.

Náttúran nýtur verndar og virðingar í stjórnarskrá Evrópu, sem er óþekkt í sóðabæli Íslands. Það er engin furða, að sameinuð Evrópa hefur tekið algera forustu í umhverfismálum heimsins. Evrópa gerir kröfur til sjálfbærrar þróunar í atvinnulífinu. Þaðan kemur áherzlan á vetni sem orkugjafa.

Stjórnarskrá Evrópu nær einnig til dýra. Í kjölfarið verður verksmiðjuiðnaður í eggjum og kjúklingum bannaður árið 2012. Settar hafa verið reglur um villt dýr og um lágmarksstærð á básum og stíum í gripahúsum. Eitt af markmiðum Evrópu er lífræn ræktun án tilbúins áburðar og tilbúinna eiturefna.

Friður og félagslegur markaðsbúskapur eru einnig markmið í nýju stjórnarskránni, sem verður fyrirmynd breytinga á öðrum stjórnarskrám. Fylgist íslenzka stjórnarskrárnefndin með?

Jónas Kristjánsson

DV