Áfengi og herfang

Greinar

Þegar menn verða ráðherrar í þriðja heiminum, þykir ættingjum þeirra og vinum sums staðar sjálfsagt að njóta hlutdeildar í hinni nýfengnu dýrð. Þetta er hluti af gömlu reglunni um, að auður og aflafé skuli að hluta til sáldrast til þeirra, sem eru nákomnir hinum heppna.

Á Vesturlöndum hefur velferðarríkið leyst þetta gamla samtryggingarkerfi af hólmi. Í nútímanum er ekki lengur leyft, að litið sé á opinber embætti eða opinber tignarstörf sem eins konar herfang, er skuli að hluta dreifast til ættingja, vina og pólitískra samherja.

Íslenzkir stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að losa sig úr þriðja heiminum, ekki bara að þessu leyti. Þeir vilja almennt nota aðferðir þriðja heimsins, svo sem í efnahagsmálum, þar sem þeir kjósa handafl af ýmsu tagi og skömmtun lífsgæða til gæludýra kerfisins.

Misnotkun ráðherra á aðgangi að ódýru brennivíni er tiltölulega ódýr hluti af þessu fargani, sem hefur gert Ísland að þriðja heims bananalýðveldi. En hún er einkar dæmigerð um hugarfarið að baki, þar sem pólitískir ribbaldar líta á ráðherrastóla sem herfang sitt.

Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefur umfram aðra ráðherra tengst fréttum af flutningi á ódýru ríkisáfengi út í bæ. Nú síðast hefur komizt upp um, að hann lét senda rúmlega 100 áfengisflöskur heim til pólitísks samherja, ritstjóra Alþýðublaðsins.

Ef Ingólfur Margeirsson, ritstjóri Jóns, getur ekki haldið upp á fertugsafmæli sitt fyrir fátæktar sakir, er rétt, að Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður leysi málið á vettvangi Alþýðuflokksins eða Alþýðublaðsins. Það er á þeim vettvangi, að þeir eru samherjar.

Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður á ekki að geta fengið Jón Baldvin Hannibalsson ráðherra til að leggja á herðar skattgreiðenda kostnað, sem varðar aðeins hinn fyrrnefnda. Þetta er tiltölulega einfalt siðalögmál, sem er orðið algilt í hinum vestræna heimi.

Varnarritgerð ráðherrans bendir til, að langvarandi misnotkun hafi dregið úr skilningi hans á mismun þess, sem gildir í þriðja heiminum og hvað gildir í nútímaþjóðfélögum á Vesturlöndum. Hann reynir í henni að flækja málið sem mest með því að tala um óskylda hluti.

Ráðherrann segir í varnarritgerðinni, að ráðherrar bjóði fulltrúum aðalfunda ýmissa félagssamtaka í boð og haldi samstarfsmönnum sínum í ráðuneytunum hóf af ýmsum tilefnum, og spyr, hvort ekki megi þá alveg eins halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn.

Svarið við spurningu ráðherrans er einfaldlega nei. Ráðherrar eiga ekki að halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn, ekki fyrir gamla skólafélaga, ekki fyrir gamla og nýja vini, ekki fyrir ættingja sína. Og þeir eiga alls ekki að útvega ódýrt ríkisbrennivín í slík boð.

Ráðherrar mega hins vegar halda uppi risnu fyrir hönd embætta sinna, til dæmis þegar innlend merkisfélög halda mikilvæga aðalfundi eða þegar mikilvægir útlendingar koma í heimsókn. En í öllum slíkum tilvikum verður að gæta hófs og fara að settum reglum.

Raunar er óviðfelldið að þurfa enn einu sinni að útskýra fyrir ráðherra, hvað teljist til góðra siða og hvað ekki. Ofangreindar siðareglur eiga að vera öllum ljósar. En því miður eru nokkrir ráðherrar, sem nú sitja, ekki nógu siðaðir til að skilja, að stóll er ekki herfang.

Sorglegt er, að siðlitlir, íslenzkir ráðherrar skuli sífellt verða sér til skammar og að framferði þeirra skuli þurfa að vera milli tannanna á mikilvægum útlendingum.

Jónas Kristjánsson

DV