Tilraun til hallarbyltingar var gerð í Sovétríkjunum á valdaskeiði Gorbatsjovs. Hann var settur í stofufangelsi við Svartahafið og afturhvarfssinnaðir byltingarstjórar settust að sumbli. Herinn brást þeim og stakk þeim dauðadrukknum í fangelsi, en Jeltsín komst til valda.
Drykkjuskapur hefur löngum verið þjóðarböl Rússa. Vesturlandamenn, þar á meðal Íslendingar, sem verið hafa í viðskiptaerindum í Moskvu, segja tröllasögur af óhóflegri áfengisneyzlu, sem gjarna hefst strax að morgni dags og truflar dómgreind manna við samningagerð.
Gorbatsjov reyndi að hamla gegn ölæðinu með því að takmarka sölu brennivíns. Hann bakaði sér óvinsældir róna á hæstu og lægstu stöðum, enda er talið, að hann eigi enga möguleika, ef hann býður sig fram til forseta, þegar kjörtímabili Jeltsíns lýkur í sumar.
Andstaða við fyllirí hefur raunar víðar dregið úr pólitískum frama manna. Þekktur íslenzkur stjórnmálamaður hraktist fyrir nokkrum árum úr stóli forsætisráðherra af því að “hann vildi ekki drekka með strákunum”, eins og kona eins ráðherrans orðaði það.
Ástandið á Íslandi er þó margfalt betra en í Rússlandi. Hér hefur hetjudýrkun rónans aldrei náð þeirri ýktu mynd, sem sést hjá valdamönnum í Rússlandi. Hér hvolfa menn ekki í sig úr heilum brennivínsglösum í einu og eru yfirleitt ekki að drekka á vinnutíma.
Sendiherra Rússlands á Íslandi hefur fengið íslenzka utanríkisráðuneytið til að tuða út af leiðurum í DV, þar sem látið var í ljós álit á augljósri ofdrykkju Rússlandsforseta. Nær væri fyrir sendiherrann að útvega íslenzka aðstoð við að kenna Rússum að hætta að drekka.
Eins og Bandaríkjamenn hafa Íslendingar náð góðum árangri við að þurrka róna og koma þeim aftur til athafna og álits í þjóðfélaginu. Sennilega er árangurinn betri á Íslandi en í Bandaríkjunum, þar sem aðferðirnar urðu til. Rússar geta margt af okkur lært í þessu efni.
Raunar ætti þurrkun róna að geta orðið margfalt meiri útflutningsgrein af hálfu Íslands en hún er núna. Það dylst engum Íslendingi, sem gengur um götur Kaupmannahafnar og London, að ótrúlega margir eru þar rúnum ristir af völdum langvinns bjórþambs.
Eðlismunur er á drykkjuskap rússneskra og vestrænna róna. Á Vesturlöndum er drykkjan aðallega stunduð undir yfirskini félagslífs og lýtur ýmsum hamlandi lögmálum á borð við að drekka ekki fyrr en eftir vinnu, ekki eftir kvöldmat og mest létt með mat.
Mesti munurinn felst í, að á Vesturlöndum er talið við hæfi, að róninn haldi haus og sé viðmælandi. Íslenzkir fyrirmenn hafa tamið sér svipaðar siðareglur, þótt almúginn veltist um á svonefndum skemmtistöðum. En í Rússlandi sést vín greinilega á háum sem lágum.
Þetta er ekki fagurfræðilegt áhyggjuefni, heldur fyrst og fremst stórpólitískt. Það er alvarlegt, að stjórnsýsla Rússlands skuli fljóta í brennivíni. Það er áhyggjuefni, að þar taka valdamenn ákvarðanir í annarlegu ástandi, svo sem skýrt sést í sjónvarpi á Rússlandsforseta.
Efnahagshnignun Rússlands á síðustu árum tengist drykkjuskap og röngum ákvörðunum, sem teknar eru á fylliríi. Þannig hefur forsetinn hrakið burt alla umbótamenn og látið afturhvarfsmenn fylla stöður þeirra. Og ríkið er orðið ótraust í erlendum samskiptum.
Afleiðingar stórkarlalegra drykkjusiða í Rússlandi eru orðnar að fjölmiðlaefni víðar en á Íslandi og munu verða það áfram, unz rússneska yfirstéttin tekur sér tak.
Jónas Kristjánsson
DV