Afleit og skammlíf

Greinar

Yfir þjóðinni vofir afleit ríkisstjórn, en sem betur fer skammlíf. Það verður niðurstaðan, ef Steingrími Hermannssyni tekst að ná saman hagsmunabandalagi Sambands íslenzkra samvinnufélaga og þeirra stjórnmála flokka, sem alls ekki þola kosningar á næstunni.

Engin stemmning er að baki ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Borgaraflokks og Stefáns Valgeirssonar, þótt hún muni hafa tryggan þingmeirihluta að baki sér, hugsanlega 39 þingmenn af 63. Þingmeirihluti segir ekki allt.

Stjórnarflokkarnir fengu samanlagt innan við 40% fylgi í síðustu skoðanakönnun okkar. Á móti standa þau tvö stjórnmálaöfl, sem skoðanakannanir sýna, að eru núna hin öflugustu í landinu, með um 60% fylgi. Almenningsálitið verður ríkisstjórninni því þungt í skauti.

Það er einmitt andsnúið almenningsálit, sem hrekur Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Borgaraflokkinn í náðarfaðm Framsóknarflokksins. Enginn flokkanna þriggja þorir í kosningar á næstunni. Stjórnaraðild er eina undankomuleið þeirra til að fresta kosningum.

Fylgisleysi Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks er svo algert, að það getur tæpast versnað, að mati leiðtoga flokkanna. Með því að tefja kosningar er alltaf fræðilegur möguleiki á betri tíð með blóm í haga. Þetta var beitan, sem Steingrímur notaði.

Hann má svo láta sér í léttu rúmi liggja, þótt stjórnin endist ekki út kjörtímabilið. Flokkur hans getur farið út í kosningar, hvenær sem er, án þess að búast við tilfinnanlegu fylgistapi. Markmið hans, að bjarga fyrirtækjum Sambandsins, er til fremur skamms tíma.

Steingrímur Hermannsson þarf eftir krókaleiðum að lækka tekjur starfsfólks frystihúsa, lækka gengi krónunnar og lækka raunvexti fjárskuldbindinga, svo að fyrirtækin, sem standa að baki Framsóknarflokksins, komist úr taprekstri og á sléttan sjó.

Efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar munu hafa þetta að markmiði, þótt það verði sumpart klætt í orðaleiki, einkum til að dylja kjaraskerðinguna. Þegar þeim aðgerðum er lokið, hefur stjórnin lokið hlutverki sínu og getur farið að sinna innri ágreiningsefnum.

Steingrímur getur að vísu sjálfur setið á friðarstóli, þar sem hann hefur náð stólnum, sem gerði hann friðlausan, þegar hann var bara óbreyttur utanríkisráðherra. En hann mun hafa nóg að gera, þegar hvatvísir formenn A-flokkanna taka upp fyrri sandkassaerjur.

Mjög fljótlega mun hegðun ráðherra í nýju stjórninni byrja að einkennast af undirferli til að búa í haginn fyrir sig og sína fyrir næstu kosningar og hnífstungum til að spilla sem allra mest fyrir samráðherrunum og þeirra flokkum. A-flokkarnir eru sérfræðingar í þessu.

Ofan á þennan eldivið bætist svo, að oddamenn flokkanna eru einmitt hinir hvatvísu stjórnmálamenn, sem uppteknastir eru af eigin persónu, hafa mesta þörf fyrir að baða sig í sviðsljósi sjónvarpsins og gera minnstan greinarmun á góðum og vondum sjálfsauglýsingum.

Þegar glansinn verður farinn af efnahagsaðgerðum þessarar helgar, mun smám saman koma í ljós, að samkomulagsgrundvöllur ríkisstjórnarinnar verður þjóðinni óhagstæður. Smám saman mun ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar takast að breyta góðæri í kreppu.

Að lokum mun stjórnin hrökklast frá við lítinn orðstír og hagsmunabandalagið ekki fá sneitt hjá örlögum, sem það hefur óttazt og flúið á allra síðustu dögum.

Jónas Kristjánsson

DV