Afleitur síldarsamningur

Greinar

Samningur strandríkja Íslandshafs um veiðar á norsk- íslenzku síldinni er okkur afar óhagstæður og kemur ekki í veg fyrir ofveiði, af því að Evrópusambandið stendur utan við samninginn og hefur ítrekað, að það muni halda fast við 150 þúsund tonna veiði sína.

Færeyingar, Íslendingar, Norðmenn og Rússar verða nú að fara sameiginlega bónarveg að Evrópusambandinu og biðja það um að semja um minni síldarkvóta fyrir sig á næsta fiskveiðiári. Ekki er enn vitað um neinn ádrátt um slíkt af hálfu Evrópusambandsins.

Ekki bendir heldur nein reynsla til þess, að Evrópusambandið sé veikt fyrir rökum um stofnverndun og skipulega fiskveiði. Hingað til hafa áhrif bandalagsins jafnan leitt til aukinnar ofveiði á hafsvæðum bandalagsþjóðanna, svo sem í Norðursjó og á Biskayaflóa.

Samkvæmt samningnum veita Íslendingar Norðmönnum og Rússum einhliða leyfi til síldveiða í fiskveiðilögsögu Íslands. Þessi furðulega heimild kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og er í algerri þversögn við grundvallarforsendur landhelgisbaráttu okkar.

Á móti fá Íslendingar hvorki leyfi til síldveiða í norskri né rússneskri fiskveiðilögsögu. Samkvæmt Jan Mayen samkomulaginu frá 1980 höfum við þegar heimild til slíkra veiða á því svæði, sem er utan fiskveiðilögsögu Noregs, og þurfum ekki nýja heimild til þess.

Samkomulag náðist upp á þau býti, að Íslendingar gáfu eftir 54 þúsund tonn af 244 þúsund tonna kröfu sinni og fara niður í 190 þúsund tonn. Norðmenn og Rússar gefa hins vegar ekki eftir nema 24 þúsund tonn af 851 þúsund tonna samanlögðum kröfum sínum.

Þegar Íslendingar gefa eftir 23% af kröfu sinni og Norðmenn og Rússar gefa eftir 4%, hlýtur að vakna sú spurning, til hvers var allt þetta samningaþóf. Ef ætlunin var alltaf að gefast upp, var hægt að gera það strax og ná betri tíma til undirbúnings að veiðunum.

Samkvæmt samningnum eiga Íslendingar 17% af síldinni, unz samið verður um hlut Evrópusambandsins, en þá lækkar hlutur okkar sennilega í 14%. Þetta er afar lágt hlutfall í sagnfræðilegum samanburði, því að í gamla daga höfðum við 30-40% af norsk-íslenzku síldinni.

Óljóst er það ákvæði samningsins, sem vekur þá ímyndun íslenzku samningamannanna, að semja megi síðar um hærri hlut Íslendinga, ef norsk-íslenzka síldin fer að ganga í miklu magni inn í lögsögu Íslands. Slíkt yrði háð velvilja hinna erlendu viðsemjenda.

Samningamenn okkar verja undirskrift sína með því að segja mikilvægast að ná samkomulagi um takmörkun veiða, svo að síldin nái að verða sjö ára og eldri, þannig að hún fari í meira mæli í fiskveiðilögsögu Íslands, eins og hún gerði á áratugum síldarævintýrisins.

Þar sem Evrópusambandið stendur utan hins nýja samnings og segir hann hljóma sem flugusuð í eyrum sér, eru engar sérstakar ástæður til að ætla, að hann leiði til stækkunar síldveiðistofnsins og betri aldursdreifingar síldarinnar. Um það er enn öldungis ósamið.

Mjög hefur lækkað risið á Íslendingum í fjölþjóðlegum samningum um fiskveiðilögsögu og fiskveiðiréttindi, síðan þorskastríðin voru háð við Breta og nokkrar þjóðir á meginlandi Evrópu. Í deilunum um Jan Mayen kom í ljós, að Íslendingar voru farnir að linast.

Nýi samningurinn sýnir, að enn hefur ástandið versnað. Ekki er lengur neitt bein í nefi íslenzkra ráðamanna, er þeir heyra erkibiskups boðskap í Noregi.

Jónas Kristjánsson

DV