Herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hvorki bandarískt sendiráð né bandarískt land. Hún er íslenzkt land, sem hefur um sinn verið lánað endurgjaldslaust til eftirlitsþarfa varnarbandalags, sem þorri Íslendinga styður heils hugar. Þar eiga að gilda íslenzk lög og íslenzkar reglur.
Því miður hafa þar verið veittar víðtækar undanþágur, sem tímabært er að afturkalla. Um leið þarf að skrúfa fyrir ýmsa spillingu, er byggist á þessum undanþágum, þar á meðal hermangið, sem felst í að ekki eru boðin út verk og siglingar á heilbrigðan hátt.
Í rauninni er fáránlegt, að íslenzk króna skuli ekki vera gjaldmiðill þessa hluta Íslands eins og annarra hluta. Viðskipti, launagreiðslur og bókhald á Keflavíkurflugvelli eiga að fara fram í krónum. Aðrar myntir eiga þar ekki erindi, meðan þær gilda ekki annars staðar í landinu.
Einnig er fáránlegt, að skattar, tollar og aðrar skyldur skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli á sama hátt og í öðrum hlutum landsins. Á þessum sviðum gildir hæði að láta íslenzk lög gilda og að koma í veg fyrir spillingu, sem fylgir smygli út fyrir vallargirðingu.
Til dæmis ber að innheimta full aðflutningsgjöld af öllum vörum, nema beinum hernaðartækjum. Ennfremur bensíngjald og bifreiðaskatt. Svo og lögboðin tryggingagjöld. Einnig söluskatt og öll hin smáu og hugvitssamlegu gjöld, sem stjórnvöld hér hafa fundið upp.
Fáránlegt er, að lög og reglugerðir um innflutningsbann á ýmsum matvælum skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli. Reglur þessar eru sagðar eiga að hamla gegn smiti og sjúkdómum. Meðan þær gilda í landinu í heild, eiga þær líka að gilda á þessum bletti þess.
Að vísu eru margir þeirrar skoðunar, að þessar hömlur séu óþarfar og jafnvel skaðlegar, eins og bannið við notkun á erlendum gjaldmiðlum innanlands. En hugsanlegt afnám slíkra hamla ætti þá að gilda fyrir landið í heild og ekki fyrir lítinn hluta þess.
Ennfremur er fáránlegt, að byggingaframkvæmdir, siglingar og önnur verk á vegum herstöðvarinnar skuli ekki hlíta siðferðilegum reglum frjálsra útboða. Við eigum ekki að þurfa að horfa á illa fengið hermangsfé að Höfðabakka 9, við anddyri Reykjavíkur.
Loks er fáránlegt, að Íslendingar skuli ekki með skipulegum hætti þjálfa fólk til að taka að sér margvísleg störf, sem nú eru unnin af útlendingum, önnur en rekstur ratsjár- og fjarskiptastöðvar, flugsveitar, ratsjárflugvéla og hergagnavarðveizlu.
Íslendingar eiga að taka að sér verklega framkvæmdadeild eftirlitsstöðvarinnar, birgðadeild, bókhald og endurskoðun, sjúkrahús, tómstundastofnanir, verzlunarmiðstöð, skemmtistaði, flugvélaviðgerðir og hluta flugrekstrar, svo að ýmis borgaraleg störf séu nefnd.
Tímabært er að endurskoða alla þessa hluti í kjölfar athyglinnar, sem hefur beinzt að yfirtöku bandarísks skipafélags á hermangi íslenzkra skipafélaga. Heiðarleg útboð á þeim vettvangi eiga að vera eðlilegur þáttur í ofanrakinni siðvæðingu á Keflavíkurflugvelli.
Íslendingar taka mikla áhættu af því örlæti að lána vinaþjóðum sínum endurgjaldslausan aðgang að hluta lands síns. Þeirri greiðasemi á fyrir engan mun að fylgja hið minnsta afsal á lögum þeim, reglugerðum og siðvenjum, sem gilda fyrir Ísland í heild. Undanþágurnar á að afnema.
Jónas Kristjánsson.
DV