Afsakið, afsakið

Greinar

Devon Largio hefur tölvukeyrt yfirlýsingar ríkisstjórnar George W. Bush Bandaríkjaforseta og fundið 23 mismunandi forsendur stríðsins gegn Írak. Þær snúast um allt milli himins og jarðar, frá meintum gereyðingarvopnum Saddam Hussein yfir í meint getuleysi Sameinuðu þjóðanna við að breiða vestrænt lýðræðiskerfi út um allan heim.

Í viðtali við Washington Post sagðist Largio eftir tveggja ára vinnu ekki hafa komizt að raunverulegri ástæðu stríðsins. Það stafar auðvitað af, að fyrst var ákveðið að fara í stríð og síðan var leitað að afsökunum fyrir þeirri ákvörðun. Þær afsakanir fylgdu því, sem heppilegast og mest sannfærandi var talið á hverjum tíma.

New York Times hefur fyrst bandarískra dagblaða beðist afsökunar á þætti sínum við að koma á framfæri hinum ýmsu forsendum stríðsins gegn Írak. Svo virðist sem blaðið hafi ekki fylgt vinnureglum sínum og í þess stað gleypt hráar hinar ýmsu yfirlýsingar CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem var úti að aka allan aðdraganda stríðsins.

Komið hefur í ljós, að Amad Tsalabi fóðraði leyniþjónustuna á alls konar upplýsingum, sem hún þráði að heyra til að geta fóðrað ríkisstjórn Bandaríkjanna á upplýsingum, sem hún þráði að heyra. Nú segir leyniþjónustan, að Tsalabi hafi í rauninni verið njósnari á vegum Írans. Spurningin er svo, hvort við eigum að trúa henni núna.

Það er hins vegar staðreynd, að vinslit hafa orðið milli bandarísku landstjórnarinnar í Írak og Tsalabi, eins og raunar milli bandarísku landstjórnarinnar og innlendu ráðgjafarnefndarinnar, sem bandaríska landstjórnin skipaði raunar sjálf á sínum tíma. Leppur Bandaríkjanna í Írak hefur þannig reynzt vera skapara sínum ótraustur ráðgjafi.

Enn er spurt, hver eigi að bera ábyrgð á allri þessari vitleysu. Eru það ritstjórar bandarísku stórblaðanna, sem létu fóðra sig á þvættingi? Eru það yfirmenn bandarísku leyniþjónustunnar, sem fóru heljarstökk í tilraunum við að þjónusta ríkisstjórnina? Er það ríkisstjórnin sjálf, einkum forseti landsins og varaforsetinn?

Sennilega var ísraelska leyniþjónustan Mossad upphaflega að verki og hægri sinnaðir hugmyndapáfar á borð við Paul Wolfowitz, sem voru undir áhrifum frá Mossad. Ísraelska leyniþjónustan vildi flækja Bandaríkin inn í vandræði í heimi múslima og hefur svo sannarlega tekizt það. Ísrael var þúfan, sem velti bandaríska fjallinu.

New York Times hefur beðizt afsökunar á aðild sinni að ruglinu, sem hefur skaðað mannkyn, vestrænt samstarf og Bandaríkin, sem nú hafa beðið þvílíkt skipbrot í hernaði, að þau geta ekki farið í fleiri stríð næstu árin. En bandarísk leyniþjónusta og ráðherrar hafa ekki beðizt afsökunar og ekki heldur leyniþjónusta og ráðamenn Ísraels.

Enn er haldið áfram að ljúga að okkur. Enn eru Bush og Blair hástöfum að selja stríð, sem var til þess fallið að magna hættu á hryðjuverkum á Vesturlöndum og grafa undan einingu Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV