Afsal þjóðareignar

Greinar

Með fyrirhugaðri heimild til veðsetningar aflakvóta er eytt tvískinnungi kerfis, sem segir, að þjóðin eigi auðlindina í hafinu, en afhendir hana samt útvegsmönnum til ráðstöfunar, þar á meðal til kaups og sölu. Heimildin er eðlilegt framhald af núverandi kvótakerfi.

Stjórnarfrumvarp um þetta efni hefur verið lagt fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar. Þar hafa nokkrir þingmenn lýst yfir efasemdum um ágæti þess og vilja ekki staðfesta með slíkum hætti, að þjóðin eigi ekki lengur auðlindina. Óvíst er því um afdrif frumvarpsins.

Samkvæmt gruggugu orðalagi þess má veðsetja kvóta og þinglýsa honum, þannig að ekki má aflétta veðinu, án þess að veðhafar samþykki. Þetta er lokaskrefið í átt til einkaeignar á fiskinum í sjónum, þótt reynt sé að fela það með lögfræðilegum orðaleikjum frumvarpshöfunda.

Á stofnanamáli frumvarpsins hljóðar þetta svo: “Hafi fjárverðmæti það, sem réttindi eru skráð á, verið veðsett, er eigi heimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu, nema með þinglýsingu og með þinglýstu samþykki þeirra, sem réttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.”

Með frumvarpinu hafa línur skýrzt í kvótakerfinu. Frumvarpið markar lokaskrefið í endanlegu afnámi þjóðareignar á auðlind hafsins og endanlegri yfirtöku einkaaðila, sem geta látið eignina ganga kaupum og sölum og veðsett hana eins og hverjar aðrar fasteignir sínar.

Þetta þýðir líka, að skera verður upp herör þeirra, sem sætta sig ekki við þessi málalok. En ekki er nóg að brjóta frumvarpið á bak aftur, heldur verður líka að leggja niður núverandi kvótakerfi, því að það hlýtur alltaf að leita rökréttrar niðurstöðu í formi einkaeignar.

Aðeins ein lausn kemur í veg fyrir eðlilega þróun kvótakerfisins í átt til endanlegrar einkaeignar. Í stað kvótakerfisins þarf að koma skömmtunarleið, sem varðveitir eignarhald þjóðarinnar. Sú leið felst í tímabundinni og takmarkaðri leigu veiðileyfa gegn gjaldi.

Nógu lengi hefur verið talað um, að taka þurfi upp auðlindaskatt eða veiðileyfagjald. Því máli hefur jafnan verið eytt. Nú er hins vegar komin upp sú örlagastaða, að útleiga af hálfu ríkisins verður ekki umflúin, ef varðveita á eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni.

Bezta leiðin til að nýta eignarhald þjóðarinnar er að bjóða upp veiðikvóta með reglulegu millibili. Þá eru notuð eðlileg markaðslögmál til að finna, hvað sé sanngjarnt, að þjóðin hafi í afrakstur af auðlind sinni. Uppboð á leigukvóta er heilbrigðasta leiðin í málinu.

Því miður eiga markaðslögmál ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum og sízt hjá stjórnmálaflokkunum, sem standa að frumvarpinu um afsal auðlindarinnar. Þess vegna má búast við, að leiga á veiðileyfum taki á sig einhverja aðra mynd en hins frjálsa uppboðsmarkaðar.

Í staðinn má úthluta veiðileyfum með sagnfræðilegum og landfræðilegum hömlum eða einhverri annarri skömmtunarleið, sem hámarkar ekki afrakstur þjóðarinnar af leigunni, en þjónar samt því meginhlutverki að koma í veg fyrir, að þjóðin glati auðlindinni.

Þeir, sem hafa deilt um misjafnt ágæti ýmissa aðferða við leigu á kvóta, verða nú að taka saman höndum og fresta ágreiningnum, meðan þeir verjast atlögu stjórnarfrumvarpsins og nota tækifærið til að sýna fram á, að eina vörnin gegn atlögunni felst í leigu veiðileyfa.

Með tímabundinni leigu veiðileyfa er fest í sessi sú skoðun, að handhafar veiðileyfa eigi ekki auðlindina, heldur þjóðin sjálf, sem tekur fyrir hana leigugjald.

Jónas Kristjánsson

DV