Afskekkta álverið

Greinar

Það sker í augu, að sölumenn Kárahnjúkavirkjunar veifa núna jarðgöngum milli byggða á Austfjörðum framan í ráðamenn Norsk Hydro til að sýna fram á aukið framboð af mannauði í nágrenni Reyðarfjarðar og reyna þannig að lífga við áhuga þeirra á Reyðaráli.

Með þessu er búið að bæta kostnaði jarðganganna við fyrirhugaðan virkjunarkostnað. Verið er að bjóða niðurgreiðslu ríkisins á orkuverði Landsvirkjunar og gera Reyðarál að stærsta styrkþega Íslandssögunnar. Dæmið var vitlaust áður, en nú tekur steininn úr.

Tilefnið er afdráttarlaus yfirlýsing forstjóra áldeildar Norsk Hydro um, að Austfirðir séu fámennis vegna ekki heppilegur staður fyrir álver. Hann segir meira að segja, að risastórt álver geti orðið skaðlegt annarri og fyrirferðarminni framleiðslu á Austurlandi.

Það sker líka í augu, að Eivind Reiten forstjóri gerir grín að forustumönnum Reyðaráls og Afls fyrir Austurland með því að vekja sérstaka athygli á, að þeir hafi engar áhyggjur af félagslegum áhrifum álversins, þótt yfirmenn Norsk Hydro séu uppteknir af þeim.

Yfirlýsingin táknar ekki, að Norsk Hydro sé hætt við aðild að Reyðaráli. Hún felur frekar í sér, að íslenzkir samstarfsaðilar verði að leggja harðar að sér við að láta ríkið útvega fyrirtækinu á kostnað skattgreiðenda þá innviði, sem hann telur skorta austur á fjörðum.

Við munum því sjá á næstu tveimur árum ýmsar ráðagerðir pólitíkusa um sértækan stuðning skattgreiðenda við Austfirði til þess að gera þá álvershæfa. Þar með eru talin göng milli fjarða meðan léleg umferðarmannvirki valda stórslysum á höfuðborgarsvæðinu.

Á sama tíma munu Landsvirkjun og Reyðarál skammta okkur konfektmola úr hnefa í formi niðurstaðna rannsókna á borð við þá, að strönd Héraðsflóa muni ekki breytast mikið við stíflur, sem fylla lón af aur í stað þess að hleypa honum fram til sjávar.

Ekki mun takast að láta tímann vinna með Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli á þennan hátt, því að önnur atriði koma á móti. Óhjákvæmilegt er, að efasemdir muni vaxa hjá íslenzkum lífeyrissjóðum um, að skynsamlegt sé fyrir þá að standa undir Reyðaráli.

Tilgangur lífeyrissjóða er að varðveita sparifé Íslendinga, svo að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af ellinni. Áhættufjárfesting í afskekktum þungaiðnaði er utan rammans. Vitrænna er fyrir lífeyrissjóðina að dreifa áhættunni með því að kaupa erlend verðbréf.

Lífeyrissjóðir voru upphaflega ginntir til að taka þátt í undirbúningi Reyðaráls. Hætt er við, að fljótlega fari að hitna undir sumum fulltrúum lífeyrissjóðanna, þegar menn fara að átta sig betur á, að þeir eru að leika sér óvarlega með afar viðkvæma öryggisfjármuni.

Tíminn vinnur líka gegn Reyðaráli á þann hátt, að fleiri Íslendingar munu smám saman átta sig á, að auðsuppspretta í framtíðaratvinnu felst ekki í láglauna-þungaiðnaði á borð við álver, heldur í hálauna-þekkingariðnaði á borð við tölvur og hugbúnað.

Ennfremur fjölgar stöðugt þeim Íslendingum sem átta sig á, að kominn er tími til að varðveita stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Þessi víðerni hálendisins eru í auknum mæli að verða helzti hornsteinn og einkennistákn tilveru Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar.

Um langt skeið hafa allar fréttir af Reyðaráli verið þess eðlis, að talsmenn þess hafa þurft að hlaupa upp til handa og fóta til að reyna að takmarka tjónið.

Jónas Kristjánsson

DV