Afturhaldið allsráðandi

Greinar

Tilraunir Landssambands sauðfjárbænda til að breyta hefðbundnum viðhorfum ráðamanna bænda báru engan árangur á aðalfundi Stéttarsambands bænda í þessari viku. Tillagan um að lækka verð á kindakjöti til að auka söluna náði ekki fram að ganga.

Allra stærst af fjölmörgum vandamálum hins hefðbundna landbúnaðar er framleiðsla á kindakjöti fyrir neytendur, er kaupa minna magn með hverju árinu, sem líður. Í fyrra voru framleidd 12.215 tonn, en aðeins 9.405 tonn seld. Óseldar birgðir námu 6.820 tonnum 1. apríl.

Fráfarandi formaður Stéttarsambandsins viðurkenndi í setningarræðu sinni, að seljendur kjötsins kvörtuðu yfir, að það væri of dýrt í samanburði við annan mat og sömuleiðis of feitt. Hvort tveggja er síðbúin hugljómun, en samt sem áður þakkarverð.

Stjórnendum landbúnaðarins finnst fráleitt að leysa vandann með því að lækka verðið, nema þá að ríkið taki að sér að reyna að auka söluna með því að hækka niðurgreiðslurnar, sem bændastjórarnir segja raunar sífellt, að séu ekki fyrir bændur, heldur neytendur.

Í hvert sinn, sem frá landbúnaðinum heyrist imprað á hugmyndum um að leysa vandamál í greininni með auknum eða nýjum niðurgreiðslum, er rétt fyrir neytendur að rifja upp, að niðurgreiðslur búvöru eru framkvæmdar í meinta þágu bænda en ekki neytenda.

Þegar ríkissjóður rambar á barmi greiðsluþrots eins og um þessar mundir og getur ekki orðið við kröfum um niðurgreiðslur, hafa bændastjórar séð aðra leið í málinu. Hún er falin í auglýsingaherferð, þar sem neytendur eru hvattir til að kaupa dýrt og feitt kjötið.

Neytendur, sem kaupa dilkakjötið dýrum dómi og skera utan af því þykka fitukeppi, geta reynt að telja sér trú um, að lömb séu fjalladýr, en ekki feitir fóðurkálsþegar. Samt er hætt við, að þeir hlaupi ekki upp til handa og fóta vegna auglýsinga einna saman.

Sumir hefðu talið skynsamlegra að leysa fyrst vandamál verðs og fitu og fara svo í auglýsingaherferð. En gallinn er, að enn er grunnt á hinu gamla sjónarmiði í landbúnaði, að neytendur eigi að gera svo vel að haga sér eftir óskum framleiðenda, en alls ekki öfugt.

Landssamband sauðfjárbænda vildi koma á samstarfi bænda og milliliða um að lækka verð á kjötinu til að það seldist betur og að síður yrði þörf á framleiðsluskerðingunni, sem nú er yfirvofandi. Það kom auðvitað í ljós, að milliliðunum líkaði þetta stórilla.

Fráfarandi formaður Stéttarsambandsins hræddi aðalfundarmenn með þeim tíðindum, að tillaga sauðfjárbænda hefði skotið milliliðunum slíkan skelk í bringu, að búvörudeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga hefði hreinlega stöðvað alla kjötsölu sína.

Fundarmenn spurðu ekki, hvort í þessu fælist óviðurkvæmileg hótun af hálfu búvörudeildarinnar, heldur slátruðu þeir tillögunni um lækkun kjötverðs. Þess vegna verður nú tekin upp jafngrimmileg ofstjórn á framleiðslu dilkakjöts og komin er í mjólkinni.

Bændur munu eins og neytendur finna fyrir, að ofstjórnin eykur vandann, en leysir ekki. Enda má af samanburði sjá, að óseljanlegar birgðir hlaðast ekki varanlega upp í búgreinum, sem ekki er stjórnað að ofan, ­ í framleiðslu eggja, nauta-, fugla- og svínakjöts.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda vann afturhaldið fullan sigur. Bændastjórarnir hafa í raun ekkert lært og ætla áfram að vera höfuðbyrði þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV