Afturvirk leyfi

Greinar

Einn helzti skipherra Landhelgisgæzlunnar hefur sagt starfi sínu lausu og gerzt trillukarl, af því að hann er ósáttur við, hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafa leikið Landhelgisgæzluna. Skipherrann er Höskuldur Skarphéðinsson, sem fjallað er um á öðrum stað í blaðinu í dag.

Meðal þess, sem fyllti mæli Höskuldar, er afturvirkt leyfi, sem hann telur, að Þorsteinn Pálsson hafi, sem dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra í senn, veitt einu skipa Einars Odds Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem staðið var að ólöglegum veiðum.

Þessi skoðun er studd mannalátum þáverandi skipverja á Æsu, sem sögðu tökuna marklausa, af því að Einar Oddur mundi kippa málunum í liðinn fyrir sunnan. Það kom svo í ljós, að afturvirkt leyfi var skjótlega gefið út að kvöldlagi og taka skipsins gerð marklaus.

Einar Oddur hefur bætt gráu ofan á svart við upprifjun þessa máls og uppnefnt skipherra Landhelgisgæzlunnar sem “ofvirkan bókstafstrúarmann”. Þeir þykjast svo sem eiga ríkið þessir höfðingjar Sjálfstæðisflokksins, enda virðast ýmis fleiri dæmi staðfesta, að svo sé.

Þorsteinn Pálsson hefur margsinnis dregið taum sérhagsmuna gegn almannahagsmunum. Frægast var, þegar hann gekk framhjá lægsta tilboði í Síldarverksmiðjur ríkisins og lét vini sína í flokknum hafa þær á verði, sem var hundruðum milljóna króna undir raunvirði.

Hann hefur einnig dregið taum tryggingafélaganna, þegar þau hafa einhliða tekið saman höndum um að rýra kjör öryrkja. Mikill meirihluti lögmannastéttar landsins hefur fordæmt þann gerning, sem var dæmigerður fyrir stuðning ráðherrans við sérhagsmuni.

Verst er við mál af þessu tagi, að þjóðin lætur sér fátt um finnast. Hún æmtir hvorki né skræmtir, þótt flett sé ofan af hverju hneykslismálinu á fætur öðru. Hún hefur þannig komið sér upp stétt stjórnmálaleiðtoga, sem tekur áhyggjulausar geðþóttaákvarðanir eftir þörfum.

Raunar er venjulegur Íslendingur svo lokaður fyrir umræðu um siðalögmál, að hann hefur þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur. Það er ekki von, að menn endist til vera skipherrar landhelgisgæzlu og aðrir laganna verðir hjá svo siðlausri þjóð.

Fyrir nokkrum árum var í landinu fjármálaráðherra, sem lét ríkið taka verðlaus veð í ímynduðum eignum vina sinna og gaf vildarmönnum sínum ríkisfyrirtæki á Siglufirði. Hann var óvenjulega frakkur við geðþóttaákvarðanir í svipuðum stíl og dómsmálaráðherrann.

Þessi fyrrverandi fjármálaráðherra, sem er fjarri því að vera vammlaus, nýtur nú feiknarlegra vinsælda þjóðarinnar og verður sennilega orðinn forseti lýðveldisins í sumar. Ekki er hægt að hugsa sér átakanlegra dæmi um víðtækt siðleysi Íslendinga almennt.

Áhugaleysi Íslendinga um fastar leikreglur í lagalegum römmum á veigamikinn þátt í erfiðleikum þjóðarinnar, þar á meðal minni hagvexti en hjá nágrannaþjóðunum. Efnahagsleg velgengni markaðshyggjuþjóðfélaga byggist nefnilega á föstum og sjálfvirkum leikreglum.

Hér fer gengi stórfyrirtækja minna eftir rekstrarárangri heldur en eftir aðstöðu þeirra í kerfinu, samböndum þeirra við valdamenn, sem taka ákvarðanir eftir geðþótta, óbundnir af skrifuðum og óskrifuðum lögmálum, svo og möguleikum þeirra til að misnota sér fákeppni.

Hér á landi skiptir meiru, að útgerðarmaður sé í pólitík og helzt á þingi, svo að hann fái fyrirgreiðslu ráðherra, heldur en að hann kunni að reka fyrirtæki.

Jónas Kristjánsson

DV